1. Spurning - Vilt þú leggja tillögu Stjórnlagaráðs til grundvallar...?

Fyrsta spurningin 20. október hljóðar svo: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

31. október 2012

Áttavitinn.is: þjóðaratkvæði 2012, Spurning 1

Spurt er hvort leggja eigi tillögu Stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá Íslands.

Að leggja eitthvað til grundvallar þýðir að nota það sem grundvöll eða ramma í ákveðnu ferli og ganga út frá því að öðru jöfnu. Umdeilt er hvort og upp að hversu miklu marki hægt er að gera breytingar á skjali, sé það notað til grundvallar öðru skjali.

Þó er ljóst að merki kjósandi við „já“ er það ákveðin stuðningsyfirlýsing við tillögur Stjórnlagaráðs og efni þeirra en merki kjósandi við „nei“ er það höfnun á þeim tillögum og/eða á því ferli sem lagt hefur verið í við endurskoðun stjórnarskrá Íslands.

Viðmið sem lagt hefur verið upp með er að ef kjósandi telur tillögur Stjórnlagaráðs betri grundvöll að stjórnarskrá en núverandi stjórnarskrá, geti hann merkt við „já“, en ef hann telur núverandi stjórnarskrá vera betri grundvöll að stjórnarskrá en tillögur Stjórnlagaráðs geti hann merkt við „nei“.

Bera má saman tillögu stjórnlagaráðs og núverandi stjórnarskrá á aðgengilegan og skipulegan hátt á vefsvæði Lagastofnunar HÍ og Alþingis um þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem sambærilegum ákvæðum er stillt upp hlið við hlið. Sjá má þar hverju er breytt í tillögum Stjórnlagaráðs, hverju er bætt við og hvað er tekið út.

 
31. október 2012