Á leið í þunglyndi!

07. nóvember 2013

Spurning

Ég er 22 ára kona og ég á við erfitt vandamál að stríða.
Ég er búin að vera í sambúð með manninum mínum í rétt tæp þrjú ár. Ég á fimm ára son af fyrra sambandi sem stóð í fimm ár með nokkrum hléum og einkenndist af miklu andlegu (og stundum líkamlegu) ofbeldi. Lífið hefur þar fyrir utan ekki beinlínis leikið mig mjög vel, mér var nauðgað þegar ég var þrettán ára, mikil geðræn veikindi eru í fjölskyldunni minni og ég sjálf átti við hættulegt þunglyndi að etja áður en ég kynntist núverandi manninum mínum. Þessi veikindi mín enduðu í sjálfsmorðstilraun og innlögn á geðdeild í um tvo mánuði.

Ég er mjög ástfangin af manninum mínum, sambandið hefur verið gott í flesta staði og mér líður mjög vel með honum. Eftir að samband okkar hófst hef ég ekkert fundið fyrir þunglyndi, en auðvitað á maður sína góðu og slæmu daga, en ég held að sálarlífið hjá mér sé ekkert í verri málum en hjá fólki almennt. Ég hef verið alfarið lyfjalaus síðan við kynntumst og hef ekki á nokkurn hátt fundið fyrir almennum þunglyndiseinkennum.

En í sumar kom babb í bátinn. Ég komst að því að hann hafði haldið framhjá mér. Þau höfðu í raun ekki hist nema tvisvar sinnum en í annað skiptið endaði það með bólferð. Það er í raun ekki það sem ég á erfiðast með að sætta mig við, heldur er það staðreyndin að þau voru í miklu símasambandi bæði fyrir og eftir atburðinn. Ég upplifði í sambandi við þetta mikla höfnun og yfirgengilegan sársauka, og fannst að vegna þessa sambands væru svikin umtalsvert meiri en ef um "slys" einu sinni hefði verið að ræða.

Nú ætla ég ekki að spila mig út fyrir að vera alsaklausa sjálfa, í byrjun sambandsins hélt ég tvisvar framhjá honum, undir nákvæmlega eins kringumstæðum í bæði skiptin. Það var hvort um sig aðeins eitt skipti og undir miklum áhrifum áfengis. Í báðum tilfellum upplifði ég mig sem fórnarlamb aftur, ég vildi alls ekki taka þátt í þessu en fékk mig ekki til að segja þvert nei. Þráin eftir viðurkenningu var allt of mikil. Við þá menn hafði ég hvorki samband fyrir né eftir atvikið, og vildi í raun ekkert af þeim vita. Mig hryllti við gjörðum mínum og skammaðist mín mjög. Ég sagði manninum mínum frá báðum atvikunum strax eftir að þau áttu sér stað, og þrátt fyrir sársaukann sem ég olli honum þá vildi hann halda sambandinu áfram. Hann skildi það að ég var ekki fullkomlega heil á þessum tíma og vegna fyrri atburða í lífi mínu þá var sjálfsálitið og sjálfsvirðingin hjá mér í algerri rúst. Við unnum okkur út úr þessu í sameiningu og sambandið gekk mjög vel, sjálfsálitið tók að vaxa og sömuleiðis virðingin fyrir sjálfri mér. Ég fór að taka meiri ábyrgð á sjálfri mér og læra það að það er enginn annar en ég sjálf sem getur borið ábyrgð á minni vellíðan.

En allt þetta hrundi í sumar þegar ég komst að framhjáhaldinu.
Ég notaði klæki til að komast að sannleikanum, því að ég fann á mér að eitthvað var ekki sem skyldi og grunsemdirnar reyndust á rökum reistar. Þegar ég gekk á hann með þetta þá játaði hann brotið strax og svaraði öllum spurningum mínum eftir bestu getu. Hann hafði látið undan spennunni og brotið af sér. Ég útskýrði fyrir honum þessar tilfinningar mínar, að það væru ekki samfarirnar sjálfar sem ég ætti erfiðast með að fyrirgefa, heldur sú staðreynd að sambandið hélt áfram eftir atburðinn. Hann svaraði því til að af hans hálfu þá hafi þetta aldrei átt að ganga svo langt, hann hafi viljað klippa strax á samskiptin, en vegna hótana (undir rós) hennar um að hlaupa í mig og segja mér upp alla sögu þá hafi hann látið til leiðast og haldið símasambandi áfram, í von um að áhuginn dæi út af hennar hálfu og þetta lognaðist svo út af að sjálfu sér. En ég komst að þessu áður en sú von hans gekk í uppfyllingu.
Hann sýndi mér tölvupóst sem hafði farið þeirra í milli, og það sem ég las studdi þessar skýringar hans.
Ég tók eftir mikla íhugun ákvörðun um að reyna að bjarga því sem eftir var af sambandinu, reyna að komast yfir þetta og halda áfram lífinu með honum. Það er jú mín skoðun að við erum öll mannleg, og þar af leiðandi er enginn frítekinn frá því að gera mistök. Það eru ekki mistökin sem skilgreina persónu okkar, heldur það hvernig við vinnum okkur út úr þeim. Ég vissi einnig af eigin reynslu að mistökin eru ekki í öllum tilfellum endilega gerð af fullum vilja, heldur hafa aðstæðurnar alltaf mikið að segja um það hvað við gerum.

Ég ákvað sem sagt að reyna að halda áfram. Ég gerði honum grein fyrir því að ef hann vildi gera það líka, þá yrði hann að skilja það að traust mitt fengi hann ekkert aftur strax, það væri mikil og jafnvel áralöng vinna sem lægi framundan í því að byggja það upp á ný, og að hann þyrfti að vera viðbúinn afar erfiðum tíma, því að ekkert af þessu er neitt létt að takast á við. Og einnig það að ég ætlaðist til þess að hann ynni með mér í þessu, hans hlutverki í batanum væri ekkert lokið bara með því að segja “fyrirgefðu, ég geri þetta aldrei aftur”. Hann skildi þetta og sagðist vilja leggja hvað sem er á sig til að bjarga sambandinu. Hann veitti mér ótakmarkaðan aðgang að tölvupóstinum, símanum, reikningsyfirlitum og þvíumlíku, með það fyrir augum að ég gæti fylgst með því, ef ég vildi, hvað hann tók sér fyrir hendur.

Síðan eru liðnir sex mánuðir. Í upphafi var þetta mjög erfitt, ég efaðist um hvert orð sem hann sagði við mig og gerði allt sem ég gat til að sannreyna að þau væru sönn, fylgdist með hverju fótmáli hans og vantreysti honum í einu orði sagt algjörlega. Hægt og bítandi hefur traustið aukist, en því fer fjarri að ég geti sagst treysta honum hundrað prósent. En ég get sagt með hönd á hjarta að ég trúi honum þegar hann segist aldrei vilja leiðast út í þetta aftur, hann sér eftir þessu af öllu hjarta og vill ekkert annað en að láta samband okkar ganga upp. Hann elskar mig, það er ég sannfærð um. Sambandið gengur þokkalega, við gerum okkar besta til að tjá okkur hvort við annað um tilfinningar okkar og á einn máta má segja að við séum mun nánari nú en áður. En það er enn mikil leið ófarin.

Það sem skemmir mest fyrir okkur núna er það að ég get ekki hætt að hugsa um þetta. Þetta er í huganum á mér hverja mínútu hvers dags. Ég velti mér endalaust upp úr hlutum sem ég veit að ekkert fær breytt, og spurningin “hvers vegna” ómar í höfðinu á mér endalaust. Mér finnst þetta vera orðin eins konar þráhyggja, ég hugsa bara og hugsa um þetta, og það heldur mér svo aftur. Ég hugsa sífellt um hina konuna, hvernig hún lítur út, hvernig hún talar, hvernig hún hegðar sér, hvernig hún er... Og ég upplifi í hennar garð djúpt og innilegt hatur.
Hatur er tilfinning sem ég er ekki sérstaklega vön. Fyrrverandi kærastann minn, sem þrátt fyrir að hafa að mörgu leyti eyðilagt mig mikið og skapað óteljandi vandamál fyrir mig og fjölskylduna mína, hata ég ekki einu sinni. Manninn sem nauðgaði mér á sínum tíma hata ég ekki. Í garð þessara manna ber ég í raun engar tilfinningar nema fyrirlitningu og af og til meira að segja samúð. En þessa konu HATA ég. Það er svo miklu djúpstæðari tilfinning en ég get þolað, ég finn hatrið tæra mig upp að innan og ég nötra af reiði bara við að hugsa um nafnið hennar. Þetta er svo sterkt að ég hræðist það, því að ég er nokkuð viss um að ef ég sæi hana einhvern tímann þá myndi öll skynsemi og rökhyggja hverfa út í veður og vind, og ég myndi skaða hana. Ég meira að segja sé fyrir mér hvernig ég myndi meiða hana og gera líf hennar óbærilegt! –Og ég hef mjög myndrænt ímyndunarafl, svo að þetta er algjör hryllingur fyrir mig... En ég get ekki slitið mig lausa frá þessum hugsunum, þær eru algjörlega viðvarandi.
Það að hata manneskju sem maður hefur aldrei séð né hitt finnst mér mjög óþægilegt, ég er vön að vera mjög umburðarlynd og skilningsrík og ég kann einfaldlega ekki að eiga við þessa tilfinningu. Það sem elur líka á henni er það að eftir að maðurinn minn hætti að hafa sambandi við konuna þá hefur hún gert ýmislegt til að skemma fyrir okkur. Hún hefur m.a. sent mér særandi bréf og skilaboð, stútfull af lygum og ósannindum, bara til að eyðileggja ætlunarverk okkar, að byggja okkur upp á ný. Á þessu bar þó aðeins stuttu eftir að allt komst upp, þetta hefur ekki gerst nýlega.
Ég á svo erfitt með að horfa fram á veginn og hefja uppbygginguna þegar ég er svona pikkföst í fortíðinni og hlutum sem ég hef tekið ákvörðun um að vilja fyrirgefa og gleyma. Og fyrirgefningin kemur svo sannarlega ekki þannig.
Okkur langar svo mikið að lækna sambandið og ég vil svo innilega láta af þessum niðurbrjótandi hugsunum, en ég veit ekki hvaða leið ég á að fara. Við höfðum hugsað okkur að fara saman í einhverja samtalsmeðferð, en ástandið peningalega leyfir það alls ekki, þar sem við verðum sífellt að horfa í aurinn einfaldlega til að hafa mat ofan í okkur og þak yfir höfuðið. Og svona meðferð er vægast sagt dýr.

Hvað í ósköpunum á ég að gera? –Ég finn þunglyndið af og til koma hættulega nærri mér og ég er svo logandi hrædd um að falla aftur ofan í þennan hyldjúpa forarpytt.
Hafið þið einhver ráð handa mér/okkur?

Með bestu þökkum og afsökunarbeiðni – ég veit að þetta er hryllileg langloka hjá mér...

Sæl, Ég sé að þú átt í miklum erfiðleikum sem ekki verður hægt að leysa úr nema með talsverðri vinnu. Ég tel það rétt hjá þér að þú eða þið þurfið á ráðgjöf að halda til þess að ráða fram úr erfiðleikum ykkar. Ég vil því benda þér annarsvegar á Fjölskyldumiðstöðina á Barónsstíg s. 5111599 en það er ráðgjafaþjónusta sem meðal annars tekur á málum líkt og þínum og hinsvegar á Fjölskylduþjónustuna Lausn á Sólvallagötu sem tekur einnig á vanda sem þínum s.5525881. Þessi ráðgjöf er ykkur að kostnaðarlausu. Einnig geturu nýtt þér þá ráðgjafa sem eru í boði í Hinu Húsinu   

. Gangi þér sem best.

07. nóvember 2013

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Efni tengt síðu

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Fjármál |  28.02.2018