Vanlíðan

29. maí 2012

Spurning

Kæra tótalráðgöf! Ég hef verið undanfarin 3-4 ár í bölvuðu veseni með foreldra mína. Ég held ég ætti bara að segja ykkur frá þessu, því ég er farin að verða svolítið ráðalaus! Ég er að verða 17 ára núna og er á minni annarri önn í framhaldsskóla. Ég ólst upp í litlu þorpi útá landi þar sem skólinn var lítill og samfélagið náið. Ég hef alltaf verið toppnemandi, með sterkar einkanir og umkringd vinum og umhyggju. Ég hef tekið alls konar hluti mér fyrir hendur, prófað allskonar hljóðfærði, 5 íþróttagreinar og verið í forystu í nemendahóp skólands míns líka. En svo fór allt að breytast.. Í 8 bekk átti ég marga vini, en svo fór ég að lenda í mikilli stríðni og einelti, og mér finnst á ákveðinn hátt eins og ég hafi boðið uppá það sjálf. Ég kynntist strák sem er besti vinur minn í dag, sem stóð með mér í gegnum þykkt og þunnt og ef ekki væri fyrir hann þá væri ég kannski ekki á lífi. En já, til að gera langa sögu stutta þá varð ég fljótt þunglynd og einkanirnar mínar fóru að hrapa. Það sem var 9 og 10 varð nú 6 og 7, sem er kannski ekkert hræðilegt, en það var það sem foreldrum mínum fannst, hrein hörmung. Ég átti að hafa það í mér að stefna hærra, ég átti að læra eftir þeirra aðferðum og ég átti að fá 10, 9.5 var alls ekki nógu gott! Ég man að ég kom ofsalega ánægð heim úr skólanum í 10 bekk, búin að fá útúr mjög erfiðu prófi. 9 var einkunnin mín, og ég hafði haft helling fyrir henni, en allt sem ég fékk frá pabba og mömmu var: hvað klikkaði? Og af hverju lastu ekki oftar? Þetta hafði gífurleg áhrif á mig andlega, og pressan og þrýstingurinn urðu til þess að sjálfsálitið mitt hrapaði niður í núll, mér fannst og finnst ég aldrei nógu góð. Þetta endaði þannig að ég hætti í öllum íþróttum, hætti að spila á hljóðfærin, missti langflesta vini mina og kærastann minn, en sem betur fer var alltaf besti vinur minn við hlið mér. Hann var eina manneskjan sem ég gat talað við á þessum tíma. Það kom að því að kennarinn minn fór að taka eftir því á einkunnarspjöldunum mínum að ég var að missa tökin og tók hún mig til hliðar og spurði mig hvað væri í gangi. Hún sagðist hafa tekið eftir því að þessi lífsglaða og skemmtilega, klára stelpa, sem hún hafði kynnst í 8.bekk þegar hún kom í skólann, væri horfin. Ég gat ekkert sagt því ég gat engar ástæður fundið, aðrar en þær að ég væri ómöguleg, lífið væri ómögulegt og að ég nennti þessu rugli ekki lengur. Svo þegar hún fór með þetta til foreldra minna, reynið að giska hvað gerðist, þau trúðu engu! Þau sögðu bara að það væri ekkert að mér, að ég þyrfti ekkert á sálfræðingi að halda, heldur bara að leggja harðar að mér og læra að beita mig aga og setja mér markmið. Í samræmdu prófunum náði ég 4 glæsilegum einkunnum, og 2 ekkert svo góðum, en ég náði þó öllu, en það var ekki nóg fyrir mömmu og pabba. Ég las ekki undir eitt einasta próf, en þau héldu að ég hafi verið inni í herbergi að læra, þegar ég sat inni í herbergi og grét. En staða mín í dag er þessi. Í framhaldsskólanum gekk mér frábærlega vægast sagt á fyrstu önninni, en samt var þunglyndið að þjaka mig. Það hjálpaði mér mikið að 2 kennarar mínir höfðu verið að stríða við þunglyndi og leitaði ég oft til þeirra. Á þessarri önn hefur mér ekki gengið eins vel og ég finn sjálf að ég er þreytt á þessu. Ég hef fitnað gífurlega og er nú orðin kyrrsetumanneskja, í staðin fyrir að vera þessi hressa, orkumikla og duglega stelpa er ég orðin ógeðslega feitur letihaugur. Í hvert skipti sem ég hitti foreldra mína segja þau mér að ég sé orðin óskaplega feit, minni helst á teipaðan hamstur í þröngum fötum og að ég sé orðin eins og bolti í laginu. Ég er í skóla annars staðar en í heimabæ mínum og ég fæ daglega hringingar um það hvort ég sé eitthvað búin að læra þann daginn. Ég er að vinna með skóla, tvo virka daga, er að taka 20 einingar og er að læra söng svo það er nóg að gera. En þessi pressa og þetta vantraust er farið að taka sinn toll á mér. Ég sef lítið og er farin að verða óskaplega fráhrindandi. Gerðu það segðu mér, hvað get ég gert? Ég veit þau elska mig og vilja mér allt það besta og vilja að ég standi mig, en ég get ekki talað við þau um þetta, því þá segja þau bara við mig að þetta sé væl og rugl í mér og ég eigi að taka mig á, trúðu mér ég er búin að reyna að tala. Ég hef óskaplega fáa til að leita til núna. Ég er bara orðin þreytt á náminu, langar nánast að hætta. Ég er orðin þreytt á öllum boðunum og bönnunum frá foreldrum mínum og þeirra skipunum. Ég elska þau, en mér finnst þau hafa farið yfir strikið. Hvað get ég gert? Ég er orðin leið á að hata sjálfa mig og koma illa fram við aðra! Kær kveðja Stúlkan í myrkrinu P.S. Foreldrar mínir voru bæði alin upp mjög agað. Ég hef verið beitt ofbeldi á yngri árum og þau völdu vini mína fyrir mig, en þau eru alls ekki slæmir foreldrar, ég er ekki að segja það. Þau hafa kennt mér margt um sjálfa mig, en núna snúast allar þær kenningar gegn mér. HJÁLP!
Komdu sæl Það er gott að sjá hversu meðvituð þú ert með stöðu þína. Þú ert greinilega mjög dugleg og svo gott að heyra að námslega ertu vel stödd. Það hljómar á bréfinu að þú sért metnaðafull gagnvart skólanum og áhugasöm en þú talar líka um að þér gangi ekki eins vel þegar þú finnur fyrir þunglyndi og vanlíðan eins og þú talar um á þessari skólaönn. Þú ert meðvituð um þetta og því mikilvægt að þú nýtir þér alla þá hjálp sem þú getur fengið. Gætir þú kannski fengið kennarana sem þú hefur rætt við varðandi þunglyndið, sem þú treystir, til að ræða við foreldrana með þér? Að þeir myndu skýra út fyrir foreldrum þínum með þér hversu vel þú stendur þig í skólanum, í hvaða greinum þér gengur vel og hvar og hvenær þér gengur ekki vel. Kannski geta þeir hjálpað þér að útskýra vanlíðan þína við foreldra þína. Einnig getur verið gott að tala við námsráðgjafa eða kannski hjúkrunarfræðing eða heimilislækni. Þar sem að þú ert ekki orðin 18 ára þurfa foreldrar þínir að vita ef þú hittir fagfólk reglulega t.d. sálfræðing reglulega. Hins vegar gætir þú leitað þér aðstoðar og farið í eitt viðtal til að útskýra þitt mál og fengið aðstoð við að útskýra vanlíðan þína við foreldra. Það hljómar á bréfinu að þú sért búin að gefast upp að ræða við foreldra þína. Hins vegar er svo mikilvægt að þú reynir áfram að útskýra þitt og mál og þú reynir núna að fara nýja leið eins og til dæmis með aðstoð einhvers fullorðins sem þú þekkir. Þar sem að þú ert úti á landi get ég ekki bent þér á úrræði á höfuðborgarsvæðinu en námsráðgjafi í skólanum ætti að hafa góða yfirsýn hvaða úrræði og aðstoð er í boði á svæðinu þar sem þú ert. Segðu einnig námsráðgjafa/kennurunum frá námsleiðanum og hvað er hægt að gera við honum. Það er mikilvægt að þú leitir þér aðstoðar núna, þar sem að hingað til þér hefur gengið vel í skólanum. Leitaðu aðstoðar svo þú getir byggt þig upp fyrir næstu önn og ég veit til þess að mikill árangur hefur nást þegar nemendur láta skólann vita um vanlíðan sína og skólinn og nemandi í sameiningu finni lausn á málunum. Gangi þér allt í haginn, ekki gefast upp og ræddu áfram við þá sem þú treystir og fáðu þá til að hjálpa þér að ræða við foreldra þína og þína vanlíða og hvernig þú þurfir þeirra hjálp til að komast upp úr þunglyndinu. Þú þarft að segja þeim að þessi pressa sem þau setja á þig eins og þú lýsir í bréfinu, hjálpar þér ekki að komast í þitt eðliega form. Endilega skrifaðu aftur ef einhverjar aðrar spurningar vakna Bestur kveðjur, Hulda Björk Finnsdóttir
29. maí 2012

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Fjármál |  28.02.2018

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  02.05.2016 Kynlífsstellingar