Að spara fyrir fríinu

Við viljum öll fara til útlanda en við eigum ekki öll peninga fyrir því.

08. nóvember 2012

Ástandið nú er þannig að við þurfum að spara fyrir því sem við viljum gera. Mér finnst það jafn ömurlegt og þér en ef okkur langar að fara til útlanda (ekki saman samt, ég þekki þig örugglega ekki neitt) þá þurfum við að spara fyrir því. Hérna eru nokkur góð ráð til þess að safna fyrir ferðinni til útlanda sem öllum langar í.

Opnaðu sér reikning til þess að leggja allan sparnað inn á. Það er svo hægt að setja reikninginn þannig upp að einhver ákveðin summa fari inn á þennan sparnaðarreikning hver einustu mánaðarmót.

Til þess að ákveða þessa mánaðarlegu summu þarf að vita hvað fríið kostar og hvað þú hefur efni á að spara mikið á mánuði. Þá þarf að búa til fjárhagsáætlun.

Að búa til fjárhagsáætlun

Það er ekki nærri því jafn flókið og það virðist vera. Í rauninni þarftu bara að skoða launaseðilinn og íhuga svo hvað þú ert að eyða peningunum í. Ef þú vilt svo taka þetta lengra þá geturðu ákveðið upphæðina sem þú vilt eyða í hverri viku og tekið þá upphæð út í hraðbanka fyrir vikuna. Þannig er auðveldara að fylgjast með hversu miklum peningum þú eyðir.

Til þess að hækka mögulega summuna sem þú sparar í hverjum mánuði þá gætirðu gert eftirfarandi hluti:

 • Ef þú ert mikið fyrir djammið þá gætirðu sleppt því að djamma allar helgar... önnur hver helgi er alveg nóg.
 • Ef þú ert mikið fyrir föt þá gætirðu alfarið sleppt því að kaupa þér föt og hugsað sem svo að þú verslir þegar þú ferð út.   Nema þú þurfir nauðsynlega á þeim að halda, það er augljóslega óþarfi að líta út eins og Oliver Twist af því þú ert að safna fyrir sumarfríi.
 • Ef þú ert mikið fyrir að fara út að borða eða mikið fyrir að elda þér humarhala í gullsósu (sósu með gullmolum út í, hún er ógeðslega dýr og ógeðslega óholl) þá er hægt að lækka þann kostnað aðeins. Til dæmis er hægt að hafa einn núðludag í viku, núðlur eru hræódýrar. (Ég reyndi einu sinni að hafa sjö núðludaga í viku, ég mæli ekki með því).

Að færa fórnir

Sumir eru miklir nautnaseggir - ég þar með talinn - og vilja halda lífsgæðum sínum í algjöru hámarki. Ef svo er komið fyrir þér þá þarftu að auka tekjur þínar einhvern veginn, þá mögulega með því að taka aukavaktir í vinnunni sem þú ert í eða fá þér auka vinnu. Það er til dæmis hægt að vinna á kvöldin við úthringingar eða bera út blöð. Þessi störf eru engum misboðin þó þau séu kannski ekkert rosalega sjarmerandi, enda þarf að hafa í huga að til þess að komast til útlanda þarf að færa einhverjar fórnir. Aðrar mögulegar fórnir sem hægt er að færa:

 • Geit til þrumuguðsins Þórs.
 • Selja allt það sem þú notar ekki lengur; t.d. gamlar skólabækur, gömul föt, dvd diska, geisladiska, húsgögn, bílinn eða rúmið (ef þú ert virkilega desperate).
 • Búðu til hádegismat heima hjá þér í staðinn fyrir að fara á Nonnabita.
 • Ef þú getur labbað þangað sem þú ert að fara, labbaðu þá í staðinn fyrir að eyða bensíni eða 350 kalli í strætó. Þetta gæti verið nauðsynlegt ef þú ert búin/n að selja bílinn þinn.
 • Ekki nota debetkortið til þess að borga fyrir allt, sérstaklega ekki smáar upphæðir. Taktu stórar upphæðir út í hraðbönkum, annars hrannast bankagjöldin upp og þú færð líka betri tilfinningu fyrir eyðslunni svona.
 • Hengdu fötin þín til þerris í staðinn fyrir að nota þurrkarann (ef þú býrð við slíkan lúxus að eiga þurrkara). Það sparar undarlega mikla orku. Ef þú átt ekki þurrkara er ágætis sparnaðarráð að kaupa ekki þurrkara.
 • Ef þú ferð á djammið, ekki taka debet eða kredit kortið þitt með þér. Ákveddu allsgáð(ur) hvað þú vilt eyða miklu á barnum og vertu bara með þann pening. Fulli þú átt eftir að blóta þér en þunni þú verður himinlifandi daginn eftir.
 • Reyndu að hætta að reykja, ef þú stundar þann ljóta ósið. Ef þú vilt ekki hætta að reykja er ódýrara að rúlla sér sínar eigin sígarettur. Það er líka meira töff. En samt ekki töff.
Höfundur: Magnús Björgvin Guðmundsson
08. nóvember 2012

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Einkalíf |  22.11.2012
Heimilið |  20.10.2016
Einkalíf |  02.05.2016