Hvað er háskólabrú?
Háskólabrú er leið inn í háskóla fyrir fólk sem ekki hefur lokið stúdentsprófi. Að náminu loknu öðlast nemendur ígildi stúdentsprófs og geta þannig innritast í háskóla hérlendis og erlendis. Bæði er hægt að stunda námið í staðnámi og fjarnámi. Kennsla fer fram á gamla herstöðvarsvæðinu við Keflavík og gengur rúta þaðan til og frá Reykjavík nemendum að kostnaðarlausu.
Hver eru inntökuskilyrðin í háskólabrú?
Til að komast í háskólabrú þurfa nemendur að hafa lokið 70 einingum í framhaldsskóla og vera orðnir 25 ára.
Hversu langt er nám í háskólabrú og hvernig gengur það fyrir sig?
Námið tekur venjulega tvær annir eða eitt ár hvort sem það er tekið í staðnámi eða fjarnámi. Boðið er upp á fjórar deildir: félagsvísinda- og lagadeild, hugvísindadeild, viðskipta- og hagfræðideild og verk- og raunvísindadeild. Nám í verk- og raunvísindadeild tekur þrjár annir. Kennsla fer fram í fyrirlestrum, verkefnatímum og verklegum tímum ef við á.
Hvað kostar nám í háskólabrú?
Greitt er fyrir hverja einingu sem tekin er. Einingin kostar 7.500 kr. í staðnámi. Þannig kostar tveggja anna nám í félagsvísindadeild 457.500 kr. þar sem námið er 61 eining. Þriggja anna nám í verk- og raunvísindadeild kostar 607.500 kr. en það er 81 eining. Í fjarnámi kostar einingin 10.000 kr. og því er fjarnám dýrari kostur. Námið er lánshæft hjá LÍN.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?