3. Spurning - Þjóðkirkja í stjórnarskrá...?

Í spurningu 3 á laugardaginn verður spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

19. desember 2012

Áttavitinn.is: 3.Spurning. Þjóðkirkju ákvæði i stjórnarskrá

Íslendingar hafa haft kristna þjóðkirkju síðan Þorgeir nokkur Ljósvetningagoði lagði sig undir feld og lúterskirkjan hefur ráðið ríkjum síðan Jón Arason og félagar voru hálshöggnir á 16. öld.

Nú segir í 62. grein núverandi stjórnarskrár: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Því er sérstakt samband á milli kirkjunnar og ríkisins; kirkjan hefur t.d. ákveðnar þjónustuskyldur gagnvart landsmönnum, ríkið greiðir laun presta o.fl. og innheimtir sóknargjöld fyrir kirkjuna og önnur trúfélög.

Hvaða áhrif hefur já eða nei?

Þessi spurning fjallar um það hvort það eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskránni. Ekki er tiltekið nákvæmlega hvernig það ákvæði yrði, en líklegt þykir að það yrði sambærilegt núverandi ákvæði.

Þjóðkirkjan hefur þó lagt til að hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sem yrði sambærilegt við stjórnarskrá Noregs: „Allir þegnar ríkisins skulu njóta frelsis til trúariðkunar. Norska kirkjan, evangelísk-lútersk kirkja er þjóðkirkja og skal sem slík njóta stuðnings ríkisins. Nánar skal það ákvarðað með lögum. Öll trú- og lífsskoðunarfélög skulu njóta stuðnings með ámóta hætti.“

Því er ekki loku fyrir það skotið að ákvæði um Þjóðkirkju tæki breytingum þó niðurstaða þessara kosninga væri játandi, en áfram yrði kveðið á um þjóðkirkju.

Ef niðurstaða kosninganna verður nei yrði hins vegar skv. því ekkert ákvæði um þjóðkirkju sem slíka í stjórnarskránni. Í 19. grein í tillögum Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá segir hins vegar: „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“

Stjórnlagaráð leggur sem sagt til að ekki sé kveðið á um þjóðkirkju í stjórnarskrá en áfram verði heimild fyrir því að kveða á um kirkjuskipan ríkisins og að breytingar á henni þurfi eftir sem áður að bera undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef ekkert ákvæði yrði um þjóðkirkju í stjórnarskrá er líklegt að ákvæði sambærilegt þessu yrði sett í staðinn.

Það er því ekki beint verið að kjósa um aðskilnað ríkis og kirkju, heldur einfaldlega um hvort ákvæði um þjóðkirkjuna eigi að vera í stjórnarskránni og njóta þeirrar verndar sem því fylgir.

Sjá t.d. vef þjóðkirkjunnar um stjórnarskrána og Fésbókarsíðu andstæðinga þjóðkirkjuákvæðis.

Því er ekki loku fyrir það skotið að ákvæði um þjóðkirkju tæki breytingum þó niðurstaða þessara kosninga væri játandi, en áfram yrði kveðið á um þjóðkirkju.

19. desember 2012