Félagsleg einangrun

12. maí 2015

Spurning

Hæ, ég er 18 ára stelpa í menntaskóla. Ég á við félagsleg einangrun að stríða. Ég á enga nána vini og hef aldrei átt. Ég var mjög mikið utanveltu í grunnskóla, var alltaf bara með einni annarri stelpu sem var líka utanveltu en við vorum aldrei alvöru vinkonur. Ég kom því með mjög lítið sjálfstraust og brosna sjálfsmynd upp í menntaskóla, en var að vonast eftir því að eignast einhverja vini. En það bara reyndist of erfitt að brjóta sig út úr skelinni, þora að blanda geði við fólk og reyna að kynnast einhverjum, enda hvernig í ósköpunum átti ég að fara að því þar sem að ég hafði litla sem enga reynslu af venjulegum samskiptum við jafnaldra mína. Ég tel sjálfstraust mitt þó hafa batnað þónokkuð eftir því sem ég hef elst. En ég held að ég sé með félagsfælni, ég verð mjög stressuð þegar ég hitti nýtt fólk vegna þess að ég veit að ég er ekki góð í að halda uppi samræðumþví ég þori ekki að segja neitt mikið af ótta við gagnrýni eða að verða mér til skammar. Ég er orðin mjög þreytt á þessu lífi, ég hef aldrei fengið að vera ég sjálf útaf feimninni, mig langar svo mikið að ég myndi bara læknast af þessum félagslega ótta og bara vera eins og hinn týpíski unglingur, vera með vinum, fara út á lífið og bara lifa lífinu, það er draumurinn, í stað þess að eyða lífinu í að hanga heima og gera ekkert. Ég hugsa oft hvernig lífið væri ef ég ætti ekki í þessum vandræðum og ég öfunda þá sem lifa þannig lífi. Ég held ennþá í vonina, þó mér sjálfri finnist það ótrúlegt, að ég muni kynnast einhverjum. Ég gríp hvert tækifæri sem mér gefst til að reyna að kynnast nýju fólki, ég læt mig hafa það að kveljast af ótta og stressi, en ég bara er það lokuð manneskja að það hefur ekkert gengið. Mér finnst ég hafa brugðist gagnvarnt foreldrum mínum, þó ég hafi aldrei rætt þetta við þau og þau viti ekki í hversu slæmum málum ég er. Hluti af vanlíðan minni er líka að þurfa að bera þetta vandamál svona ein, glíma við það ein, en ég bara get ómögulega nefnt þetta við foreldra mína eða nokkurn. Nú er svo komið að mér finnst ég alveg vera að bugast undan þessu og ég bara græt og græt yfir því hvernig líf mitt er orðið. Ég veit ekki hvað ég get gert meira eða hvort ástandið muni einhvern tímann lagast.

Það er gott að sjá að þú sért leita þér leiða til að leysa vandann  þó svo þú treystir þér ekki enn að ræða þetta við foreldra þína.  Engu að síður er rétt að þú ræðir þetta við einhvern til þess að byrja að einhvers staðar.  Þú ert orðin 18 þannig að þú getur leitað þér ráðlegginga sjálf.  Það er mjög gott að leita til Fjölskyldumiðstöðvarinnar Háaleitisbraut 13 S 511-1599 www.barnivanda.is.  Þar getur þú fengið ókeypis viðtöl hjá fagfólki sem gæti aðstoðað í að finna út hvar þú ættir að byrja.  Einnig heldur  Hitt Húsið utan um  skemmtilegt hópastarf sem heitir Vinfús. http://hitthusid.is/atvinna-og-studningur/vinfus/. Einnig væri gott fyrir þig að ræða við námsráðgjafann í skólanum þínum þegar hann byrjar aftur í haust.

Gangi þér vel 
Hulda Björk Finnsdóttir félagsráðgjafi

12. maí 2015

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Fjármál |  28.02.2018