Drullaðu þér á fætur!

Fyrir þá sem eiga erfitt með að vakna á morgnana gætu þessi örfáu ráð vonandi reynst gagnleg

25. mars 2014

Ég hef alltaf lifað eftir þeirri lífsspeki að það eina sem maður á ekki að spara við sé rúmið manns. Því ef allt gengur upp á ég eftir að eyða þar einhverjum 20-30 árum. Fyrir ekki svo löngu fór ég og keypti mér „Tempur“ dýnu (þeir segja að geimfarar NASA noti svipuð rúm, svo þetta hlýtur að vera gott stöff!), það kostaði sitt en í hvert skipti sem ég leggst upp í rúm sé ég ekki eftir krónu.

Í byrjun þessa árs fór ég síðan og keypti mér „hjónasæng“; það er, tvöfalda sæng sem nær yfir allt rúmið. Koddinn minn er eðal, íslenskur dúnkoddi - vel troðinn af dýrðlegum, mjúkum æðardún. Ég er nokkuð viss um að breska drottningin sefur ekki í betra fleti en ég.

Neikvæða hliðin á þessu er hinsvegar sú að þarna vil ég helst vera. Heilu morgnarnir hafa farið í að velta sér upp úr allri hlýjunni og mýktinni og ýta á „snooze“ takkann á vekjaraklukkunni trekk í trekk. Í rauninni var þetta orðið heljarinnar vandamál á tímabili; ég var alltaf of seinn og stöðugt koddagreiddur í þokkabót.

Fyrir þá sem eru að glíma við svipuð vandamál eða eiga erfitt með að vakna á morgnana gætu þessi örfáu ráð vonandi reynst gagnleg:

Stilltu vekjaraklukkuna!

Satt best að segja á vekjaraklukkan ekki heima á náttborðinu. Það er auðvelt að teygja sig í hana til að slökkva á henni eða snúsa. Það hefur reynst mér vel að setja hana lengra í burtu svo ég hreinlega neyðist til að fara á fætur til að slökkva á henni. Eins hef ég komist að þessari niðurstöðu: því háværari og meira pirrandi sem hún er, því meiri líkur eru á að ég vakni. Ég hef til dæmis með góðum árangri sett óþolandi lög inn á símann minn og notað þau sem vekjarahringingu. Svo getur verið sniðugt að skipta reglulega um hringinguna.

Drekktu vatnsglas!

Ég sef með vatnsglas á náttborðinu í staðinn fyrir vekjaraklukku. Þegar ég rumska við klukkuna, drekk ég glasið í einum teig. Ég kann ekki vísindin á bakvið þetta, en engu að síðu svínvirkar þessi aðferð.

Komdu á rútínu!

Sniðugt er að fylgja ákveðnu mynstri á morgnana og gera eitthvað notalegt eða skemmtilegt um leið og maður vaknar. Þetta getur verið að klæða sig í náttslopp og lesa blöðin yfir einum kaffibolla, fara í sturtu eða hlusta á þungarokk. Hvað sem það er getur svona rútína hjálpað fólki að koma sér fram úr rúminu.

Sofðu rétt!

Það skiptir meira máli að sofa rétt en að sofa mikið. Svefn gengur í 90 mínútna hringjum svo það er sniðugt að skipuleggja svefn eftir því. Sofa í 6 tíma frekar en 7; 7 og hálfan í staðinn fyrir 8. Eftir 6 tíma svefn ertu að komast upp úr djúpsvefni og því er auðveldara og þægilegra að vakna. Svo gerði University of California áhugaverða rannsókn á svefnháttum miðaldra kvenna sem sýndi að þær sem sváfu 5 - 6,5 tíma á nóttu voru líklegri til þess að lifa lengur en þær sem sváfu styttra en það... eða lengur!

 

25. mars 2014

Höfundur:

Guðmundur Vestmann

Guðmundur er textasmiður, pabbi, austfirðingur, kattareigandi og sérlegur áhugamaður um tækni og tól. Í lífinu kýs hann að vera ekki „fighter“ – heldur „lover“.

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Einkalíf |  02.05.2016
Vinna |  20.02.2015

Mest lesnu svörin

Nám |  04.09.2017 Meðaleinkunn inn í Versló
Heilsa & kynlíf |  02.05.2016 Útbrot á typpið
Stelpuhorn |  18.09.2017 Hvernig fer ég í fóstureyðingu?