Hvernig fer maður að því að stofna kaffihús?

28. september 2015

Spurning

Hvernig fer maður að því að stofna kaffihús? Hvaða leyfi þarf maður fyrir reksturinn, hvað kostar að sækja um þau? Svo loks hvaða lög gilda um mataröryggi?

Kæri rekstrarfrömuður!

Þetta er stór spurning sem við getum kannski ekki farið alveg ofan í, svona í smæstu smáatriðum, en hér eru nokkrir punktar.

 

 • Rekstur getur verið flókinn og erfiður.  Það þýðir að þú þarft að vera búinn að vinna undirbúningsvinnuna vel; búa til viðskiptaplan og fjárhagsáætlanir.  Við erum búin að velta upp nokkrum spurningum í grein um eigin rekstur, sem þú ættir endilega að kíkja á. 
 • Nýsköpunarmiðstöð er til í að hjálpa þér fyrstu skrefin.  Kynntu þér vel hvaða aðstoð er hægt að fá þar.  Þau geta aðstoðað við gerð viðskiptaáætlunar og fjárhagsáætlana.  Þar eru líka yfirgripsmiklar upplýsingar um alls kyns mál sem þarf að hafa í huga, svo sem ráðningu starfsmanna, fjármögnun og markaðsmál.  
 • Þú þarft að stofna fyrirtæki.  Það er gert með því að fylla út skjöl og senda til Ríkisskattsstjóra.  Þú þarft að eiga eigið fé á reikning eða eignir fyrir í það minnsta 500.000 kr. og svo þarftu að borga stofngjald sem er 130.500 kr.  Við höfum skrifað meira um þetta á Áttavitanum, en þar geturðu fundið skjölin sem þú þarft að senda.  Nýsköpunarmiðstöðin hefur líka skrifað góða grein um sama efni. 
 • Þú þarft að sækja um veitingaleyfi.  Það kostar 24.000 ef þú ætlar ekki að selja áfengi og 161.000 ef þú ætlar að selja áfengi.  Svo kostar það ennþá meira ef þetta er skemmtistaður og opinn lengi.
 • Dómsmálaráðuneytið setur reglugerðir um veitingastaði.  Hér er brot úr þeim en þær er að finna í heild sinni á vef ráðuneytisins:
  • Húsnæði og búnaður veitingastaða skal fullnægja kröfum heilbrigðis- og bygg­ingar­reglugerða, brunamálareglugerðar og reglna um húsnæði vinnustaða.
  • Viðskiptavinir veitingastaða skulu eiga greiðan aðgang að snyrtingu. Starfsfólk veit­ingastaða skal hafa aðgang að sérstakri snyrtingu.
  • Yfirmaður í eldhúsi veitingastaðar skal búa yfir fullnægjandi menntun og þekkingu í með­ferð matvæla, hreinlæti og verkstjórn.
 • Þú þarft að sækja um rekstrarleyfi.  Hér eru gögn sem þarf að hafa til að fá rekstrarleyfi (ef maður er einstaklingur):
  • Starfsleyfi heilbrigðisnefndar.
  • Búsetuvottorð.
  • Vottorð um búsforræði.
  • Staðfesting skattstjóra á virðisaukaskattsnúmeri.
  • Sakavottorð.
  • Vottorð frá lífeyrissjóði um skuldastöðu.
  • Vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu.
  • Nákvæm teikning af húsnæði. Ef um blandaða notkun húsnæðis er að ræða skal fylgja staðfest afrit af aðaluppdrætti þess þar sem fram kemur afmörkun þess rýmis sem ætlað er fyrir reksturinn og skal tilgreina stærð þess í fer­metrum.
  • Ef um er að ræða útiveitingaleyfi, teikning þar sem fram kemur stærð úti­svæðis og fjöldi borða.
  • Ljósrit af tilkynningu fyrri leyfishafa um að hann hafi hætt rekstri.
 • Þú þarft að fá jákvæðar umsagnir. Leyfisveitandi (sýslumaður, nema kaffihúsið sé í Reykjavík, þá sér lögreglan um það) sendir svo umsóknina ásamt fullnægjandi gögnum til umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar, heilbrigðisnefndar, slökkviliðs, vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og lög­reglu.  Þau gefa svo umsagnir um málið, en það getur tekið allt að 45 daga að fá það.  Þau taka afstöðu eftir opnunartíma, öryggi, staðsetningu, rekstrarformi, hljóðmengun og fleiru.
 • Svo þarftu leyfi frá matvælaeftirlitinu.  Hér eru upplýsingar um það (í Reykjavík, ef þú ert ekki þar þarftu að finna matvælaeftirlitið sem sinnir þínu starfssvæði) en það kostar á bilinu 30-50 þúsund fyrir kaffihúsarekstur, eftir umfangi. 
 • Það er gott að skoða bæði lög  og reglugerðir  um veitingastaði vel.

Gangi þér rosalega vel með þetta allt saman.

Tótalkveðjur,

Inga Auðbjörg

28. september 2015

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Nám |  14.02.2018