6. Spurning - Þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu kjósenda...?

Í spurningu 6 á laugardaginn verður spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

20. desember 2012

Áttavitinn.is:6.spurning. Hlutfall kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu?

Í núverandi stjórnarskrá er kveðið á um lagalega bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ef Alþingi samþykkir vantraust á forseta Íslands, breytingu á kirkjuskipan eða ef forsetinn neitar að staðfesta lög þingsins (oftast kallað „málskotsrétturinn“).

Um önnur mál er ekki heimilt að halda bindandi kosningar nú; þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október t.d. ráðgefandi eða leiðbeinandi.

Fyrir lýðveldisstofnun voru þrisvar haldnar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur - 1908 og 1933 um áfengisbann og 1916 um þegnskylduvinnu - auk þess sem haldnar voru bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur um Sambandslögin við Dani 1918 og 1944 og lýðveldisstjórnarskrána 1944.

Íslendingar hafa hins vegar aðeins tvisvar haldið þjóðaratkvæðagreiðslu frá lýðveldisstofnun - í bæði skiptin um Icesave, á grundvelli 26. greinarinnar um synjun forseta á lögum sem Alþingi hefur samþykkt.

Hvaða þýðir að tiltekið hlutfall kosningabærra manna...?

Spurt er hvort þú sért fylgjandi því að ákveðið hlutfall kosningabærra manna, þ.e. Íslendinga 18 ára og eldri, geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál; t.d. lög eða þingmál.

Ekki er tekið fram hversu hátt hlutfall þyrfti til að setja fram slíka kröfu heldur einfaldlega hvort þú viljir að einhver hluti kjósenda geti haft þetta vald yfir höfuð.

Tillögur Stjórnlagaráðs kveða hins vegar á um að 10% kjósenda þyrfti til en Alþingi hefur fengið samþykki Stjórnlagaráðs fyrir því að hækka það hlutfall í 15% eða 20%. Líklega yrði einhver þessara þröskulda fyrir valinu.

Hvað segja tillögur Stjórnlagaráðs?

Í tillögu Stjórnlagaráðs segir í 65. grein:

„Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.“

Í tillögunni segir síðan í 66. grein:

„Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði, svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.“

Loks segir í 67. grein tillögunnar:

„Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.“

Skv. þessu geta 10% kjósenda krafist bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt.

Sömuleiðis geta 2% kjósenda lagt fram þingmál á Alþingi og 10% kjósenda geta lagt fram frumvarp sem bera skal undir þjóðaratkvæði ef Alþingi tekst ekki að koma til móts við kjósendur með öðru frumvarpi. Slík þjóðaratkvæðagreiðsla getur verið bindandi ef Alþingi ákveður það en það er ekki skylt.

Þjóðaratkvæðagreiðslur sem fara fram með þessum hætti gætu þó skv. tillögunum ekki farið fram um fjárlög eða fjáraukalög né heldur lög um þjóðréttarskuldbindingar, skattamálefni eða ríkisborgararétt og aðeins um mál sem varða almannahag. Sömu takmarkanir eru þó ekki lagðar fram í tillögunum á þjóðaratkvæðagreiðslu sem færi fram eftir synjun forseta á lögum sem Alþingi hefur samþykkt.

Ekki er tekið fram hversu hátt hlutfall þyrfti til að setja fram slíka kröfu heldur einfaldlega hvort þú viljir að einhver hluti kjósenda geti haft þetta vald yfir höfuð.

20. desember 2012