Framtíðarlandið – félag áhugafólks um framtíð Íslands

Ísland – Pósthólfi 267
121 Reykjavík
Sími: 860-7481
Netfang: framtidarlandid@framtidarlandid.is
Heimasíða: www.framtidarlandid.is
Á Fésbókinni: https://www.facebook.com/pages/Framt%C3%AD%C3%B0arlandi%C3%B0/1862073214…

Hvað gerir Framtíðarlandið?

Framtíðarlandið hefur staðið fyrir mörgum þingum og fundum víða um land til að fylgja eftir þeirri framtíðarsýn að byggja upp mannvænt samfélag og fjölbreytt atvinnulíf á Íslandi í sátt við náttúruna og þjóðir heimsins. Til að fá þverskurð af þjóðinni og fá hana til að dreyma saman átti Framtíðarlandið þátt í því að Þjóðfundurinn 2009 var haldinn. Nú þegar stjórnmál, atriði stjórnskipunar og pólitísk menning á Íslandi eru tekin til gagngerrar endurskoðunar skiptir tilvist félags eins og Framtíðarlandsins miklu máli. Framtíðarlandið vill þess vegna verða samtök félaga sem hafa samráð um mál og um aðgerðir.

Félagið hefur beitt sér sem þrýstiafl meðal annars með því að leggja fram Sáttmála um framtíð Íslands rétt fyrir kosningar þar sem fólk var hvatt til að skrifa undir og kjósa náttúrunni í vil og stjórnmálamenn beðnir um að gera afstöðu sína gagnsæja með því að svara því hvort þeir væru grænir eða gráir. Framtíðarlandið hefur verið í nánu samstarfi við önnur grasrótarsamtök og oft tekið höndum saman við þau um auglýsingaherferðir og undirskriftasafnanir og stórar samkomur. Auk þess hefur félagið unnið ítarlegar skýrslur um atvinnulíf, orkumál og hagfræði í tengslum við stóriðju. Á tímabili var þrýstingur á félagið að gerast stjórnmálaafl og gengu félagar til atkvæða um þá hugmynd sem fékk ekki brautargengi.

Framtíðarlandið hefur unnið sem upplýsingaveita með ótal fyrirlestrum, fræðslu- og umræðufundum, kvikmyndasýningum og með því að bjóða til landsins heimsþekktum leiðtogum á ýmsum sviðum til að víkka út sjóndeildarhringinn. Þar má nefna Vandana Shiva sem er heimsþekkt fyrir baráttu sína gegn Monsanto og erfðabreyttum matvælum, hagfræðinginn Margrit Kennedy sem hefur gagnrýnt harðlega fjármálakerfi heimsins og sýnt fram á nýjar leiðir og Indverjann Samanendra Das sem hefur verið í fararbroddi þeirra sem hafa barist gegn yfirgangi námu og álfyrirtækja.
Hver á orðið? er verkefni þar sem orð og hugtök sem eru ráðandi í umræðunni eru skoðuð – því orð eru til alls fyrst og máttur þeirra mikill. Rithöfundar innan Framtíðarlandsins hafa haft veg og vanda af þessu verkefni.
Eitt stærsta upplýsingaverkefni félagsins er svo Náttúrukortið þar sem ljósmyndarar og sérfræðingar leggjast á eitt til að gera Ísland aðgengilegt og um leið er sagt frá þeim virkjunarhugmyndum sem uppi eru og ógna náttúru landsins.

Fyrir hvað stendur Framtíðarlandið?

Framtíðarlandið – félag áhugafólks um framtíð Íslands – er þverpólitískt þrýstiafl og hugmyndaveita sem stuðlar að því að hugvit, frumkvæði og sköpunargleði fái að njóta sín til þess að byggja upp mannvænt samfélag og fjölbreytt atvinnulíf á Íslandi í sátt við náttúruna og þjóðir heimsins.
Framtíðarlandið var stofnað 17. júní 2006 á fjölmennum fundi í Austurbæ. Þrjúþúsund manns skráðu sig í félagið strax fyrstu vikuna sem gerði það að stærstu grasrótarsamtökum landsins.

Frumkvæðið kom frá einstaklingum af ólíkum sviðum þjóðlífsins sem töldu þörf  fyrir afl sem upplýsir, gagnrýnir og leggur til hugmyndir að nýrri framtíðarsýn á Íslandi – ásamt því að telja nauðsynlegt að efla lýðræði og lýðræðislega umræðu og grundvallarþætti samfélagsins: réttlæti, menntun og skapandi atvinnustefnu.

Á þessum tíma vofði Kárahnjúkavirkjun yfir og stóriðjustefna stjórnvalda birtist í grárri framtíðarsýn sem ógnaði ekki aðeins náttúru landsins heldur einnig grundvallarþáttum samfélagsins.

Framtíðarlandið kom strax af stað mikilli umræðu í samfélaginu og hvatningu til þjóðarinnar um að taka frumkvæði að því að skapa sér sameiginlega framtíðarsýn af kjarki og bjartsýni og velja sér sterk gildi til að vísa sér veginn.

Hvernig er hægt að taka þátt ?

Hægt er að taka þátt í starfi Framtíðarlandsins með því að skrá sig sem félaga á vef Framtíðarlands og einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið framtidarlandid@framtidarlandid.is.  Engar hömlur eru á því hverjir geta tekið þátt í starfi samtakanna. Allir eru velkomnir enda er framtíð Íslands og heimsins í höndum okkar allra.

Framtíðarland býður þér að taka þátt í starfi sem snýr að náttúruvernd og nýjum hugmyndum um samfélagið og vinna að breytingum sem byggja upp mannvænt samfélag í sátt við jörðina.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar