Í stuttu máli

Mínímalismi er ákveðinn lífstíll sem að snýst um að eiga einungis þá hluti sem maður þarfnast og nýtur þess að eiga. Mínímalískur lífstíll er þess vegna mjög ólíkur á milli einstaklinga. Aðal markmið mínímalista er að einbeita sér að því sem veitir þeim ánægju með því að fjarlægja allt það sem gerir það ekki.

Mínímalískur lífstíll snýst ekki endilega um að eiga sem minnst.

Mínímalismi snýst fyrst og fremst um að einfalda lífið. Spá í því hvað maður vill raunverulega eiga og hvað væri gott að losa sig við. Þá eru margir sem byrja að spá meira í því hvernig þau kaupa inn, þegar þau byrja að kynna sér mínímalískan lífstíl. Fólk fer þá meðal annars að versla vörur sem endast betur og lengur en kaupir jafnvel minna inn en áður.

Hvers vegna velur fólk mínímalískan lífstíl?

Sumu fólki finnst samfélagið einblína of mikið á eignasöfnun, að eiga mikið af fötum, hlutum og dóti. Að sama skapi finnst sumu fólki vera mikið áreiti í kringum það, til dæmis allar tilkynningarnar úr snjallsímanum, tölvupóstarnir og óhóflega mikið stress sem fylgir því að búa í hröðu samfélagi.

Helsti tilgangur mínímalisma er að búa til pláss í lífi fólks fyrir það sem skiptir það mestu máli. Fólk leggur þá áherslu á að lifa í núinu, skapa meira og njóta lífsins án óþarfa áhyggja. Sumir fara þá sjaldnar í búðir, þurfa ekki að taka jafn langan tíma í heimilisþrif og taka jafnvel með sér minni farangur í ferðalög.

Hvernig verð ég mínímalisti?

Hver og einn gerir hlutina á sinn hátt. Það vilja kannski ekki allir stunda mínímalískan lífstíl og jafnvel þau sem gera það fara ólíkt að því. Fyrstu skrefin í átt að mínímalískum lífstíl geta reynst erfiðust en áframhaldið er sömuleiðis oftast auðveldara.

Hér er listi yfir það sem hægt er að gera:

 • Losaðu þig við það sem þú þarft ekki. Prófaðu að fara yfir eitt herbergi í húsinu, taktu þá hluti sem þú hefur ekki notað lengi og þig langar ekki að eiga. Settu alla þessa hluti í kassa og geymdu kassann í mánuð. Ef þú saknar síðan engu úr kassanum, þá getur þú gefið, selt eða hent því.
 • Verkefni 333. Prófaðu að nota aðeins 33 föt og skartgripi í þrjá mánuði. Settu allt annað til hliðar á meðan. Þetta krefur þig til þess að velja þau föt sem þú notar mest og kannt best við. Eftir þessa þrjá mánuði er tími til þess að endurskoða valið og skoða þá hluti sem þú settir til hliðar. Saknaðir þú einhverra þeirra? Var eitthvað af þeim sem þú varst búinn að gleyma að þú ættir?
 • Endurskoðaðu geymsluna. Hvað af því sem finnst í geymlunni munt þú koma til með að nota seinna? Er eitthvað þar sem hefur ekki notað lengi? Er eitthvað þar sem þú varst búin/n að gleyma að þú ættir?
 • Farðu í gegnum símann og tölvupóstinn. Ertu að fá óþarfa tilkynningar? Gefðu þér tíma í að skrá þig af óþarfa póstlistum (e. unsubscribe), afþakka tilkynningar úr hópum á Facebook, taka hljóðið af símatilkynningum sem skipta þig litlu máli og farðu yfir það hvaða öpp þú vilt raunverulega hafa í símanum.
 • Verslaðu minna inn. Hugsaðu þig vel um áður en þú heldur ferð þinni út í búð að kaupa hluti, föt og dót. Þarftu það sem þú ert að fara að kaupa? Hvað geriru ráð fyrir því að hluturinn endist lengi? Er þetta lífstíðareign? Veitir hluturinn þér gleði til lengri tíma litið?
 • Gefðu gjafir sem eyðast. Ef að þú ert í efa um það hvað aðili vill fá að gjöf þá er alltaf gott ráð að gefa upplifanir eða hluti sem eyðast. Dæmi um upplifanir getur verið gjafabréf í bíó, sund, leikhús, veitingastaði eða eitthvað heimatilbúið, til dæmis gjafabréf í nudd, kósíkvöld, rómantískan kvöldverð og fleira. Hlutir sem eyðast geta verið sápur, krem, matur, drykkir og fleira.
 • Áttu erfitt með að finna það sem þig vantar hverju sinni? Farðu vel yfir fataskáp, baðherbergi og eldhús. Grisjaðu það sem þú notar ekki og er því einungis fyrir. Gerðu það sem þú getur til þess að greiða aðgengi að því sem þú notar reglulega.
 • Hugsaðu hvernig þú getur auðveldað heimilisþrifin. Hvað er það sem tekur mestan tíma í þrifum? Eru skrautmunirnir í stofunni kannski einungis að gera það að verkum að þrifin taka lengri tíma? Með því að eiga minna af hlutum verður auðveldara að þrífa.
 • Farðu yfir húsgögnin á heimilinu. Eru húsgögn sem safna ryki en þjóna litlum tilgangi? Með því að losa þig við þau skapast meira pláss heimafyrir.
 • Farðu með minni farangur í ferðalög. Hugsaðu vel um það hvað það er sem þú tekur með þér í ferðalög. Prófaðu að pakka eins og þú sért á leiðinni í helmingi styttra ferðalag en raunin er. Þá getur einnig verið gott ráð að taka með sér minni tösku en venjan er.
 • Gerðu innkaupalista áður en þú ferð út í búð. Farðu vel yfir það hvað er til heimafyrir og gerðu síðan lista yfir það sem á að kaupa inn. Þá getur verið gott að búa til matseðil fyrir vikuna til þess að auðvelda innkaupin.

Nánari upplýsingar og heimildir: 

Mínímalistarnir (the minimalists)

Uppskriftasíða með einföldum og fljótlegum uppskriftum (the minimalist baker)

Föt (verkefni 333)

Hvernig á að lifa sem mínímalisti? (wikihow)

Viltu verða mínímalisti? (séð og heyrt)

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar