Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja þá sem hentar manni best.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að leikarastarfinu.

Hvað gerir leikari?

Leikarar taka að sér að túlka hlutverk í leikritum, kvikmyndum, auglýsingum og á fleiri sviðum.  Á litlum markaði, eins og á Íslandi, gera leikarar oft sitt lítið af hverju, en á stærri svæðum eins og í Bandaríkjunum sérhæfa leikarar sig oft eftir þessum sviðum og jafnvel eftir gerð afþreyingarefnisins, svo sem gamanleik, drama og hrollvekju.  Leikarar fást einnig við raddsetningu á barnaefni, leiklestur og upplestur fyrir útvarp.

Hvernig veit ég hvort leiklistin sé eitthvað fyrir mig?

Margir hreinlega fæðast með leiklistarbakteríuna en aðrir slysast til að fylgja vinum sínum í inntökupróf leiklistarskóla og enda á leikhússviðum borgarinnar.  Það eru nokkrar leiðir til að fá smjörþefinn af leikaralífinu án þess að skuldbinda sig í margra ára háskólanám:

  • Flestir grunn- og framhaldsskólar bjóða upp á leikfélög eða leiklistaráfanga, sem eru tilvaldir til að fá að prófa á eigin skinni hvort að leiklistin sé eitthvað fyrir mann.
  • Áhugaleikfélög eru líka starfrækt í mörgum sveitarfélögum, en þau má finna á lista yfir aðildarfélög í Bandalagi íslenskra leikfélaga.
  • Það getur líka verið góð hugmynd að fara á leiklistarnámskeið sem eru oft á vegum leikfélaganna eða skóla.  Best er að gúgla hvað er í boði hverju sinni.
  • Þú getur gerst aukaleikari í kvikmynd eða auglýsingu ef þú hefur áhuga á að kynnast kvikmyndaheiminum.  Aukaleikarastarfið er oft illa launað og vanþakklátt, en það getur verið mjög gott að fá að sjá kvikmynd verða til á setti og mögulega nafnið sitt á kreditlistanum!  Besta leiðin til að fá aukaleikarahlutverk er að fylgjast með á facebookhópi aukaleikara  eða senda tölvupóst á aukaleikarar@gmail.com.

Hvar læri ég að verða leikari?

Langi mann að verða leikari getur verið gott að fara í leiklistarskóla.  Þar lærir maður ýmislegt sem gagnast manni í starfi, svo sem raddbeitingu, túlkun, hreyfifærni, leiklistarsögu, karaktersköpun og fleira.  Leiklistarskólar eru yfirleitt á háskólastigi, en einnig eru til framhalds- og lýðháskólar á Íslandi og erlendis sem bjóða upp á grunnundirbúning í leiklist.  Athugið samt að sumir frægir leikarar hafa aldrei farið í leiklistarskóla, heldur einfaldlega verið uppgötvaðir vegna hæfileika sinna.  Athugið einnig að nám í leiklistarskóla er engin gulltrygging fyrir því að þú “meikir það” á sviðinu, enda markaðurinn á Íslandi lítill og erfitt að komast að erlendis.  Leiklistarnám er þó alltént mjög góður undirbúningur fyrir alls kyns störf þar sem áhersla er á að koma fram og tjá sig.

Framhaldsskólar á Íslandi sem bjóða upp á leiklistarbraut

Margir framhaldsskólar bjóða upp á leiklistaráfanga og ríkt leiklistarlíf á vegum nemendafélaganna.  Hér ætlum við ekki að telja upp þá skóla sem bjóða upp á staka áfanga, heldur aðeins þá skóla sem eru með sérstaka leiklistarbraut.

Fjölbrautarskólinn í Garðabæ

Fjölbrautarskólinn í Garðabæ býður upp á listnámsbraut til stúdentsprófs með áherslu á leiklist.  Þar er farið í undirstöðuatriði leiklistar, sögu leiklistar, hinar ýmsu útfærslur leiklistarformsins og leikritagerðar. Einnig er kynning á ýmsum starfsstéttum innan leiklistarinnar. Nemendur setja á svið ýmis leikrit. Brautin gefur til dæmis góðan undirbúning fyrir nám í listaskólum.

Leiklistarbrautir sem háskóla- eða framhaldsnám

Leikarabraut Listaháskóla Íslands

Listaháskóli Íslands býður upp á leikarabraut sem er 6 annir (3 ár) og veitir við útskrift BA gráðu í leiklist.  Markmið leikarabrautar er að útskrifa víðsýna og skapandi listamenn, sem búa yfir þeirri tækni og þekkingu, sem sviðslistaumhverfi nútímans kallar á.  Lögð er áhersla á að vekja með nemandanum forvitni og áræðni, til að takast á við hin margvíslegu viðfangsefni námsins.

Mikil ásókn er á leikarabraut og fáir komast inn en á hverju ári eru um 10 nemendur teknir inn.  Stúdentspróf eða önnur framhaldsmenntun er almennt inntökuskilyrði.  Opið er fyrir umsóknir á haustin og inntökupróf eru svo snemma á nýju ári.

Leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands

Í Leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands er boðið uppá krefjandi list- og fagnám.  Mikil áhersla er lögð á líkamsbeitingu, raddþjálfun, söng og líkamsmeðvitund til að finna styrkleika hvers og eins. Nemendur hljóta þjálfun í að leika í kvikmyndum og öðrum myndmiðlum undir leiðsögn skapandi listamanna úr röðum leikara, leikstjóra, söngvara, dansara og kvikmyndagerðamanna sem starfa við list sína og tengja nemendur við listasamfélagið.

Stúdentspróf er inntökuskilyrði og hámarksfjöldi í hverjum bekk eru 12 nemendur.  Námið er tvö ár.

Leiklistarháskólar erlendis

Leiklistarskólar á erlendri grundu eru í ”tonnatali”.  Hér eru nokkrir skólar sem Íslendingar hafa sótt nýlega:

Hvar mun ég svo starfa sem leikari?

Eins og áður segir, þá er menntun engin trygging fyrir leikarastarfi, enda markaðurinn lítill á Íslandi og erfitt að komast að erlendis.  Nokkrir íslenskir leikarar hafa fengið góð hlutverk í erlendum verkefnum, eftir að hafa farið í prufur eða eftir að hafa leikið á sviði erlendis.

Leikarar leika í leikhúsum

Hér á Íslandi eru þrjú fagleikhús sem ráð til sín fastráðna leikara og leikara í stök verkefni:

  • Þjóðleikhúsið
  • Borgarleikhúsið -Leikfélag Reykjavíkur
  • Leikfélag Akureyrar

Leikarar leika í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum

Ennfremur er fjöldi kvikmynda og sjónvarpsþátta framleiddur á hverju ári, en það eru stök verkefni og leikararnir ráðnir í hvert verkefni fyrir sig.

Leikarar leika í auglýsingum

Fjölmargar auglýsingastofur ráð til sín leikara til að leika í auglýsingum eða talsetja þær.  Það getur verið gott að vera á skrá hjá módelskrifstofu eins og Eskimos, sem sjá um að koma fólki á framfæri í slík verkefni.

Leikarar stofna leikhópa

Margir leikarar stofna sjálfstæða leikhópa, oft í kringum eina sýningu sem þeir hafa unnið að og gengið vel. Sjálfstæðir leikhópar hafa til að mynda nýtt sér sýningaraðstöðuna í Tjarnarbíói, atvinnuleikhúsunum og öðrum sviðum. Einnig hefur Hitt Húsið haldið úti listhópum, m.a. götuleikhúsinu sem hefur reynst dýrmæt reynsla leikara sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Leikarar leikstýra

Margir leikarar leikstýra sýningum, oft hjá áhugaleikhópum og menntaskólaleikfélögum, auk þess að stýra leiklistarnámskeiðum.

Leikarar gera ýmislegt fleira

Leikarar sjá oft um þáttastjórn, veislustjórn og ýmis störf sem tengjast kvikmynda- og leikhúsgeiranum, svo sem handritsgerð og sem dramatúrgar og listrænir ráðunautar.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar