Í sífelldri megrun

07. maí 2015

Spurning

Hæhæ Síðustu 2-3 ár hef ég verið að reyna að grenna mig og alltaf í sífelldri megrun. Þegar þetta byrjaði fyrir sirka 2 og hálfu ári þá borðaði ég nánast bara ávexti og grænmeti yfir daginn og forðaðist að borða venjulegan mat, ég bjó alltaf til afsakanir til þess að borða ekki og laug að vinum og fjölskyldu. Þetta var í 10.unda bekk og svo sumarið eftir skánaði þetta. Þegar ég byrjaði í Menntaskóla var þetta betra en ég var samt alltaf að passa mig að borða ekki of mikið og fitna ekki. Ég fitnaði samt um nokkur kíló. Svo núna er ég í öðrum bekk og það eina sem fer í gegnum hausinn á mér eru stöðugar hugsanir um mat. Ég borða yfirleitt ekki fyrr en um 4 á daginn og enda ég oft á að fá samviskubit og kasta matnum upp. Ég byrjaði að kasta upp fyrir þrem mánuðum en gerist það þó ekki nema mesta lagi einu sinni á dag eða 5-6 sinnum í viku. Það fer alfarið eftir því hvort ég hafi tækifæri til þess að kasta upp eða ekki. Ég vill ekki vera í þessum vítahring lengur vegna þess að þetta dregur alla orku frá mér og ég vil ekki þurfa að ljúga að vinkonum mínum að ég sé nýbúin að borða þegar ég er að deyja úr hungri. . Ég vil reyna að byrja að borða eðlilega og hollt aftur en ég er mjög hrædd um að fitna. Hvað get ég gert til þess að byrja að borða venjulega og bæta ekki á mig mörgum kílóum?

Það er frábært að þú gerir þér svona vel grein fyrir því að þetta er ekki í lagi og er að stela frá þér orku og gleði.  Það er erfitt að vera komin í svona vítahring og nauðsynlegt að fá hjálp til að brjóta upp þennan vana og neikvæðu hugsanirnar.  Það væri best hjá þér að tala við einhvern um málið.  Spurning hvort þú treystir þér til að ræða þetta við foreldra þína og fá þeirra hjálp við að panta tíma hjá sálfræðingi eða lækni.  Ef þú vilt það ekki þá skaltu ræða við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir.  T.d. einhvern úr fjölskyldunni eða skólanum, s.s. skólahjúkrunarfræðing eða námsráðgjafa.  Þú getur líka sjálf pantað þér tíma hjá lækni, heimilislækni og ræða málin þar.  Hann/hún getur svo vísað þér á sérfræðinga þar sem þú getur fengið viðtal.  Ef að það er vandamál að borga fyrir meðferðina láttu þá lækninn vita af því, það er stundum hægt að fá sálfræðiviðtöl í gegnum heilsugæsluna eða félagsþjónustuna fyrir minna verð. 

Þetta snýst alls ekki bara um að byrja að borða venjulega án þess að fitna heldur snýst þetta um hugarfarið.  Að hafa ekki áhyggjur af öllu sem þú borðar og fá samviskubit við að borða.  Að sleppa við að hugsa stöðugt um mat.  Þetta snýst um að styrkja sjálfstraustið og að sættast við sjálfa þig eins og þú ert.  Að þykja vænt um sjálfa þig og vita að þú átt skilið að borða og hugsa vel um þig, þú ert þess virði og verður ekkert meira eða minna virði hvort sem þú ert 5 kílóum léttari eða þyngri.  Þú ert flott eins og þú ert og þegar þú ferð að hugsa betur um þig þá ferð þú betur með þig, borðar hollari mat og verður hraustari.  gerðu eitthvað í þessu sem fyrst því að því fyrr sem þú færð aðstoð því betur gengur að ná bata og líða betur.

Endilega skrifaðu aftur ef þú vilt spyrja meira út í eitthvað af þessu, eða eitthvað allt annað.  Einnig ef þú treystir þér ekki til að tala við neinn í kringum þig skrifaðu þá aftur. 

Gangi þér ofsa vel.  Tótal kveðjur.

07. maí 2015

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Einkalíf |  02.06.2015

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  24.07.2013 Kláði í kynfærum