Mér líður mjög illa

16. ágúst 2012

Spurning

Veit ekki hvað ég á að gera. Ég veit ekki hvar eða hvort ég á að leita mér hjálpar. Mér líður illa alla daga og ég hef ekki neinn sem ég get sagt hvernig mér líður. Mér finnst eins og ekkert gangi upp hjá mér. Það er eins og ég eigi mér enga framtíð. Allt er eitthvað svo tilgangslaust. Metnaðurinn hjá mér er alveg horfinn, mér finnst eins og ég geti ekki lært neitt. Sjálfstraust mitt er farið alveg í mínus, ég er kvíðin fyrir öllu, bara ef ég er að fara eitthvert (sem öðrum hlakkar til að gera) þá kvíðir mig oft rosalega fyrir því þó ég viti ekki alveg afhverju. Ég er oft með kökkinn í hálsinum og tárin í augunum, En ég bara fæ mig ekki til þess að tala við neinn. Ég gæti haldið svona endalaust áfram um hvað mér líður illa. Það er eins og allt sé á móti mér. Nýlega komst ég af því að pabbi minn væri alkhólisti og væri búin að vera það áður en ég fæddist. Ég bara vissi ekki af því, og grunaði það aldrei. En ég hef aldrei talað um það við hann. Mamma sagði mér frá þessu svo höfum við ekki talað um það síðan. Ég hef ekki hugmyndum hvort hann sé hættur að drekka eða ekki. Þetta er ekki eina fjölskylduvandamálið, en stærsta vandamálið er hvað við tölum aldrei um þau.

Svo gerði það ekkert skárra að strákurinn sem ég elska særði mig meira en nokkur annar hefur gert. Samband okkar var aldrei eðlilegt. Við vorum búin að vera vinir í mörg ár þegar við byrjuðum að hittast, en í leyni, af því hann var á föstu. Hann sagðist ætla að hætta með henni þegar þau færu heim, en þau eru pólsk. Hann er besta mannsekja sem ég hef á ævinni kynnst, enginn hefur látið mig líða svona vel, og líða vel með sjálfan mig. Hann sagðist elska mig og hann vildi vera með mér að eilífu, að honum líði svo miklu betur með mér heldur en með kærustunni. Auðvitað leið mér hörmulega að við værum að þessu fyrir aftan bakið á henni, en hann gerði þetta svo réttlætanlegt. Mér fannst þetta allt í lagi af því hann ætlaði hvort eð er að hætta með henni. En einn daginn þegar hann var út í Pólandi hætti hann við. Hann sagðist bara elska kærustuna sína eftir að hann sagði mér að ég væri sú rétta fyrir hann. ég hata sjálfan mig fyrir að sleppa honum svona auðveldlega. ég sakna hans alla daga. Ég get ekki hugsað mér að vera með einhverjum öðrum gaur. Ég hef reynt að gleyma honum en það gengur alls ekki. Mig langar svo að hann komi aftur, ég elska hann svo mikið.

En hann hefur unnið hér á landi hjá foreldrum mínum undanfarin ár og hann er í miklu uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldu minni. Þess vegna er svo leiðinlegt að það sé mér að kenna að þau sjái hann aldrei aftur, hann var næstum því einn af fjölskyldunni. Og nú hefur hann tilkynnt pabba mínum að hann komi ekki aftur þetta sumar, þar með hefur pabbi misst besta starfsmann sinn. Ég man ekki eftir sumri sem hann hefur ekki verið hérna (hann er svolítið eldri en ég). Það verður mjög undarlegt sumar... sumar án hans. Stundum óska ég þess að við höfðum bara verið vinir. En ég hef alltaf verið hrifin af honum, en hann átti kærustu. Það var hann sem byrjaði á þessu sambandi okkar. Ég var alveg búin að sætta mig við bara vináttu. En hann lét mig falla fyrir sér, Hann hefur verið besti vinur minn lengi en nú er hann horfinn. Mér finnst eins og hann sé dáinn. Ég græt mig oft í svefn. Ég var búin að sjá fyrir mér lífið með honum þegar hann kæmi aftur og við myndum tilkynna samband okkar. En nú þegar hann er farinn hef ég engan til að tala við. ég sagði honum allt. ég hefði getað sagt honum frá því hvað mér líður illa núna. En að hafa hann ekki hjá mér lætur mig líða 1000 sinnum verr.

Ég veit ekki hvort þetta er bara ástarsorg hjá mér eða hvort það sé eitthvað meira að eins og þunglyndi. Því ég hef íhugað hvort það væri ekki bara betra að stytta sér líf. Allt er ömurlegt. Stundum get ég hlegið og haft það gaman, eins og ég gleymi öllu. En svo steypist alltaf eittvhað yfir mig og mig langar bara að loka mig inní herbergi að eilífu. Mér finnst ég eiga enga sanna vini. Mér finnst eins og ég sé bara einhver skítur sem skiptir engu máli. ég hef enga trú á sjálfri mér. Er hægt einhverstaðar að fara í þunglyndisgreiningu? ég er alveg ráðalaus, ég veit ekki hvað ég á að gera. Myndi það hjálpa að fara til sálfræðings? Mig langar að líða vel. Mig langar að geta bara verið hamingjusöm.

Sæl og takk fyrir erindið.
Það kemur ekki fram hversu gömul þú ert en það getur skipt máli varðandi hvert þú getur leitað með aðstoð.
Það er erfitt að vera með vandamál og hafa engan til að tala við. Það er þó mikilvægast að geta rætt um hlutina og spurning hvort þú getir rætt  við móðir þína sem fyrsta skref. Varðandi greiningu á þunglyndi eða kvíða er hægt að leita til heimilslæknis sem fyrsta skref. Þá getur þú leitað til félagsþjónustunnar í þínu sveitarfélagi. Ef þú ert undir lögaldri þarfu að hafa samráð við foreldrana.

Þú ert að sjálfsögðu alltaf velkomin/n í persónulega ráðgjöf hjá okkur niður í Hinu Húsi. Þú þarft bara að bóka með okkur fund á fyrirfram ákveðnum tíma svo við getum kallað til viðeigandi ráðgjafa. Ef það hentar þér ekki koma í heimsókn til okkar þá er til fjöldinn allur af öðrum faglegum úrræðum sem við hvetjum þig til að nýta þér.
Það er líka gott að vita að allir þessir hjálparaðilar eru bundnir trúnaði þannig að þú þarft ekkert að skammast þín fyrir að leita þér hjálpar heldur þvert á móti sýnir það mikinn styrk. Sú staðreynd að þú áttir þig á vandanum og finnir þörfina til að festa hann í orð og senda okkur fyrirspurn sýnir að þú ert á réttri leið.

Endilega drífðu þig af stað og ef það er eitthvað óljóst – hafðu þá samband við okkur strax aftur.
Kær kveðja og gangi þér vel.

16. ágúst 2012