Það eina sem þarf til að senda út reikning er . . .

 • löggilt reikningshefti (þau er hægt að kaupa í bókabúðum) í tví- eða þríriti,
 • bankareikning,
 • penna.

Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram á reikningi?

Ákveðnar upplýsingar verða að koma fram á reikningi. Hér að neðan eru þær tilgreindar.

 • Vinstra megin efst á síðunni er reikningurinn stílaður á þann sem á að greiða hann. Þar verður að koma fram nafn einstaklings eða fyrirtækis, heimilisfang og kennitala. Hægra megin koma upplýsingar um þann sem sendir reikninginn út: nafn, kennitala og heimilisfang (og virðisaukaskattsnúmer, sé maður verktaki).
 • Á reikningsheftum er gefinn upp dálkur fyrir dagsetningu. Þar skal rita dagsetningu dagsins þegar reikningurinn er gefinn út.
 • Í athugasemdardálk skal skrifa lýsingu á því sem selt var. Ef það var vinna skal tekið fram starfstímabil og lýsing á starfi. Þarna kemur verknúmer líka, ef þess þarf. Ef það er vara, skal skrifa stutta lýsingu á henni.
 • Upphæð reikningsins er rituð í dálkinn lengst til hægri. Upphæðin verður að innihalda virðisaukaskatt (sem er 24%). Yfirleitt er upphæðin skrifuð sér, vask-upphæðin þar fyrir neðan og loks samtals; heildarupphæðin neðst. Ahugið!  Ef þú ert ekki með skráða atvinnustarfsemi og þar af leiðandi ekki með  VSK-númer er þér ekki heimilt að innheimta virðisaukaskatt. Þess í stað rukkar þú eingöngu kostnað vöru eða þjónustu án vsk.
 • Einnig þarf að gefa upp greiðslumáta – en yfirleitt er það millifærsla á bankareikning. Sé svo skal skrifa bankaupplýsingar, þ.e. kennitölu reikningshafa, bankanúmer, höfuðbók og reikningsnúmer.
 • Að lokum skal svo setja eindaga á reikninginn, en það er sá frestur sem kaupandi fær til að greiða reikninginn. Algengt er að eindagi sé 10 dögum eftir útgáfudag reiknings. Stundum er það þó samningsatriði, hvenær greiðsla verður innt af hendi.

Frekari upplýsingar um virðisaukaskatt má nálgast í leiðbeiningum um virðisukaskatt frá Ríkisskattstjóra

Gott er að vita . . .

 • að best er að skrifað reikninga í tvíriti. Verkkaupi, sá sem reikningur er sendur til, fær alltaf frumritið, en seljandinn geymir afritið. Kaupi fólk bókhaldsþjónustu af öðrum er gott að notast við þrírit –  þá fær bókarinn annað afritið og sjálfur heldur maður því þriðja;
 • að verktökum ber að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu til Ríkisskattstjóra. Á meðan árstekjur eru undir 1,4 milljónum króna er aðeins greiddur virðisaukaskattur einu sinni á ári, þann 5. febrúar. Fari tekjur þar yfir eru virðisaukaskattskil á tveggja mánaða fresti;
 • að mikilvægt er að halda vel utan um alla reikninga sem sendir eru út og geyma þá í möppu í réttri númeraröð. Það er aldrei að vita hvenær skattrannsóknarstjóri biður um slík gögn.

 

 

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar