Ungmennaráð sveitarfélaganna

Ungmennaráð eru vettvangur fyrir ungt fólk, til að taka þátt í mótun síns samfélags og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku ungs fólks.

17. maí 2013

Hvað eru ungmennaráð sveitarfélaganna ?

Ungmennaráð eru vettvangur fyrir ungt fólk, einkum á aldrinum 13 til 17 ára, til að taka þátt í mótun síns samfélags og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku ungs fólks. En ungmennaráð eiga samkvæmt æskulýðslögum frá árinu 2007 að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks.

Markmið ungmennaráða

Ungmennaráð hafa mismunandi markmið. Flest eiga þau þó það sameiginlegt að vera vettvangur sem skapar leiðir fyrir þau sem eru yngri en 18 ára til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri til viðeigandi aðila. Ásamt því fá þau sem taka þátt í ungmennaráðum þjálfun og stuðning í að koma skoðunum sínum og jafningja sinna á framfæri til þeirra sem svo taka ákvarðanirnar í samfélaginu.

Hvað gera ungmennaráð?

Ekkert ungmennaráð er eins, þó starfa þau öll á svipaðan hátt. t.d. funda þau reglulega og ræða þau málefni sem liggja þeim á hjarta hverju sinni. Grundvöllur starfsins er að lögð sé áhersla á mikilvægi þess að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu, sem byggist á lýðræði og tækifærum til að koma að ákvörðunum sem snerta líf þeirra.

Þá standa þau fyrir þingum, umræðufundum og sum taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.
Algengt er að ungmennaráð hitti að lágmarki sveitar- eða borgarstjórnir síns sveitarfélags í það minnsta einu sinni á ári til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Sumar hugmyndirnar fara í framkvæmd og verða að veruleika.

Hver er viðmiðunaraldur ungmennaráða?

Viðmiðunaraldur ungmennaráða er 13 -17 ára þar sem 18 ára einstaklingar eru komnir með kosningaaldur. Sveitarfélögin hafa þó frjálsar hendur með nákvæmar reglur, hlutverk og val í ungmennaráð.

Hvernig er hægt að taka þátt?

Mismunandi er hvernig ungmennaráð eru skipuð en mjög dæmigert er að fulltrúar komi úr nemendaráðum grunn- og framhaldsskóla og stjórnum félagsmiðstöðvanna en einnig þekkist það að áhugasamir fái að taka þátt en þó er allur gangur á því.

Hver eru starfandi ungmennaráð ?

Samkvæmt samantekt sem Samband íslenskra sveitarfélaga framkvæmdi árið 2012 þá höfðu 31 sveitarfélag komið sér upp ungmennaráðum. Þau eru eftirfarandi:

 • Reykjavíkurborg
 • Akureyrarkaupstaður
 • Seltjarnarneskaupstaður
 • Norðurþing
 • Garðabær
 • Fjallabyggð
 • Hafnarfjarðarkaupstaður
 • Dalvíkurbyggð
 • Mosfellsbær
 • Þingeyjarsveit
 • Reykjanesbær
 • Fjarðabyggð
 • Grindavík
 • Fljótsdalshérað
 • Sandgerðisbær
 • Sveitarfélagið Hornafjörður
 • Sveitarfélagið Vogar
 • Sveitarfélagið Árborg
 • Akraneskaupstaður
 • Ásahreppur
 • Borgarbyggð
 • Rangárþing eystra
 • Grundarfjarðarbær
 • Rangárþing ytra
 • Stykkishólmsbær
 • Hveragerðisbær
 • Snæfellsbær
 • Sveitarfélagið Ölfus
 • Ísafjarðarbær
 • Hvalfjarðarsveit
 • Sveitarfélagið Skagafjörður

Upplýsingar um ungmennaráðin ætti að vera hægt að nálgast á vefsíðum hvers sveitarfélags fyrir sig.

Heimildir og frekari lestur.

17. maí 2013

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Staðir tengdir síðu

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Heilsa & kynlíf |  16.12.2014
Einkalíf |  02.05.2016

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  02.05.2016 Hvað er G-blettur?
Stelpuhorn |  18.09.2017 Hvernig fer ég í fóstureyðingu?