Hormónahringurinn

Hormónahringurinn er lítill plasthringur sem settur er upp í leggöngin og hafður þar í 3 vikur samfleytt.

02. maí 2016

Hvernig er hormónahringurinn notaður?

Hormónahringurinn eða getnaðarvarnarhringurinn er lítill plasthringur sem settur er upp í leggöngin og hafður þar í 3 vikur samfleytt. Þá er hann fjarlægður í eina viku og blæðingar eiga sér stað. Að þeirri viku lokinni er nýr hringur settur upp í leggöngin.

Hversu örugg getnaðarvörn er hormónahringurinn?

Mesta öryggi hormónahringsins er 99%.

Hvernig virkar hormónahringurinn?

Hormónahringurinn inniheldur bæði östrógen og prógesterón. Daglega losnar frá honum hormónaskammtur sem er aðeins ⅓ af þeim skammti sem er í pillunni. Hormónahringurinn virkar í raun á sama hátt og pillan, þannig að hann kemur í veg fyrir egglos. Slím í leghálsi verður einnig þykkara og legslímhúð breytist þannig að minni líkur verða á frjóvgun og þungun.

Hverjir eru helstu kostir hormónahringsins?

 • Hann er örugg getnaðarvörn.
 • Hringurinn er á sama stað í 3 vikur, svo getnaðarvörnin gleymist síður.
 • Ein stærð hentar öllum konum.
 • Flestar konur finna lítið sem ekkert fyrir hormónahringnum.

Hverjir eru helstu ókostir hormónahringsins?

 • Konur geta fundið fyrir ógleði og brjóstaspennu, en það er sjaldgæft.
 • Væg aukning á slím- og vökvamyndun (útferð) í leggöngum á sér stað.
 • Bólga og erting í leggöngum getur komið fyrir.
 • Hringurinn getur færst til og ýst út, en það er óvanalegt.
 • Sumar konur geta fundið fyrir óþægindum af völdum hringsins.

Nánari upplýsingar um hormónahringinn:

 • Konan kemur hormónahringnum sjálf fyrir í leggöngum í lok blæðinga og hefur hann þar í 21 dag.
 • Yfirleitt finna hvorki konan né maðurinn fyrir hringnum við samfarir. Hann má þó fjarlægja í allt að 3 klukkustundir ef hann veldur óþægindum.
 • Öryggið minnkar ef hormónahringurinn er fjarlægður í meira en 3 klukkustundir og þá ætti að nota aðrar getnaðarvarnir í a.m.k. 7 daga á eftir.
 • Konum sem reykja og hafa náð 35 ára aldri er síður ráðlagt að nota hormónahringinn.
 • Algengasta gerðin af getnaðarvarnahringjum á Íslandi er NuvaRing®.
02. maí 2016