Lesblinda er íslensk þýðing á orðinu dyslexía og er námsörðugleiki sem hefur áhrif á getu fólks til þess að lesa, skrifa og stafsetja. Stundum hefur lesblinda einnig áhrif á hversu glöggt fólk er með tölur og áttir, en það þarf ekki að fylgja. Öll börn með dyslexíu geta lært, fái þau góða kennslu, hvatningu, stuðning og sjái árangur af vinnu sinni.

Hver eru einkenni lesblindu (dyslexíu)?

Einkenni lesblindu má greina í tungumáli, lestri, stafsetningu og getu til að læra tungumál. Nákvæman lista yfir þessi atriði má nálgast á lesvef Háskóla Íslands en í grófum drætti eru einkenni lesblindu
 • Að lesa mjög hægt.
 • Að eiga erfitt með stafsetningu
 • Að ruglast á hljóðum og bókstöfum í löngum orðum.
 • Að ruglast á tölum, dagsetningum og tíma.
 • Að þarfnast oft endurtekningar á ákveðnum leiðbeiningum.
 • Að eiga erfitt með glósur.
 • Að finnast erfitt að skipuleggja vinnu eða lærdóm.
 • Að verða sífellt fyrir vonbrigðum með einkunnir úr prófum.
 • Að sofa óvenju laust, eða fast og jafnvel pissa undir lengur en eðlilegt telst.
Það er alls ekki öruggt að maður þjáist af lesblindu þó maður ruglist stundum á tölum eða fær slæmar einkunnir úr prófi. Ef maður er hinsvegar sífellt að lenda í því að skrifa rangt, ruglast kerfisbundið á orðum, stafsetja þau vitlaust og ruglast aftur og aftur á einföldum tölum eða dagsetningum, þá gæti verið ráð að fara í lesblindugreiningu.

Hvernig getur maður fengið lesblindugreiningu?

Ef maður kannast við eitthvað af ofangreindum einkennum gæti verið möguleiki á því að maður sé haldinn lesblindu. Það er samt sem áður mikilvægt að fá alvöru greiningu.
Námsráðgjafar í skólum geta leiðbeint um næstu skref ef maður vill fá greiningu.
Ef maður er aftur á móti komin/n á fullorðinsaldur, eða er ekki í skóla og hefur aldrei fengið lesblindugreiningu má hafa sambandi við Lestrarsetrið og panta tíma í lesblindugreiningu.

Er lesblint fólk treggáfaðra en annað fólk?

Nei. Rannsóknir hafa sýnt að lesblinda er á engan hátt tengd greind eða öðrum hæfileikum. Sumir halda því fram að þeir sem þjáist af lesblindu hugsi meira myndrænt en aðrir og eigi því auðveldara með að sjá hluti fyrir sér. Þess vegna er mikið af lesblindu fólki hæfileikaríkir myndlistamenn, arkítektar, hönnuðir og verkfræðingar. Lesblindir geta nær undantekningalaust fundið sér nám og starfsferil sem þeir kjósa og tekist á við nær hvaða verkefni sem er.
Nánar má lesa um lesblindu og greiningu við henni

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar