Hvað er atvinnutorg?

Atvinnutorg í Reykjavík er samstarfsverkefni velferðarráðuneytis, Vinnumálastofnunar og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og hefur það hlutverk að veita ungum atvinnuleitendum stuðning og ráðgjöf við að komast út á vinnumarkaðinn. Á Atvinnutorgi veita sérhæfðir atvinnuráðgjafar langtíma atvinnulausum einstaklingum á aldrinum 16-25 ára aðstoð við atvinnuleit og undirbúning fyrir atvinnuþátttöku. Í boði eru margskonar úrræði og tækifæri til að auka atvinnumöguleika fólks í framtíðinni.

Hvar er Atvinnutorg?

Atvinnutorg er staðsett í húsnæði Vinnumálastofnunar, Kringlunni 1, 103 Reykjavík.

Fyrir hverja er Atvinnutorg?

Atvinnutorg er fyrir atvinnuleitendur á aldrinum 16-25 ára sem hafa verið án atvinnu í 6 mánuði eða lengur og þiggja ýmist atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sér til framfærslu.

Á Atvinnutorgi fær hver atvinnuleitandi sinn atvinnuráðgjafa sem setur upp einstaklingsáætlun með hverjum og einum með ákveðin markmið að leiðarljósi. Slík áætlun getur innihaldið daglega mætingu á Atvinnutorg, starfsþjálfunartækifæri eða tímabundna ráðningu á vinnustað.

Hvað annað er í boði á Atvinnutorgi?

Boðið verður upp á ýmsar kynningar og námskeið um margt sem tengist atvinnulífinu og því að vera úti á vinnumarkaðnum. Til dæmis verður fjallað um gerð ferilskrár og farið yfir undirbúning fyrir atvinnuviðtöl. Einnig verður rætt um skatta, kjaramál, launaseðla og fleira. Þeir sem eiga í vanda vegna áfengis- eða vímuefnanotkunar gefst kostur á að fara í meðferð við því. Einnig verða í boði ýmis námstengd úrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk.

Til hvers að ráða sig í vinnu?

Reynsla úr atvinnulífinu er nauðsynleg til að byggja upp ferilskrá og færir mann nær framtíðarmarkmiðunum. Viti maður ekki nákvæmlega hvert maður stefnir getur ný reynsla gefið hugmyndir um það hvað í boði er á vinnumarkaði.

Ef maður hangir of lengi heima er hætt við að maður dragist ofan í þunglyndi og fyllist kvíða. Því lengur sem maður stendur utan við þjóðfélagið og tekur lítinn þátt, því erfiðara verður að koma sér inn í það á ný. Langvarandi aðgerðarleysi gerir mann óhamingjusaman og óánægðan með sjálfan sig.

Með því að koma lífinu aftur í rútínu losnar maður við slenið, nær betri tökum á sjálfum sér og verður fyrir vikið ánægðari með sjálfan sig. Þegar maður er virkur á vinnumarkaði byggir maður upp sjálfstraust og öðlast skarpari sjálfsmynd og framtíðarsýn. Tengslanetið sem maður myndar á vinnustaðnum gefur manni ekki bara fleiri vini og kunningja, heldur getur það leitt til nýrra tækifæra og aukinna möguleika í atvinnulífinu síðar meir.

Reynslan verður dýrmæt þegar sótt verður um draumastarfið í framtíðinni. Þeir sem hafa lengri tímabil án atvinnuþátttöku eða náms á ferilskránni eiga minni möguleika en þeir sem hafa verið virkir í vinnu og námi. Góð meðmæli frá fyrrverandi vinnuveitendum ráða líka oft úrslitum um það hvaða umsækjandi er ráðinn til starfa.

Eitt getur leitt af öðru en ekkert leiðir af engu!

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar