5. Spurning - Jafnt vægi atkvæða...?

í spurningu 5 á laugardaginn verður spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

05. nóvember 2013

Áttavitinn.is: 5.Spurning. Jafnt vægi atkvæða

Íslandi er nú skipt upp í sex kjördæmi sem kosið er innan í Alþingiskosningum.

Kjördæmin hafa mismarga þingmenn og um leið mismarga íbúa hvert, en fjöldi þingmanna á hvern íbúa hefur lengi verið mismikill milli kjördæma og þess vegna hafa áhrif hvers kjósanda í kosningum verið mismikil eftir því hvar þeir búa.

Í núverandi stjórnarskrá segir í 31. grein:

„Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni.
Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr. þó 5. mgr.[... .] Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.“

Nú má þessi munur því vera allt að tvöfaldur; íbúar í Norðvesturkjördæmi hafa t.d. um tvöfalt fleiri þingmenn á hvern íbúa heldur en íbúar í Suðvesturkjördæmi og hefur hver íbúi því um tvöfalt meiri áhrif á úthlutun þingsæta á Alþingi. Ýmsum þykir þetta óeðlilegt en mörgum þykir mikilvægt að landsbyggðin hafi talsmenn og fulltrúa á þinginu til jafns við höfuðborgarsvæðið.

Hvað mundi jafnt vægi atkvæða þýða?

Í tillögu Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá segir í 39. grein:

„Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt. Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta [... .] Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll 63 þingsætin.“

Því má samkvæmt þessum tillögum áfram skipta landinu upp í kjördæmi - svo lengi sem atkvæði vega jafnt alls staðar á landinu, þ.e. að u.þ.b. jafnmargir íbúar séu á hvern þingmann í hverju kjördæmi.

Kjördæmin myndu því hugsanlega leggjast af en a.m.k. breytast þannig að íbúar á höfuðborgarsvæðinu fengju fleiri þingmenn en landsbyggðin færri. 

Ef atkvæði myndu t.d. vega jafnt í núverandi kjördæmum væri fjöldi þingmanna t.d. u.þ.b. eftirfarandi, miðað við mannfjölda í kosningunum árið 2009:

  • Norðausturkjördæmi hefði um 8 þingmenn, en hefur 10 nú.
  • Norðvesturkjördæmi hefði um 6 þingmenn, en hefur 9 nú.
  • Suðurkjördæmi hefði um 9 þingmenn, en hefur 10 nú.
  • Reykjavíkurkjördæmi - norður hefði um 12 þingmenn, en hefur 11 nú.
  • Reykjavíkurkjördæmi - suður hefði um 12 þingmenn, en hefur 11 nú.
  • Suðvesturkjördæmi hefði um 16 þingmenn, en hefur 12 nú.

Spurt er: „Viltu hafa ákvæði um jafnt vægi atkvæða í stjórnarskrá? Já - eða Nei.“

Kjördæmin hafa mismarga þingmenn og um leið mismarga íbúa hvert, en fjöldi þingmanna á hvern íbúa hefur lengi verið mismikill milli kjördæma og þess vegna hafa áhrif hvers kjósanda í kosningum verið mismikil eftir því hvar þeir búa.

05. nóvember 2013