Hvað gerist ef ég gleymi pillunni?

18. júlí 2013

Spurning

Ég er með smá spurningu varðandi það ef inntaka pillu gleymist í meira en 12. klst.

Ég byrjaði á pillunni á sunnudaginn, fyrir 10 dögum, Microgyn. Hef síðan gleymt henni tvisvar sinnum síðan þá í ca. 15 klukkutíma og tekið hana strax og ég mundi eftir því. Í seinna skiptið tók ég hana kl. 5 og svo töfluna sem fylgdi þeim deginum kl. 10 eins og ég tek venjulega. Hafði svo samfarir það kvöldið en hann fékk það ekki inn í mig. Síðan var mér hálf flökurt um nóttina og ældi um kl. 4, samt mjög lítið, næstum bara vatni. Hefur það einhver áhrif á virkni hennar? Og hvaða áhrif hefur það á virkni hennar að hafa gleymt henni í meira en 12 klst. en tekið hana samt á réttum tíma næsta dag, sem sagt tvær töflur þann daginn. Langar mjög að vita hvernig þetta virkar.

Er möguleiki á þungun? Hvenær veit ég það? Einnig, hvernig get ég athugað hvort þungun hafi átt sér stað. Hvenær kemur það í ljós og hvaða úrræði eru þá í boði? Væri öruggt að kaupa neyðarpilluna núna, um 60 klst. eftir samfarir? Næsta skref á eftir neyðarpillunni er fóstureyðing? Það væri frábært að fá góðar útskýringar á ferlinu sem og öðru.

 

Þetta eru allt góðar pælingar hjá þér. Til að byrja með skulum við tala um öryggi pillunnar, Microgyn. Það er mjög mikilvægt að taka pilluna alltaf samkvæmt leiðbeiningunum til að tryggja öryggi. En ef pilla gleymist í 12 tíma og er þá tekin inn þá er það ok. Pillan er áfram örugg. Ef að pillan gleymist í meira en sólarhring þá getur þú ekki treyst á öryggið næstu vikuna á eftir og skalt alltaf nota smokkinn eða sleppa því að hafa samfarir í viku. Ef að þú kastar upp eða færð niðurgang þá getur það haft áhrif á virkni pillunnar og sérstaklega ef það gerist innan við þrjá tíma frá því að þú tókst pilluna inn. Samkvæmt þessu er þetta allt í góðu hjá þér. Pillan er örugg. Hér getur þú pantað áminningu í símann þinn til að muna eftir pillunni: http://www.p.molar.is/

Ef eitthvað kemur upp á, þú hefur óvarðar samfarir þá er neyðargetnaðarvörn möguleiki. Þú getur keypt hana í apótekinu án lyfseðils. Því fyrr sem hún er tekin eftir samfarirnar því öruggari er hún. Helst ætti að taka hana innan 12 klst. frá samförum og ekki seinna en 72 klst. Þannig að 60 klst eftir samfarir er ekki of seint en þá er smá áhætta á að hún virki ekki.

Ef þú verður ólétt og ert ekki tilbúin þá er fóstureyðing valkostur sem þú getur skoðað. Þú byrjar á því að panta viðtalstíma hjá félagsráðgjafa á kvennadeild í síma 543-3600. Þetta er bara viðtal og svo tekur þú ákvörðun eftir að hafa rætt málin, fengið fræðslu og svör við spurningum. Ef þú ákveður að stoppa meðgönguna þá er það oftast gert með lyfjum ef þú ert komin stutt á veg (nokkrar vikur) Annars þarf að framkvæma fóstureyðinguna með aðgerð. Fóstureyðing er ekki framkvæmd eftir að kona er komin meira en 12 vikur á leið. Það er metið eftir hverju tilfelli hvernig þetta fer fram. Þú færð töflur sem þú tekur inn á staðnum og stundum færðu með þér töflur heim líka sem á að taka inn eftir ákveðinn tíma. Þetta kemur blæðingum af stað. Það er svo fylgst með að allt hafi gengið vel.  Ef þú þarft í aðgerð þá ertu svæfð og svo framkvæmd útskröpun og þú ferð heim sama dag. Sýkingarhætta er lítil og fylgikvillar sjaldgæfir. Þú getur lesið meira hér.

Hvað varðar að komast að því hvort þú sért ólétt eða ekki þá er best að bíða þar til þú ert komin 2-3 daga fram yfir blæðingartíma og taka þá þungunarpróf.

Gangi þér vel og flott hjá þér að taka ábyrgð og kynna þér málin. Kv. Íris 

18. júlí 2013

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Einkalíf |  02.05.2016
Vinna |  20.02.2015