Hvað er átröskun?

Átröskun er samheiti yfir nokkra sjúkdóma sem lýsa sér í miklum röskunum á matarneyslu og eigin sjálfsmynd. Átraskanir eru geðsjúkdómar sem stjórnast frekar af tilfinningalífi fólks en eiginlegri þyngd eða líkamlegri heilsu. Algengast er að ungar konur þjáist af átröskunum, en þær fyrirfinnast þó hjá öllum kynjum og aldurshópum. Átraskanir hafa oft mjög alvarlegar líkamlegar afleiðingar og geta jafnvel leitt til dauða. Sálrænu áhrifin eru þó ekki síðri, þar sem sjúklingar þjást gjarnan af miklum kvíða, þunglyndi og brenglaðri sjálfsmynd.

Eru til margar gerðir af átröskunum?

Þrjár helstu tegundir átraskana eru:

 • lystarstol (eða anorexía),
 • lotugræðgi (eða búlimía),
 • matarfíkn.

Hvað á að gera ef einhver nákominn er með átröskun?

Þegar einhver nákominn manni er með átröskun er mikilvægt að vera til staðar og sýna stuðning líkt og í öðrum veikindum. Mikilvægt er að vera góður hlustandi og hvetja fólk til að leita sér faglegrar læknis- og sálfræðiaðstoðar. Þegar um átröskun er að ræða er einnig mikilvægt að vera góð fyrirmynd: sýna að maður hafi heilbrigð viðhorf gagnvart mat, borða holla fæðu og lifa heilbrigðu líferni. Einnig er mikilvægt að fordæma ekki manneskjuna sem þjáist af sjúkdómnum né slúðra um veikindi hennar.

Hjá MFM Miðstöðinni er hægt að fræðast um átraskanir.

Á vef Geðhjálpar má lesa meira um átraskanir.

Hvernig ber að ræða við manneskjuna um sjúkdóminn?

Þegar ræða á við einhvern sem þjáist af átröskun er nauðsynlegt að vera nærgætinn og forðast gagnrýni. Það fyrsta er að láta manneskjuna vita að maður hafi áhyggjur af heilsu hennar – frekar en útliti. Átraskanir hafa gífurleg áhrif á heilsu fólks og það sjónarmið þarf að hafa að leiðarljósi. Persónuleg og tilfinningaleg nálgun er líka betri leið en tal um mat, fitu og kjörþyngd.

Hvernig er hægt að vita hvort einhver sé með átröskun?

Hægt er að glöggva sig betur á tegundum átraskana hér á Áttavitanum. Þó eru nokkur algeng atriði sem gætu komið fólki á sporið, svo sem:

 • mikill áhugi á líkamlegu útliti og líkamsþyngd;
 • þráhyggja varðandi hitaeiningar, mat og næringu;
 • stöðug megrun, jafnvel þótt viðkomandi sé ekki í yfirþyngd;
 • snöggar útlitsbreytingar: Manneskjan annaðhvort fitnar eða grennist hratt;
 • inntaka lyfja sem hafa áhrif á brennslu, meltingu eða vökvabúskap líkamans;
 • mikil og stíf líkamsrækt;
 • afsakanir fyrir því að borða ekki;
 • manneskjan forðast aðstæður og mannamót sem fela í sér að þar sé borðað;
 • klósettferðir rétt eftir máltíðir;
 • matar er neytt í einrúmi, á nóttinni eða það er gert í leyni;
 • allri neyslu hitaeiningaríkrar fæðu er hætt og sneitt algjörlega hjá fitu.

Nokkrar goðsagnir um átraskanir

 • Til að þjást af átröskun þarf maður að vera undir kjörþyngd. Þetta er RANGT. Fólk með átröskun getur verið af öllum stærðum og gerðum. Margir þeirra sem þjást af átröskun eru í eða yfir kjörþyngd.
 • Aðeins unglingsstelpur og ungar konur þjást af átröskun. Þetta er RANGT. Þótt átraskanir séu vissulega algengastar í þessum hópum, þá fyrirfinnast þær hjá báðum kynjum á öllum aldri.
 • Fólk með átröskun er hégómagjarnt. Þetta er RANGT. Átröskun hefur ekkert með hégóma að gera. Drifkraftar sjúkdómsins eru öllu heldur skömm, kvíði og hjálparleysi.
 • Átraskanir eru ekkert hættulegar. Þetta er líka RANGT. Allar átraskanir geta leitt til óafturkræfra og jafnvel lífshættulegra heilsuvandamála, s.s. hjartasjúkdóma, beinþynningar, ófrjósemi og nýrnaskemmda.

 

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar