Hæ og takk fyrir spurninguna,
Það helsta sem gæti staðið í vegi þess að verða sjúkraflutningamaður sem flogaveikur er að það krefst þess að hafa ökuréttindi og þarf flogaveikur einstaklingur leyfisveitingu læknis til þess að fá þau réttindi. Hér má sjá svar Lauf:
Öllum sem sækja um ökuskírteini er gert að upplýsa um það hvort þeir séu með flogaveiki eða ekki. Ef svarið er játandi þarf greinargerð læknis að fylgja með umsókninni. Matið sem gildir um leyfisveitingu hér á landi er eingöngu læknisfræðilegt. Ef læknir telur engar hömlur á því að viðkomandi fái réttindi til að aka vélknúnum ökutækjum þá er leyfið veitt. Mat læknisins byggir á því að viðkomandi hafi t.d. verið án floga í að minnsta kosti eitt ár, flogaköstin séu bundin við ákveðinn tíma s.s. eingöngu á næturnar eða viðkomandi fái alltaf fyrirboða. Ef þú ert þegar með ökuskírteini og byrjar að fá flog ættir þú að hætta öllum akstri. Það er óábyrgt, ólöglegt og jafnvel hættulegt þér og öðrum að halda áfram að aka án þess að hafa rætt það við lækni. Fólki með flogaveiki var lengi bannað að aka vélknúnum ökutækjum hér á landi og víða erlendis gildir það bann enn.
Annars er um að gera að heyra til dæmis í Sjúkraflutningaskólanum og athuga hvað þau segja.
Gangi þér vel,
Áttavitinn
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?