Útferð er ljóst eða gulleit slím sem getur komið frá leggöngum og í nærbuxurnar. Útferð er eðlileg, en ef hún er illa lyktandi og kláði fylgir henni er ráðlagt að leita læknis eða ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing.

Nokkrar staðreyndir um útferð…

 • Útferð kallast það þegar slímkenndur vökvi kemur úr kynfærum.
 • Eðlilegt er að útferð byrji úr leggöngum á kynþroskaárunum þegar blæðingar eru byrjaðar.
 • Flestar konur eru með einhverja útferð nær daglega en lykin og magnið er mismunandi eftir konum.
 • Útferð er leið líkamans til að halda leggöngunum heilbrigðum og hreinum.
 • Útferðin fyrirbyggir og veitir vörn gegn sýkingum.
 • Útferð viðheldur raka í leggöngum.
 • Aukin útferð, gul- eða grænleit og illa lyktandi er oft merki um sýkingu og hana ber að leita með til læknis.

Kynsjúkdómar valda oft breytingu á útferð. Ef útferð lyktar illa, eða ef henni fylgir sviði eða kláði, ætti alltaf að leita til læknis.

Mismunandi tegundir útferðar:

 • Hvít: Þykk, hvít útferð er algeng í byrjun og enda tíðahrings en er án kláða.  Ef kláði er til staðar getur þykk hvít útferð einnig gefið til kynna sveppasýkingu.
 • Glær og teygjanleg: Gefur til kynna egglos.
 • Glær og vatnskennd: Getur komið á mismunandi tímum tíðahringsins.
 • Brún: Getur komið fljótlega eftir blæðingu, legið að hreinsast.
 • Gul eða græn: Getur gefið til kynna sýkingu, sérstaklega ef hún er þykk eða kekkjótt og illa lyktandi.
 • Örlítið blóðlituð eða brún: Getur komið við egglos í miðjum tíðahringnum. Einnig snemma í meðgöngu þegar blæðingar hefðu átt að byrja. Ef blóðlituð/brún útferð kemur í stað blæðinga (þegar þær áttu að byrja) og kynmök voru stunduð án getnaðarvarna er nauðsynlegt að gera þungunarpróf.

Útferð úr typpi hjá karlmönnum er yfirleitt alltaf tákn um sýkingu. Ef karlar verða varir við slíkt ættu þeir að leita til læknis.

Eðlileg útferð úr leggöngum:

 • Glær eða mjólkurlituð.
 • Lyktarlítil.
 • Án óþæginda og kláða.
 • Litur og þykkt breytist eftir tíðahringnum.

Óeðlileg útferð úr leggöngum:

 • Gul- eða grænleit.
 • Illa lyktandi.
 • Froðukennd eða kekkjótt.
 • Kláði, sviði, roði eða önnur  óþægindi eru til staðar.
 • Skyndilega aukning á útferð.

Ef framangreind einkenni koma upp geta þau verið vísbending um sýkingu og þá ætti að leita til læknis.

Ráð til að viðhalda heilbrigði kynfæranna:

 • Nota skal alltaf smokk við kynmök ef einstaklingur er ekki í langtíma sambandi.
 • Þrífa skal kynfæri frá píku í átt að rassi eftir þvaglát eða hægðir.
 • Skipta skal daglega um nærbuxur og einnig er gott að sofa nærbuxnalaus.
 • Ráð er að þvo kynfærin með volgu vatni og forðast að nota sápu á kynfærasvæðið.
 • Nota skal nærbuxur úr bómull frekar en gerivefnum þar sem bómullarefni tryggir betra loft í kringum kynfærin og heldur þeim frekar þurrum.
 • Ráð er að forðast að nota tíðatappa nema þá rétt á meðan á blæðingum stendur og skipta um tíðatappa ekki sjaldnar en á 4 klukkustunda fresti.
 • Skipta skal um dömubindi ekki sjaldnar en á 3 klst. fresti.
 • AB mjólk hjálpar til að halda sýrustigi legganga réttu og getur því hjálpað þeim konum sem hafa tilhneigingu til að fá sveppasýkingu þar.

Á Áttavitanum má lesa meira um sveppasýkingu á kynfærum.

Nánar má lesa um kynþroska og kynheilbrigði á heilsuvefnum 6h.is.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar