Nám í sálfræði og geðlækni

18. júlí 2013

Spurning

Ég var að pæla hvort þið vitið nokkuð hvað tekur mörg ár að læra sálfræði og geðlækni? Ég er 17 ára strákur sem er að fara að læra félagsfræði í Flensborg og svo sálfræði í framhaldinu.

Ég vill bæta svo ofan á það geðlækninn líka en ég er þá hræddur um að ég mun ekki klára námið allt fyrr en ég verð 40 ára! Og líka hvering réttindi mun ég þá fá og hvernig get ég notað þau?, og líka ef ég læri sálfæði og svo geðlænkinn get ég þá ekki notað sálfræðina til á móti geðlækninum, þúst, hjálpar sálfræðin eitthvað um geðlækninn? Með fyrirfram þökk.

Fyrst af öllu verður að segja að þrátt fyrir að Geðlæknar og sálfræðingar virðist í fljótu bragði taka á sama vandanum gera þeir það frá sitt hvoru sjónarhorninu og það er töluverður munur á námi og aðferðum.  Ágætt yfirlit yfir muninn á þessum tveimur fögum má finna  í grein eftir Álfheiði Steinþórsdóttur, sérfræðing í klínískri sálfræði.

Varðandi lengdina á náminu þá er sálfræðin yfirleitt 3 ára Bs nám eða 180 einingar. Reyndar er hægt að taka sálfræði sem aðalfag (120 einingar) og taka þá 60 einingar í einhverju öðru samþykktu námi.  En grunnnámið er samt alltaf 180 einingar til prófs.  Síðan bætist við 2 ára meistaranám að því loknu eða Cand. psych. nám til að öðlast starfsréttindi sem sálfræðingur.  Bs námið í sálfræði er samt ágætis grunnur til ýmissa starfa þó það veiti ekki starfsréttindi sem sálfræðingur. 

Geðlæknar hinsvegar klára fyrst grunnám læknisfræðinnar sem er sex ára auk kandidatsárs eða sjö ár í heildina. Svo tekur við sérfræðinám í geðlækningum, sem algengast er að fólk stundi erlendis en gera má ráð fyrir a.m.k. 4-5 árum til viðbótar í sérnámið, þó það sé mismunandi eftir löndum og skólum.  Skv. yfirliti yfir viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi frá 2008 er kveðið á um að lágmarki 4 ár til að öðlast starfsréttindi sem geðlæknir. Aftur verður að ítreka að þessar tvær greinar eru töluvert ólíkar í raun og veru þó við fyrstu sýn virðist þær líkar.  Hvort þú verðir 40 ára þegar þú klárar skal ósagt látið, en þú mátt gera ráð fyrir 16 árum til að klára bæði fögin til starfsréttinda.  Slíkt er ekki allra og ég vil benda þér á að setjast niður með námsráðgjöfum Háskóla Íslands og fá þar leiðsögn um það hvaða nám henti þér þegar þú kemur að því að taka ákvörðun. (Svo er reyndar ekki óalgengt að einstaklingar byrji í læknisfræði með auga á sérsviði og skipti svo um skoðun og stefnu þegar í námið er komið.)

Hvernig þú notar starfsréttindind sem þú öðlast að námi loknu er auðvitað töluvert undir þér sjálfum komið.  Sálfræðin býður hugsanlega upp á fleiri möguleika, t.d. varðandi mannauðsmál en það er erfitt að koma með tæmandi lista hér.  Best væri að fara á nýnemadaga eða opna kynningardaga hjá háskólunum og fá þar upplýsingar frá fyrstu hendi. Mundu bara að hverjum finnst sinn fugl fagur og lokaákvörðunin verður alltaf að vera þín, þ.e. þú átt alltaf að velja nám sem hentar þínu áhugasviði. Og mundu bara að þú átt eftir að vinna við það vonandi í nokkra áratugi.  Þannig að það er eins gott að þetta sé eitthvað sem vekji áhuga þinn.   

En hvort sem þú endar á að velja, gangi þér sem allra best. 

18. júlí 2013

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Heilsa & kynlíf |  02.12.2014
Vinna |  10.05.2017

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  29.06.2015 Af hverju er typpið mitt svona lítið?
Stelpuhorn |  18.09.2017 Hvernig fer ég í fóstureyðingu?