Hvað er þrískipting ríkisvaldsins?

Þrískipting ríkisvaldsins gengur út á það að valdi ríkisins sé skipt í þrennt; löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald.

02. mars 2017

Hvað þýðir þrískipting ríkisvaldsins?

Þrískipting ríkisvaldsins er hugmynd um stjórnmál sem franski stjórnmálaspekingurinn Charles Montesquieu lagði fyrstur manna fram.

Hugmyndin var lögð fram þegar allt vald ríkisins var í höndum konunga og keisara. Þrískipting ríkisvaldsins gengur hins vegar út á það að valdi ríkisins sé skipt í þrennt; löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Þannig átti að koma í veg fyrir að einn aðili fengi of mikið vald yfir samfélaginu. Markmiðið er að tryggja jafnvægi í ríkisvaldinu og koma í veg fyrir harðstjórn yfirvalda yfir íbúum landsins.

Hvað er löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald?

  • Löggjafarvald er rétturinn og valdið til þess að setja lög ríkisins og breyta þeim.
  • Framkvæmdavald er rétturinn, valdið og skyldan til þess að fylgja lögum ríkisins eftir og hrinda þeim í framkvæmd.
  • Dómsvald er valdið til þess að meta hvort farið sé að lögum ríkisins og hvort framkvæmdavaldið hafi framkvæmt þau rétt.
02. mars 2017