Ekki eltast við hann !

13. maí 2014

Spurning

Hjarta

hjarta
Flokkun: 

Hæ hæ.

Ég er stelpa í menntó. Fyrir nokkrum mánuðum síðan kynntist ég strák í sama skóla og ég. Ég varð strax mjög heilluð af honum en við tilheyrum samt ekki sama vinahópi. Við spjöllum mikið saman á netinu og oft í skólanum líka. Hann á fullt af vinkonum og margar sem hann hefur þekkt mun lengur en mig. Þegar ég er í kringum hann og hans vinkonur þá lætur hann eins og ég sé ekki til og hlær endalaust með þeim og allt verður svo frábært með þeim. Þá finnst mér eins og honum líki bara alls ekkert við mig. Samt sem áður kemur hann alltaf aftur að tala við mig og ég held að honum finnist ég alveg skemmtileg, en hann er aldrei áhugasamur um það sem ég segi honum. Mér finnst ég líka ekki vera eins skemmtileg og fyndin og hans vinkonur. Það er eins og hann skemmti sér mun meira með þeim og er alltaf að snerta þær og hrósa þeim. Ég er hrifin af honum en ég verð svo pirruð þegar hann lætur svona! Mig langar svo að gleyma honum bara en get það ekki!!!!!! Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera!

Þetta getur verið erfitt.  Það sem ég tók helst eftir er að þú segir hann aldrei áhugasamann um það sem þú ert að segja honum.  Vill hann þá helst tala bara um sjálfan sig?  Hvernig eru samskiptin ykkar ef hann hefur ekki áhuga á því sem þú ert að segja.  Hljómar eins og hann hafi samband við þig til að geta talað við þig og kannski fengið ráð og stuðning..og kannski hrós..en nennir svo ekki að hlusta á það sem þú vilt tala um.  Það er ekki eftirsóknarvert að halda í svona samband. 

Ég veit það er erfitt að stjórna tilfinningunum og stjórna því hverjum maður heillast af.  Það er líklega eitthvað við hann sem þér finnst eftirsóknarvert.  Kannski sjálfstraustið og að hann er vinsæll.  Því lýsingin hjá þér hljómar ekki eins og hann sé gott efni í kærasta fyrir þig.  Reyndu að sjá þetta aðeins betur úr fjarlægð.  Hvað er það sem er jákvætt við hann?  Hvað ef hann væri hrifinn af þér?  Væri þá ok að hann ætti þessar vinkonur sem hann lætur eins og honum þyki meira varið í en þig? Og nennti ekki að hlusta á þig eða hefði ekki áhuga á því sem þú ert að segja?  Held að þú yrðir ekki ánægð í því sambandi.  Prófaðu að líta aðeins í kringum þig.  Spáðu í aðra stráka.  Kannski á þetta eftir að breytast og hann fer að hafa meiri áhuga, -en ekki eltast við hann eða bíða eftir honum ef hann er ekki sýna nein merki um að þú sért sérstök í hans augum. 

Þú átt skilið kærasta sem að finnst þú áhugaverð, sem vill vita allt um þig og heyra allt um þig.  Sem að finnst þú skemmtileg og frábær eins og þú ert og þorir að sýna það fyrir framan alla.

Gangi þér vel og farðu vel með þig.

13. maí 2014

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Nám |  14.02.2018
Einkalíf |  06.04.2016
Heimilið |  21.04.2015
Vinna |  10.05.2017

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  12.12.2012 Mikil útferð