Hversu nauðsynlegt er pilluhlé?

03. júlí 2013

Spurning

Hæhæ, ég er á pillunni en er búin að sleppa pilluhléi núna tvisvar í röð og er að klára þetta spjald eftir viku. Fyrir svona 10 dögum fór ég að fá brúna útferð og var að velta fyrir mér hvað það gæti verið. Ég svaf hjá í byrjun janúar (5 vikum fyrir þessa útferð mína) og svo fyrir 5 dögum (eftir að útferðin byrjaði). Ég hef svoldið lent í því að taka pilluna kannski 2-4 tímum seinna en vanalega, gæti það haft áhrif? Um leið og ég byrjaði að fá þessa útferð fór ég samt að passa mig miklu betur - en útferðin er enn þá að koma hjá mér. Gæti þetta verið eitthvað merki frá líkamanum að hann þurfi á pilluhléi að halda? Með fyrirfram þökk:)


Þetta gæti einmitt verið merki um að það sé kominn tími til að fara á blæðingar.  Þá koma svona litlar blæðingar eða brún útferð.  Þannig að þú skalt taka pilluhlé næst þegar tími er kominn á það og vita hvort þetta kemst ekki í lag eftir það.  Það á ekki að hafa nein áhrif þó að pillan sé tekin 2-4 tímum fyrr eða seinna.  
Það er þó rétt að taka það fram að þó að líklegasta skýringin á þessari útferð sé að blæðingum hafi verið frestað þá getur þetta verið einkenni um óléttu eða kynsjúkdóm.  Þannig að ef það er séns á því að þú hafir smitast þá ættir þú að fara í tékk og líka splæsa í þungunarpróf.
 

Gangi þér vel og endilega hafðu samband aftur ef þú vilt spyrja nánar.
 

Kveðja íris 

03. júlí 2013