Cry for help

29. maí 2012

Spurning

Cry for help Mig nauðsynlega vantar aðstoð en ég hef ekki kjarkinn í að leita eftir henni. Vandinn felst ekki bara í því að ég hef ekki kjark heldur á ég líka erfitt með að treysta fólki, hvað þá að tjá mig um tilfinningar. Ég hef úr mörgu að vinna sem tengist fortíð og nútíð, og ég geri mér fulla grein fyrir því. Ef ég ætti að fara að þylja allt sem er að mér upp hér væri ég komin með margra blaðsíðna ritgerð og líklega efni í góða bók. Stundum líður mer reyndar ágætlega og reyni þá helst að henda öllum vandamálum og öðru til hliðar og ég geri í því að láta allt líta vel út á yfirborðinu. Það reynist aðeins erfiðar þegar ég er down, eins og núna, og finn að ég þarf að takast á við hlutina. Veit bara ekki hvernig. Veit ekki alveg hvort þið skiljið upp né niður í því sem ég er að segja. Og líklega ef/þegar þið svarið þá hef ég ákveðið að allt sé í lagi og að ég þurfi enga aðstoð. En svo hins vegar þá kanski er þetta fyrsta skrefið af mörgum í átt að betri líðan. (Þætti vænt um að þetta rugl yrði ekki sett á netið, ef þið svarið þá að gera það þá á netfangið)
Sæl/l,
Frábært hjá þér að taka þetta fyrsta skref og skrifa þennan tölvupóst til að setja líðan þína í orð. Ef þú ert núna búin/n að ákveða að líðanin sé betri, þá endilega geymdu þetta svar, og ef það fer að halla undan fæti aftur þá geturðu alltaf kíkt á svarið.
Með því að lesa bréfið þitt þá tel ég að þú þurfir að leita þér aðstoðar, það er greinilega margt sem þú þarft að vinna úr, eins og þú segir sjálf/ur bæði í nútíð og fortíð. Það er skiljanlega ekki auðvelt að leita sér aðstoðar, en það sýnir mikinn styrk að geta gert það og því hvet ég þig eindregið til þess. Styrkinn þarft þú svo að nota einnig þegar þú byrjar að taka á þínum málum, því í upphafi er oft erfitt að opna sárin sem hefur verið plástrað yfir, með því að byrja að tala um það aftur. En mundu að það er þess virði á endanum og í framtíðinni, því þér mun líða betur.
Nú veit ég ekki hve gömul/gamall þú ert, en oftast er best á að byrja að ræða svona hluti við foreldra og/eða aðra ættingja sem þú treystir. Ef það er ekki möguleiki fyrir þig þá getur þú rætt við námsráðgjafann í þeim skóla sem þú ert í. Ef þú ert ekki í skóla getur þú hringt á Þjónustumiðstöðina í því hverfi sem þú býrð í (eða Félagsþjónustuna í því sveitarfélagi sem þú ert í) og fengið frítt viðtal við félagsráðgjafa sem getur svo aðstoðað þig við að leita á réttan stað. Svo er einnig hægt að panta viðtal við sálfræðing. Vonandi að þetta svar aðstoði þig eitthvað og hjálpi þér að hefja för þína í átt að betra lífi.
Gangi þér allt í haginn.


Erla S. Hallgrímsdóttir,
félagsráðgjafi, MSW
29. maí 2012

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Fjármál |  28.02.2018

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  02.05.2016 Kynlífsstellingar