2. Spurning - Náttúruauðlindir í þjóðareign?

2. spurningin á kjörseðlinum laugardaginn 20. október hljóðar svo: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

20. desember 2012

Áttavitinn.is: 2.Spurning: Náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign?

Spurt er hvort þú viljir hafa ákvæði með þessu orðalagi í stjórnarskrá Íslands.

Í tillögum stjórnaráðs segir í 34. grein:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Þetta þýðir að þær náttúruauðlindir sem ekki eru einkaeign nú - verði lýstar ævarandi eign þjóðarinnar.

Hvað merkir þjóðareign?

Einkaeign er eitthvað sem einkaaðilar eiga, t.d. einstaklingar og fyrirtæki, og þeir mega selja það og nota að vild samkvæmt lögum.

Ríkiseign er hinsvegar eign sem ríkið á og getur selt eða veðsett, t.d. skrifstofur Alþingis, Landspítalinn, Landsbankinn o.fl.

Þjóðareign er ekki jafn algengt hugtak. Í tillögum Stjórnlagaráðs segir um það:

„Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Í lögum um þjóðgarð á Þingvöllum segir:

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“

Sem sagt - ríkið má selja ríkiseign - en ekki þjóðareign. Þetta ákvæði hefði því í för með sér að þær náttúruauðlindir sem eru í eigu hins opinbera nú mætti ekki selja, veðsetja eða afhenda varanlega til einkaaðila.

Þó segir einnig í sömu grein tillagna Stjórnlagaráðs:

„Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Þetta þýðir að þjóðareign náttúruauðlinda útilokar ekki skv. þessu nýtingu einkaaðila á þeim.

En hvaða náttúruauðlindir er verið að tala um?

Í tillögunum segir:

„Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda.“

Þetta á, eins og áður segir, við um þær náttúruauðlindir sem falla undir þennan flokk og eru ekki nú þegar í einkaeigu.

Þessi spurning snýst samt ekki um tillöguna í heild

Ekki er verið að spyrja um alla 34. greinina í tillögum Stjórnlagaráðs þarna, heldur aðeins hvort þú viljir hafa þetta orðalag í stjórnarskrá Íslands, sama hvernig þú skilur það eða telur að það verði útfært. Líklegt er þó að slíku ákvæði myndu ávallt fylgja skilgreiningar og útfærslur sambærilegar þeim sem Stjórnlagaráð leggur til.

Valkostirnir í þjóðaratkvæðagreiðslunni eru hinsvegar þessir:

Viltu hafa þetta þetta orðalag í stjórnarskrá Íslands? Já - eða nei.

Sem sagt - ríkið má selja ríkiseign - en ekki þjóðareign. Þetta ákvæði hefði því í för með sér að þær náttúruauðlindir sem eru í eigu hins opinbera nú mætti ekki selja, veðsetja eða afhenda varanlega til einkaaðila.

20. desember 2012