AA samtökin

Fyrir þá sem hafa löngun til að hætta að drekka eða hætta í annarri neyslu.

19. nóvember 2012

Skrifstofa AA samtakanna
Tjarnargötu 20 (gula húsið)
101 Reykjavík
Sími: 551-2010
Fax: 562-8814
Netfang: aa@aa.is
Heimasíða: www.aa.is
 

Hvað eru AA samtökin?

AA, eða Alcoholics Anonymous, eru alþjóðleg samtök alkóhólista, sem vinna í sameiningu að bættum lífsstíl. Þau voru stofnuð af tveimur Bandaríkjamönnum, sem þjáðust af alkóhólisma, á fjórða áratug síðustu aldar. AA samtökin hafa verið starfrækt á Íslandi frá árinu 1954.

Hvað eru AA fundir?

AA fundir eru fundir sem alkóhólistar sækja  til að vinna í sameiningu að því að ná bata frá alkóhólisma og njóta lífsins áfengis- og vímuefnalausir.

Hvar finnur maður AA fundi?

Á vef AA samtakanna má finna fundaskrá yfir AA fundi á Íslandi. Starfræktir eru yfir 250 slíkir fundir í viku víðsvegar um landið, í nær öllum sveitarfélögum.

Þarf að uppfylla einhver skilyrði til þess að sækja AA fundi?

Já, það þarf að vera til staðar löngun til að hætta að drekka, eða hætta í neyslu.

AA fundir eru ekki eingöngu fyrir þá sem eiga í vanda með áfengisneyslu. Þeir sem eiga í vanda með önnur vímuefni sækja líka AA fundi. Einnig eru til sérstakir fundir fyrir fólk sem er að vinna sig út úr eiturlyfjaneyslu; NA, Narcotic Anonymous.

Getur maður farið á AA fund þótt mann langi ekki að hætta að drekka?

Ákveðnir fundir bjóða gesti velkomna, það er aðra en þá sem hafa löngun til að hætta að drekka eða hætta í neyslu. Þetta eru kallaðir opnir fundir. Ef fólk vill kynna sér AA samtökin án þess að hafa löngun til að hætta neyslu, er velkomið að kíkja á svoleiðis fund. Í fundaskrá AA má finna hvaða fundir eru opnir fyrir gesti. Einnig má hringja á skrifstofu AA samtakanna og spyrjast fyrir um opna fundi.

Hvað ef maður þorir ekki á AA fund?

Það er allt í lagi að fara einn á AA fund og flestir mæta einir. Þar er alltaf tekið vel á móti nýju fólki. Engar kröfur eru gerðar um að maður tali ef maður vill það ekki sjálfur. Allt sem fram fer á AA fundum er í algjörum trúnaði. Ef maður þekkir óvart einhvern á fundinum er það allt í lagi, þar sem báðir eru þangað komnir til að bæta líðan sína og líf sitt og það er ekkert til að skammast sín fyrir.

Ef maður fer á AA fund, er maður þá genginn í samtökin?

Þótt maður fari á AA fund ber manni engin skylda til að koma aftur ef maður vill það ekki. Fólk mætir eins og það sjálft vill á AA fundi. Að fara á AA fund þýðir heldur ekki að maður megi aldrei drekka aftur, það er einkamál hvers og eins.

Kostar eitthvað að fara á AA fund?

Nei. Aðgangur er ókeypis. Oft er þó látin ganga krukka, þar sem fólk getur veitt frjáls framlög fyrir kaffi og fundarstað, en sjaldnast er gerð krafa til nýliða um að þeir reiði af hendi klink.

Neyðarsími AA samtakanna í Reykjavík er 895-1050.
Neyðarsími AA samtakanna á Akureyri er 849-4012.

Hvað er 12 spora kerfi?

12 spora kerfi er ákveðin aðferð sem beitt er til þess að vinna sig úr vandanum í skrefum. Mörg sjálfshjálparsamtök notast í dag við þessa aðferð, en upphaflega er hún komin frá AA samtökunum. Sporin eru unnin með aðstoð trúnaðarmanns, en hægt er að verða sér úti um trúnaðarmann á AA fundi. Á vef AA samtakanna má lesa meira um 12 spora kerfið.

Hvað er trúnaðarmaður?

Þegar talað er um trúnaðarmann í AA samtökunum er það einstaklingur, sem sjálfur hefur reynslu af AA starfi, og tekur að sér að vera nýjum meðlimum til halds og trausts. Trúnaðarmaður leiðbeinir í gegnum sporavinnuna og er til staðar til að ræða mál sem kunna að koma upp. Ef samvinna við trúnaðarmann gengur illa er ávallt hægt að verða sér úti um annan trúnaðarmann. Á AA fundum eru margir sem bjóða sig fram til að verða trúnaðarmenn.

Talið er æskilegast að karlmenn séu trúnaðarmenn karla og konur séu trúnaðarkonur kvenna.

Eru AA samtökin trúarleg samtök?

AA tilheyrir engum trúarbrögðum og meðlimir AA samtakanna aðhyllast ólík trúarbrögð. Ef talað er um Guð eða Æðri mátt, er átt við það að hver skilji það á sinn hátt, eins og hann sjálfur kýs og samkvæmt eigin skilgreiningu á hugtakinu.

 

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Efni tengt síðu

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Heilsa & kynlíf |  16.12.2014
Einkalíf |  02.05.2016

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  02.05.2016 Hvað er G-blettur?
Stelpuhorn |  18.09.2017 Hvernig fer ég í fóstureyðingu?