Vinur minn er þunglyndur.

29. maí 2012

Spurning

Halló. Ég er 16 ára stelpa og á góðan vin sem er 17 ára og sem er búinn að vera þunglyndur lengi, kannski svona eitt og hálft - tvö ár. Hann var lagður inná BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans) fyrir tæplega ári síðan og var þar í einn og hálfan mán. og eftir að hann "slapp" þaðan þá er hann búinn að vera alltí lagi. Þangað til núna undanfarnar 5-7 vikur c.a. Hann er orðinn mjög þunglyndur og talar stundum eða oft reyndar um það hversu mikið honum langi til að enda "þetta" bara. Hann horfir alltaf bara á neikvæðu hliðarnar á flestu og finnst alltaf eins og allt sé honum að kenna. Hann er með mjög lítið sjálfsálit. Mér finnst hann gefast alltaf strax upp og vandamálin koma, hann vill aldrei gera gott úr neinu og það versta er að hann gerir sig að fórnarlambi tilfinninga sinna. Ég er oft búin að reyna að segja honum að hann getur haft áhrif á það hvernig honum líði t.d. með að einblína á það jákvæða í lífinu og sjá kostina sem hann býr yfir. Hann fórnar sér líka oft fyrir aðra og verður síðan reiður við sjálfan sig. Eða hann fórnar sér kannski ekki fyrir þá beint, heldur finnst eins og hann beri ábyrgð á því slæma sem kemur fyrir aðra, og hatar sjálfan sig alltaf fyrir það sem kemur fyrir þá, eins og hann beri ábyrgð á því. Þó að hann hafi ekki gert neitt rangt. En það er einmitt það sem ég ætlaði að tala um. Hann kenndi sjálfum sér um það að vinkonu sinni hefði verið nauðgað, afþví að hann hafði lofað að passa hana (hún bað hann um það), því hún var að fá sér í glas. Hann var búinn að vera með henni allt kvöldið en þurfti síðan að skreppa í tvo klukkutíma eða svo (en hún grátbað hann um að fara ekki, en hann varð að fara vegna þess að hann þurfti að gera eitthvað mikilvægt sem skiptir svo sem ekki máli) og akkúrat þá var vinkonu hans nauðgað. En legið í henni var skemmt og hún getur aldrei átt börn framar. Þegar hann frétti af því leið honum svo illa að ég hef aldrei séð hann svona. Hann hágrét! Ég reyndi að segja honum að hann hefði ekki gert neitt rangt, en hann sagði alltaf: "JÚ!! Ég skildi hana eftir!" Og hann brotnaði svo mikið niður útaf þessu að hann getur ekki einu sinni horft á vinkonu sína, og segir að hann sé ekki neitt nema bara fífl og aumingi, það sé ekki einu sinni hægt að treysta sér og eitthvað þannig rugl. Svo er hann líka alltaf að segja að hann sé svo hræddur og að hann viti ekki hvað hann eigi að gera. Ég veit ekki hvað ég á að segja við hann, ég veit ekki hvernig ég get útskýrt fyrir honum að hann hafi ekki gert neitt rangt og eina manneskjan sem þetta er að kenna sé nauðgarinn, því að hann kemur þá alltaf með eitthvað eins og: "Þessi gaur var búinn að elta hana allt kvöldið, ég vissi alveg að hann átti eftir að ofsækja hana eftir að ég væri farinn" En ég veit alveg að hann vissi það ekkert. Eða ég held allaveganna ekki. En ég vorkenni honum svo mikið, því að honum líður ekkert smá illa útaf þessu ég veit eigilega ekki hvað ég á að segja við hann þegar hann talar um þetta, ég bulla alltaf bara eitthvað. Er þetta nokkuð honum að kenna????? :( :( :( :( :( Þessi strákur er mjög þroskaður og ég veit að hann á eftir að skilja þetta á endanum, málið er bara að hann hefur svo lítið sjálftraust...
Mér sýnist á bréfi þínu að þú sért að gera allt það sem í þínu valdi stendur og að það sem þú hefur gert er ákaflega skynsamlegt. En mér finnst þessi lýsing mjög alvarleg og það eina sem ég get mælt með núna er að þú leitir til einhvers fullorðins einstaklings, sem ber ábyrgð á þessum dreng t.d. foreldra hans. Hann virðist ekki vera að taka ábyrgð á eigin líðan og því er mikilvægt að hann fái aðstoð til þess. Ég tel þessa lýsingu mjög alvarlega, lýsir alvarlegu þunglyndi og töluverðri sjálfsvígshættu. Ég tel ekki að þú getir gert neitt frekar en þetta, svo og að styðja hann áfram á þann hátt sem þú hefur gert. Gættu þín þó að taka ekki of mikla ábyrgð, því hún liggur sannarlega ekki eingöngu hjá þér, ekki frekar en hann ber ábyrgð á öllu því slæma sem hann er að bera ábyrgð á í sínu umhverfi. Það er sjaldgæft að svona ung stúlka hugsi á jafn skynsamlegan hátt og þú gerir. Vinur þinn er sannarlega heppinn að eiga þig að. En mundu bara að þeir sem eiga við þunglyndi að stríða eiga það til að varpa ábyrgðinni yfir á aðra og eiga stundum auðvelt með að smita aðra af hjálparleysi sínu. Ekki falla í þá gryfju, því hann getur sannarlega fengið hjálp, þ.e.a.s. ef hann vill og er tilbúin að taka ábyrgð á sér. Gangi þér sem best.
29. maí 2012

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Fjármál |  28.02.2018

Mest lesnu svörin

Heilsa & kynlíf |  02.05.2016 Kynlífsstellingar