Atvinnuleysisbætur

Fullar atvinnuleysisbætur árið 2020 eru 289.510 krónur á mánuði. Rétt á fullum bótum eiga þeir sem starfað hafa í fullri vinnu í 12 mánuði af síðustu 36 mánuðum. Þegar fólk er nýkomið úr námi er bótaréttur skoðaður með tilliti til vinnusögu undanfarna 72 mánaða. Fullt nám í 6 mánuði á undanförnu ári telst sem 13 vikur í fullri vinnu, eða rúmir 3 mánuðir. Sótt er um atvinnuleysisbætur á vef Vinnumálastofnunar. 

Atvinnumiðlanir

Atvinnuleitendur geta skráð sig hjá atvinnumiðlunum sem hjálpa þeim við leitina að starfi. Mörg fyrirtæki auglýsa ekki sérstaklega eftir starfsfólki heldur láta atvinnumiðlanir um að finna það fyrir sig. Hjá atvinnumiðlunum er einnig hægt að fá góð ráð um vinnumarkaðinn og hvernig best sé að bera sig að við atvinnuleit.

Atvinnurekandi

Atvinnurekandi er sá sem kaupir vinnuaflið, eigandi fyrirtækis eða annars konar vinnustaðar. Hann borgar starfsmönnum laun og leggur til ýmis gjöld til viðbótar við það sem launþeginn borgar, eins og t.d. í lífeyrissjóð.

Atvinnuumsókn

Þegar sótt er um starf þarf að senda atvinnurekanda (eða þeim sem tekur viðtalið, öðrum en atvinnurekanda) atvinnuumsókn. Atvinnuumsókn samanstendur yfirleitt af umsóknarbréfi og/eða þar til gerðu umsóknareyðublaði, ferilskrá (sjá nánar síðar) og fylgiskjölum, ef þess þarf (prófskírteini, skriflegum meðmælum o.s.frv.).

Atvinnuviðtal

Atvinnurekandi kallar umsækjendur til sín í atvinnuviðtal eftir að farið hefur verið yfir umsóknirnar. Mikilvægt er að mæta vel undirbúin/n í atvinnuviðtal en búast má við að þurfa að svara spurningum um fyrri störf og reynslu og eigin kosti og galla. Stundum eru tekin fleiri en eitt viðtal.

Áunnin réttindi

Áunnin réttindi eru réttindi sem launþegi hefur unnið sér inn í starfi. Undir þessi réttindi heyra ýmsir sjóðir (lífeyrissjóður o.s.frv.), orlof, launasetning, uppsagnarfrestur og veikindaréttur. Um áunnin réttindi er fjallað í kjarasamningum. Þar er gott að kynna sér ávinnslu og flutning réttinda á milli starfa.

Bakvaktir

Starfsmanni á bakvakt er skylt að vera í símasambandi og sinna útköllum. Bakvaktagreiðslur eru mismunandi eftir kjarasamningum en tekið er tillit til vikudaga, stórhátíðarálags o.s.frv. Starfsmaður á bakvakt þarf að vera í vinnuhæfu ástandi.

Brúttó

Að ófrádregnum kostnaði. Brúttó laun eru heildarlaun, þ.e. mánaðarlaun að ófrádregnum skatti og öðrum greiðslum. Þessi tala kemur fyrir ofarlega á launaseðlinum.

Dagvinna

Dagvinna er hinn “eðlilegi” vinnutími, þ.e. sá vinnutími sem unninn er yfir daginn. Dagvinnutími er mismunandi eftir kjarasamningum og starfsstéttum en er oftast frá 08:00-16:00 eða 09:00-17:00 og telur ákveðið margar klukkustundir á viku. Laun sem greidd eru á dagvinnutíma eru þau laun sem miðað er við í kjarasamningi. Sé unnið utan dagvinnutíma fær starfsmaður greidda eftir- eða yfirvinnu.

Desemberuppót

Desemberuppbót er bónusgreiðsla sem launþegar fá greidda í desember. Þetta er venjulega föst upphæð og, eins og margt annað, mismunandi eftir kjarasamningum (94.000 kr. árið 2020 skv. Kjarasamningum VR). Fulla desemberuppbót fá þeir sem unnið hafa 45 vikur á ári í 100% starfi. Desemberuppbót þeirra í lægra starfshlutfalli reiknast í samræmi við það.

Ferilskrá

Ferilskrá er send ásamt atvinnuumsókn til tilvonandi vinnuveitanda. Hún inniheldur allar upplýsingar um umsækjanda og hans fyrri störf. Ferilskráin á að vera snyrtilega uppsett og í henni á að koma fram, í þessari röð:

Persónuupplýsingar, menntun (það nýjasta efst, elsta neðst – gildir um allt á ferilskránni), starfsreynsla, námskeið og önnur kunnátta (tungumál, félagsstörf), meðmælendur og áhugamál.

Fjármagnstekjuskattur

Fjármagnstekjuskattur er skattur sem leggst á einstaklinga. Árið 2020 er fjármagnstekjuskatturinn 22%. Þessi skattur rennur óskiptur til ríkisins. Skatturinn leggst á:

 • tekjur af vöxtum, s.s. ef fólk ávaxtar peninga í banka eða hagnast af skuldabréfaeign;
 • tekjur af leigu á húsnæði; (eingöngu 70% af tekjunum eru skattlagðar
 • hagnað af sölu fasteigna og verðbréfa;
 • arð (þ.e. hagnað) hluthafa í fyrirtækjum.

Fjárræði

Við 18 ára aldur færist ábyrgð íslenskra ungmenna á eigin fjármálum yfir til þeirra. Fram að því höfðu foreldrar fjárráð yfir börnum sínum. Fram að fjárræðisaldri er ungu fólki bannað að skuldbinda sig fjárhagslega, s.s. að taka lán hjá bönkum.

Foreldraorlof

Þegar barn fæðist (gildir einnig um ættleiðingar eða þegar barn er tekið í fóstur), þá á hvort foreldri rétt á greiðslum í orlofi í 3 mánuði skv. Stjórnarráði Íslands. 

Sjá nánar „Fæðingarorlof“

Frí

Réttindi til orlofs eru í fyrsta lagi rétturinn til frítöku og í öðru lagi rétturinn til launagreiðslna í fríi. Fyrir hvern mánuð í 100% starfi vinnast inn a.m.k. tveir dagar af launuðu fríi. Í orlofslögum má finna lágmarksrétt um orlof en mikilvægt er að kynna sér ákvæði um orlof í kjarasamningum – kjörin þar eru oft betri.

Fyrirframgreidd laun

Ákvæði um fyrirframgreidd laun eru mismunandi eftir kjarasamningum. Oftast er kveðið á um að starfsmaður sé ráðinn ótímabundið og hafi starfað samfellt í eitt ár. Ef þessi skilyrði eru uppfyllt ætti hann að geta óskað eftir fyrirframgreiðslu launa til eins mánaðar.

Fæðingarorlof

Fæðingarorlof er leyfi sem foreldrar nýfædds barns hafa rétt á að taka sér, að því gefnu að þeir hafi verið í sex mánuði samfellt á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barnsins. Þeir fá greitt úr fæðingarorlofssjóði en hámarksfæðingarorlof er 9 mánuðir. Hvort foreldri um sig fær 3mánuði í fæðingarorlof og saman fá þau svo 3 mánuði að auki, sem skipt er á milli að vild. Greiðslur foreldra í fæðingarorlofi eru tekjutengdar. Tilkynna ber vinnuveitanda um orlofið ekki síðar en 8 vikum fyrir fyrirhugaða fæðingu barnsins. Óheimilt er að segja starfsmanni upp sökum töku eða fyrirhugaðrar töku fæðingarorlofs.

Hlutastarf

Starfsmaður telst vera í hlutastarfi ef venjulegur vinnutími hans á viku (eða að meðaltali miðað við ár) er styttri en sambærilegs starfsmanns í fullu starfi, þ.e. hann vinnur aðeins hluta af 100% starfi.

Jafnaðarkaup

Ekkert er til í kjarasamningum sem heitir jafnaðarkaup. Ef launþegi er á jafnaðarkaupi er farið eftir föstum taxta, oft ögn hærri en hefðbundnum dagvinnutaxta, hvort sem hann vinnur á daginn, á kvöldin eða um helgar. Launþeginn fær því ekki borgað álag þar sem við á en hann tapar iðulega á slíku fyrirkomulagi og fær minna borgað í heildina. Gott er að bera ráðningarsamning, sem kveður á um jafnaðarkaup, undir stéttarfélag því oft standast útreikningar ekki.

Kauptaxtar/Launataxtar

Kauptaxti er það viðmið sem mælir til um lágmarkslaun einstaklinga og starfsstétta. Hann grundvallast á mörgum atriðum, eins og t.d. aldri, stöðu, ábyrgð, menntun o.s.frv. Atvinnurekandi má greiða starfsfólki sínu laun skv. kauptaxta eða hærra en má ekki fara lægra en kauptaxtinn sem gefinn er í kjarasamningum. Kauptaxta má í flestum tilvikum nálgast í viðeigandi kjarasamningum.

Kennitöluflakk

Ef fyrirtæki verður gjaldþrota og flytur reksturinn yfir á nýja kennitölu en skilur skuldir fyrirtækisins eftir á þeirri gömlu, hefur það framkvæmt kennitöluflakk. Þar með geta kröfuhafarnir aðeins nálgast eignirnar sem skráðar eru á gömlu kennitöluna og eigendurnir halda áfram rekstri á þeirri nýju – “frjálsir” allra mála!

Kjarasamningur

Kjarasamningur er gerður á milli stéttarfélaga og tiltekinna vinnustaða. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar (stéttarfélag) og Reykjavíkurborg (vinnustaður) gera t.d. með sér kjarasamning og stéttarfélagið VR gerir samninga við Samtök atvinnulífsins (SA) og Félag atvinnurekanda (FA) auk sértækari samninga við fyrirtæki sem standa utan þessara félaga. Kjarasamningur er eins konar lög sem tryggja lágmarkskjör fyrir alla starfsmenn. Í kjarasamningum eru ákvæði um flest sem snýr að kaupum, kjörum, réttindum og skyldum starfsmanna. Þar má nefna laun, vinnutíma, orlof, kaffitíma, tryggingar, veikindi, iðgjaldagreiðslur o.s.frv.

Kynbundinn launamunur

Þegar talað er um kynbundinn launamun er oftast átt við óútskýrðan mun, þann launamun sem eingöngu er hægt að útskýra með kyni. Karlmenn vinna almennt lengur en konur og veljast fremur í störf sem metin eru til hærri launa. Þessi munur er útskýrður og reiknað er fyrir honum. Að því loknu stendur að jafnaði eftir um 7-18% launamunur á milli kynja. Þennan mun má þó að nokkru leyti útskýra með ýmsum fríðindum, aukatekjum og óunninni yfirvinnu sem karlar fá frekar.

Laun

Laun fáum við greidd fyrir vinnuna sem við vinnum. Atvinnurekendur kaupa vinnu okkar með því að borga okkur laun. Laun eru oftast útborguð mánaðarlega en stundum er hafður annar háttur á og þau borguð vikulega, hálfsmánaðarlega o.s.frv. Um þetta fyrirkomulag er samið áður en starfsmaður hefur störf. Launaseðill (sjá síðar) á að berast launþegum um hver mánaðamót en á honum koma fram ýmsar upplýsingar varðandi laun.

Launaflokkar

Stéttarfélög og vinnustaðir ákvarða gjarnan fasta launaflokka, þ.e. störfum er raðað niður á launaflokka eftir því hvers er krafist af þeim sem vinna þau. Þá eru störf sem metin eru sambærileg (hvað varðar reynslu, álag, ábyrgð o.fl.) sett í sama launaflokk. Innan hvers launaflokks eru oft svokölluð launaþrep og hækkar starfsmaður um launaþrep eftir ýmist starfs- eða lífaldri.  

Launagreiðandi

Sá sem borgar laun. Þetta er oftast atvinnurekandinn sjálfur, sá sem stýrir og á fyrirtækið eða stofnunina sem unnið er hjá.

Launahækkun

Ákvæði um lágmarkslaun eru í kjarasamningum. Skv. kjarasamningi á einstaklingur rétt á launaviðtali einu sinni á ári (VR 2018) þar sem hann getur rætt leiðréttingu á sínum kjörum. Einnig er oft farið í kjaraviðræður við starfsstéttir sem krefjast endurskoðunar á kjarasamningum. Aðalatriðið í þessum viðræðum er oftast launin en leitast er við að hækka lágmarkslaun í kjarasamningum. Launahækkanir sem hljótast af kjaraðviðræðum taka gildi hjá öllum sem tilheyra stéttinni.

Launaleynd

Samkvæmt lögum hafa launþegar rétt til þess að greina ekki frá launakjörum sínum. Enn fremur er óheimilt að þvinga launþega til þess að halda laununum leyndum eða refsa þeim fyrir að segja frá þeim. Launaleynd á því, a.m.k. lögum samkvæmt, að vernda hagsmuni launþegans.

Launaseðill

Launaseðillinn berst ýmist inn um lúguna eða inn í heimabanka um hver mánaðamót. Á honum standa persónuupplýsingar um launþega og laungreiðanda; mánaðarlaun fyrir skatt; staðgreiðsla (tekjuskattur og útsvar); persónuafsláttur; gjöld í stéttarfélag, lífeyrissjóði, séreignalífeyrissparnað (ef það á við) og aðra sjóði og orlof. Loks eru gefin útborguð laun, sú upphæð sem lögð er inn á bankareikninginn um hver mánaðamót, launin eftir fyrrnefndan frádrátt.

Launatímabil

Hjá flestum atvinnurekendum er skilgreint svokallað launatímabil. Fyrir þetta launatímabil er greitt sem nemur einum mánaðarlaunum. Launþegar fá með öðrum orðum. greidd mánaðarlaun fyrir hvert launatímabil og strangt til tekið ekki mánuðinn sjálfan. Launatímabil Reykjavíkurborgar er t.d. frá 11. hvers mánaðar til 10. þess næsta. Þann 1. nóvember fá starfsmenn Reykjavíkurborgar því borgað fyrir tímabilið 11. september – 10. október.

Launaviðtal

Í kjarasamningum er oft ákvæði um launaviðtal. Þá á starfsmaður rétt á launaviðtali einu sinni á ári þar sem hann getur rætt mánaðarlaun sín og farið fram á launahækkun (eða leiðréttingu kjara). Þetta þarf starfsmaðurinn að geta rökstutt vel. Venjulega þarf vinnuveitandinn að verða við beiðni starfsmanns um launaviðtal innan einhvers tímaramma (algengt er tveir mánuðir) og niðurstaðan þarf að liggja fyrir innan mánaðar eftir að viðtalið fór fram .

Launþegi

Launþegi er sá sem selur vinnu sína til atvinnurekanda og fær útborguð laun fyrir. Launþegar hafa ákveðin réttindi á vinnumarkaðnum og stéttarfélögin gæta hagsmuna þeirra flestra.

Launaþrep

Launaþrep eru, eins og nafnið gefur til kynna, eins konar þrep innan launaflokkanna. Ýmist er farið eftir lífaldri eða starfsaldri þegar skipt er í launaþrep. Einstaklingur færist þannig upp um launaþrep eftir að hafa unnið í tilskilinn tíma eða náð ákveðnum aldri og fær þá hærri laun.

Lágmarkslaun

Lágmarkslaun á Íslandi eru ákveðin í kjarasamningum skv. lögum og allar greiðslur umfram þau eru ákveðin í ráðningarsamningum sem gerðir eru við hvern einstakan starfsmann. Ráðningarsamningur, sem kveður á um lægri laun eða önnur kjör en þau sem koma fram í kjarasamningum, er ólöglegur. Lágmarkslaun eru mismunandi eftir störfum. Lágmarkslaun fyrir fullt starf (starfsmenn 18 ára og eldri sem unnið hafa samfellt í 6 mánuði) eru 335.000 kr. á mánuði frá og með 1. apríl 2020 skv. Kjarasamningi Eflingar og SA.

Lífeyrissjóður

Skylda er að greiða 4% af launum í lífeyrissjóð og atvinnurekandi greiðir því sem nemur 8% af launum á móti. Þegar fólk fer á eftirlaun fær það svo greidd “laun” úr lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar renna í sameiginlegan sjóð, þær safnast ekki upp hjá einstaklingum. ATH. að viðbótarlífeyrissparnaður er bæði einkafjárfesting og val og kemur fram á launaseðli (2-4%). Fjölmargir lífeyrissjóðir eru til og sumir borga í nokkra um ævina.

Markaðslaun

Laun sem greidd eru fyrir ákveðnar stöður og hægt er að miða við. Fer ekki eftir einstaklingum heldur á almennt við um stöðuna sjálfa. Mörg stéttarfélög sjá um að gera markaðslaunakannanir og geta þá starfsmenn séð út frá því hvers virði starf þeirra er. Starfsfólk á rétt á launaviðtali við vinnuveitanda einu sinni ári til að fá skýrirngar á launum sínum og aðrar launakröfur. Markaðslaun taka ekki tillit til menntunar, reynslu, hæfni eða annarra þátta.

Meðmæli

Meðmæli eru nauðsynlegur hluti af ferilskránni (og hvers konar umsóknum). Í hinni hefðbundnu uppsetningu á ferilskrá eru meðmælendur tilgreindir í lokin. Algengast er að fá meðmæli frá fyrrverandi vinnuveitendum en einnig er hægt að leita til kennarara, leiðbeinenda eða samstarfsmanna. Mikilvægt er að meðmælendur þekki til þín og geti lýst þér vel.

Nettó

Að frádregnum kostnaði. Laun sem viðkomandi fær greitt þegar búið er að draga frá greiðslu í skatt og aðrar greiðslur. Nettó er útborgunin.

Orlof

Leyfi. Orlof er tími þar sem einstaklingur tekur sér frí frá vinnu eða námi til eigin hugðarefna, ferðalaga, hvíldar eða hvað sem hann kýs. Orlofsréttur felst í því að einstaklingur vinnur sér inn þennan tíma og á því rétt á launuðu fríi. Algengast er þó að einstaklingar nýti orlof í sumarfrí. Allt launafólk á Íslandi á rétt á minnst 24 daga orlofi á ári miðað við að viðkomandi vinni fullan vinnudag. Einnig er hægt að fá orlofið greitt inn á bankabók og greiðist það á ákveðinni dagsetningu stéttarfélaga (oftast í maí). Orlofsárið er 1. maí til 30. apríl, þ.e. réttur til orlofs og orlofslauna reiknast á þessu tímabili. Samkvæmt orlofslögum er orlofstímabilið, það er hvenær maður má taka fríið út, frá 2. maí til 15. september (í sumum kjarasamningum er ákvæði um 30. september). Fái starfsmaður ekki 20 daga sumarorlof skal hann fá álag, 25%, á það sem á vantar af 20 daga orlofi, til viðbótar við þá orlofsdaga sem hann tekur utan þess tímabils.

Orlofslaun eru reiknuð hvern mánuð fyrir sig. Orlofsstundirnar eru síðan lagðar saman fyrir allt árið og margfaldaðar með gildandi tímakaupi þegar orlof er tekið. Sem þýðir að orlofslaun eru verðtryggð.

Orlofssjóður

Sjóður innan stéttarfélaga sem ætlaður er til þess að auðvelda félagsfólki að njóta orlofs (frís) og hvíldar. Tekjur sjóðsins eru frá atvinnurekendum, leigutekjur af orlofshúsum og vextir. Sjóðurinn rekur orlofshús fyrir félagsfólk, veitir lán til að byggja orlofshús, styrkir orlofsferðir félagsfólks o.fl.

Ótímabundin ráðning

Þegar lokavinnudagur starfsmanns er ekki tilgreindur á ráðningarsamningi er talað um ótímabundna ráðningu. Fyrsti vinnudagur er þá skráður en ekki er ákveðið hversu lengi starfsmaður mun sinna tilteknu starfi. Sé ekki tekið fram á ráðningarsamningi að ráðning sé tímabundin er hún sjálfkrafa ótímabundin.

Persónuafsláttur

Persónuafsláttur er ákveðin upphæð sem fer upp í skattgreiðslu launþega. Skattkort veitir persónuafslátt. Árið 2020 er persónuafsláttur 54.628 kr. á mánuði og 655.538 kr. á ári. Sé persónuafsláttur ekki fullnýttur safnast hann upp og nýtist í síðari skattgreiðslur en fellur svo niður um hver áramót. Allir sem náð hafa 16 ára aldri á tekjuárinu og eru heimilisfastir á landinu eiga rétt á persónuafslætti.

Persónubundin laun

Við ákvörðun launa milli vinnuveitanda og starfsmanns skulu laun endurspegla vinnuframlag, hæfni, menntun og færni viðkomandi starfsmanns svo og innihald starfsins og þá ábyrgð sem starfinu fylgir. Stundum eru laun greidd eftir launaflokkum en oftast á það við að einstaklingur fái laun metið út frá reynslu færni og fyrrnefndum atriðum.

Ráðningarsamningur

Persónubundinn samningur milli starfsmanns og vinnuveitanda um að starfsmaðurinn sé ráðinn til starfa og hvaða kjör hann hlýtur. Vinnuveitandinn sér um að útbúa ráðningarsamninginn og þurfa báðir aðilar að skrifa undir. Í ráðningarsamningi á að koma fram nafn, kennitala og lögheimili starfsmanns og vinnuveitanda, starfsheiti og stutt lýsing á starfinu, ráðningartími (tímabundinn eða ótímabundinn), starfshlutfall, stéttarfélag, eftir hvaða kjarasamningi er farið, launaflokkur og önnur atriði. Þau atriði sem ekki koma fram á ráðningarsamningi koma fram í kjarasamningi viðeigandi stéttarfélags. Sé starfsmaður ráðinn í lengri tíma en mánuð og að meðaltali lengur en 8 klst. á viku, skal eigi síðar en tveim mánuðum eftir að starf hefst gerast skriflegur ráðningarsamningur eða ráðning staðfest skriflega.

Rauðir dagar

Rauðir dagar eru almennir frídagar. Í kjarasamningum stéttarfélaganna segir til um hvaða dagar það eru og hversu mikið borgað er fyrir vinnu á þeim dögum. Fyrir vinnu á rauðum dögum á alltaf að vera greitt meira en fyrir venjulega dagvinnu. Það er mismunandi eftir stéttarfélagi hvaða dagar eru taldir rauðir dagar. Oftast eru almennir rauðir dagar (ekki stórhátíðardagar)  skírdagur, laugardagur fyrir páska, annar í páskum, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu, frídagur verslunarmanna og annar í jólum. Oftast er greitt hefbundið yfirvinnukaup fyrir rauða daga (tímakaup sem nemur 0,8235% af mánaðarlaunum árið 2020). Í öllum tilvikum á launafólk ekki að verða fyrir tekjutapi sé lokað á þessum dögum. Að auki eru svokallaðir stórhátíðardagar, en þá er greitt stórhátíðarkaup.  Stórhátíðardagar eru nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, jóladagur og svo aðfangadagur og gamlársdagur frá hádegi.

Réttindi

Allir launþegar njóta ákveðinna réttinda sem kveðið er á um í bæði ráðningarsamningi viðkomandi og (aðallega) kjarasamningi tiltekins stéttarfélags. Kjarasamningar kveða á um lágmarkskjör og -réttindi og mega því kjör og réttindi starfsmanna ekki vera verri en þar segir, en mega þó vera betri. Skynsamlegt er að kynna sér sín réttindi hjá viðeigandi stéttarfélagi.

Reynslutími

Ákvæði starfsmannalaga gera ráð fyrir ákveðnum reynslutíma í upphafi starfs en þau kveða ekki á um hversu langur hann skuli vera. Oftast er þó miðað við 3 mánuði. Reynslutími hjá fyrirtæki þarf að vera ákveðinn í ráðningarsamning og/eða handbók stofnunarinnar. Sé hann ekki ákveðinn sérstaklega á ráðningarsamning telst reynslutíminn vera fyrstu 3 mánuðirnir. Eftir reynslutíma telst starfsmaður vera fastráðinn (uppsagnarfrestur á reynslutíma er 1 mánuður).

A.T.H! Það er ekki til launalaus reynslutími. Öll vinna er vinna og á að vera launuð! Reynslutími á að vera greiddur eins og um fastráðinn starfsmann væri um að ræða.

Séreignarsparnaður

Starfsmaður ræður hvort hann greiði hluta af launum í séreignarsparnað. Séreignarsparnaður er viðbótarframlag til lífeyrissparnaðar og í einkaeign. Starfsmaður getur greitt 4% af sínum launum en atvinnurekandi þarf þá að borga 2% mótframlag í einstakatilfellum getur sú prósenta verið 4%. Í raun má því líta á séreignarsparnað sem launahækkun fyrir framtíðina.

Sjóðir

Allir atvinnurekendur borga í viðeigandi stéttarfélög fyrir hvern starfsmann. Þessi peningur fer eftir kaupi launþega og er dregin prósenta af kaupinu sem atvinnurekandi borgar í hina ýmsu sjóði stéttarfélaganna. Það fer eftir sjóði hve stór hluti af kaupi launþega atvinnurekandi borgar. Allir launþegar geta svo sótt um styrki úr þessum sjóðum. Dæmi um sjóði: sjúkrasjóður, orlofssjóður, starfsmenntasjóður, lífeyrissjóður, starfsendurhæfingarsjóður, námssjóður o.fl.

Sjúkrasjóður

Stéttarfélög halda uppi margvíslegum sjóðum og þar á meðal sjúkrasjóði. Vinnuveitendur  eiga að greiða 1% af útborguðum launum starfsmanna í sjúkrasjóð viðeigandi stéttarfélags. Allir launþegar geta sótt um styrk í sjúkrasjóð hjá sínu stéttarfélagi vegna langra veikinda, veikinda maka eða barna, dánarbætur, örorkubætur, slysa o.fl. Er þó mismunandi eftir stéttarfélagi.

Sjúkratryggingar

Sjúkratryggðir einstaklingar greiða lægra gjald fyrir almenna heilbrigðisþjónustu og njóta margvíslegra annarra réttinda umfram þá sem eru ekki sjúkratryggðir. Atvinnurekanda er skylt að tryggja öryggi vinnustaðar og launafólks síns fyrir dauða, tímabundinni eða ótímabundinni örorku af völdum slyss á vinnustað eða á leiðinni til eða frá vinnu. Tryggingin gildir um slys sem verða við íþróttaiðkun, keppni og leiki sem eru á vegum atvinnurekanda eða starfsmannafélags og ætlast sé til þáttöku sem hluti af starfi starfsmanna hvort sem um hefbundinn vinnutíma er að ræða eða óhefbundinn.

Skattkort

Áður fyrr var það svo að þegar einstaklingur verður 16 ára á árinu fékk hann skattkort sent heim í ársbyrjun. Árið 2016 varð hins vegar breyting á því fyrirkomulagi og er notast við rafrænan persónuafslátt í dag. 

 • Kynntu þér rafrænan persónuafslátt í þessu myndbandi.

Skattprósenta

Skattprósenta segir til um hversu mikið er greitt í skatt af launum einstaklinga. Skattprósenta fer hækkandi eftir því sem einstaklingar þéna meira (hækka í launum) Í ársbyrjun 2020 eru þau eftirfarandi:

 1. 35,04% skattur er tekinn af launum sem eru minni en 336.916 krónur eða minna á mánuði.
 2. 37,19% skattur er tekinn af launum á bilinu 336.917 – 945.873 krónum.
 3. 46,24% skattur er tekinn af launum sem eru yfir 945.873 krónur.

Skattskylda

Allir launþegar eru skattskyldir. Að vera skattskyldur þýðir að vera skyldugur til að greiða skatt af laununum sínum. Skattur samanstendur af tekjuskatti sem rennur til ríkisins og útsvari sem rennur til þess sveitarfélags sem launamaður hefur lögheimili í. Saman heitir það staðgreiðsla á launaseðlinum.

Skattskylda skiptst í tvennt; takmarkaða skattskyldu og almenna skattskyldu (ótakmarkaða).

 1. Þeir sem bera takmarkaða skattskyldu eru þeir sem búa erlendis en fá tekjur frá Íslandi. Þar er tekið tillit til þeirra tekna sem viðkomandi aðilar kunna að afla sér annars staðar á sama tíma
 2. Á þeim sem bera almenna skattskyldu á Íslandi hvílir skylda til að greiða skatt af öllum tekjum sínum óháð hvar þeirra er aflað í heiminum og öllum eignum sínum óháð staðsetningu þeirra.

Sjá nánar um skattskyldu á vef Ríkisskattstjóra.

Skattur

Af öllum tekjum þarf að greiða skatt. það er gjald sem greiðist til ríkissjóðs eða sveitarfélaga. Skattar skiptast í 4 flokka:

 1. Virðisaukaskatt – Skattur sem leggst á innlend viðskipti og innfluttning á vörum.
 2. Auðlegðarskatt – Var lagður á allar eignir eftir gjöld (nettó) árin 2011 til og með 2014.
 3. Fjármagnstekjuskatt – Er skattur lagður á allar eignatekjur einstaklinga. það er vaxtatekjur, arð, söluhagnað og leigutekjur.
 4. Tekjuskatt og útsvar – Er lagður á allar tekjur fyrir utan þær sem þegar hafa verið skatt lagðar. Tekjuskattur rennur í ríkissjóð og útsvar til sveitarfélags

Skattþrep

Launafólk greiðir mismikið í skatt eftir því hversu mikið það þénar. Skattgreiðslur skiptast í 3 þrep eftir tekjum. Árið 2020 eru skattþrepin þessi:

 • 35,04% skattur er tekinn af launum sem eru minni en 336.916 krónur eða minna á mánuði.
 • 37,19% skattur er tekinn af launum á bilinu 336.917 – 945.873 krónum.
 • 46,24% skattur er tekinn af launum sem eru yfir 945.873 krónur.

Það þýðir ekki að þeir sem eru með hærri tekjur greiði hærri skatt af heildartekjum, heldur gengur skattheimtan í þrepum. Þannig er einungis rukkaður 46,24% skattur af þeim hluta tekna sem eru yfir 945.873 kr á mánuði.

Frekari upplýsingar um skattþrep má nálgast á heimasíðu Almenna lífeyrissjóðsins.

Skyldur

Hverju starfi fylgja ákveðnar skyldur en þær eru mismunandi eftir því hvaða starf á við. Þó eru ýmsar almennar skyldur sem gilda nánast alltaf eins og að mæta á réttum tíma, fara eftir fyrirmælum, sinna starfinu af metnaði o.fl.

Staðgreiðsla skatta

Staðgreiðsla skatta er heiti yfir samtölu tekjuskatts og útsvars á launaseðlinum.  Sem öllum launþegum ber að greiða  af launum sínum. Staðgreiðslugjald er opinbert gjald og mishátt eftir tekjum. Staðgreiðslugjöld samanstanda af tekjuskatti og útsvari, sem eru gjöld til ríkisins og viðeigandi sveitarfélags. Tekjuskattur og útsvar heitir saman á launaseðlinum staðgreiðsla -> ein upphæð.

Starfsendurhæfingarsjóður

Sjóður sem hægt er að sækja um styrk í hjá stéttarfélagi til starfsendurhæfingar. Starfsendurhæfing nýtist þeim sem eru að snúa aftur til vinnu eftir veikindi eða slys. Stéttarfélög bjóða upp á ráðgjöf til aðstoðar við að sækja um styrk í starfsendurhæfingarsjóði.

Starfslýsing

Í ráðningarsamning á að vera starfsheiti ásamt starfslýsingu sem segir til um hvaða skyldum starfsmaður sem sinnir tilteknu starfi á að gegna og hvað starfið felur í sér.

Starfsmenntasjóður

Sjóður sem hægt er að sækja um styrk í hjá stéttarfélagi til starfsmenntunar. Starfsmenntun felur í sér menntun til tiltekins starfs. Atvinnurekendur greiða hlutfall af launum félagsmanna í starfsmenntasjóð.

Stéttarfélag / Verkalýðsfélag

Félagsskapur sem einhver þjóðfélagsstétt eða fólk í einhverri starfsgrein hefur með sér til að gæta hagsmuna sinna gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Stéttarfélög semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum og bjóða einnig upp á ýmis fríðindi fyrir félagsmenn sína.

Í stéttarfélög er hægt að sækja um styrk fyrir nám, vegna veikinda og starfsendurhæfingu ásamt fleiri styrkjum. Einnig bjóða stéttarfélög upp á ýmis námskeið og útleigu orlofshúsa. Stéttarfélög eru fjölmörg á Íslandi og skiptast eftir starfsgreinum og landssvæðum. Stéttarfélög veita ráðgjöf fyrir félagsmenn sína um réttindi þeirra og fleira og aðstoða ef ágreiningur kemur upp og í stéttarfélagi er aðgangur að lögmönnum. Þegar skrifað er undir ráðningarsamning á að standa þar hvaða stéttarfélagi tiltekið starf tilheyrir. Allir launþegar borga í stéttarfélag og atvinnurekendur borga á móti þeim ásamt því að borga í ýmsa sjóði stéttarfélagsins sem launþegar geta sótt um styrki í. Starfsmenn eru í raun að greiða fyrir að fá að vinna eftir kjarasamningi félagsins sem kveður á um lágmarkskjör.

Sjá nánar

Stöðuhækkun

Þegar starfsmaður er hækkaður um stöðu/tign vegna velgengni í sínu starfi og fær þar af leiðandi hærra kaup. Við tekur ný starfslýsing og nýjar skyldur.

Stofn til staðgreiðslu

Stofn til staðgreiðslu er sú upphæð sem reiknuð er skattprósenta af. Stofn til staðgreiðslu fæst eftir að búið er að draga greiðslu í lífeyrissjóð frá upphaflegum mánaðarlaunum. Stofn til staðgreiðslu segir til um hvaða skattþrepi einstaklingur tilheyrir og þar af leiðandi hve mikið hann borgar í skatt.

Stórhátíðardagar / stóhátíðarkaup

Ákveðnir hátíðardagar eru taldir sem stórhátíðardagar og fer það eftir stéttarfélagi hvaða dagar það eru. Meginreglan er þó að stórhátíðardagar eru: nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, jóladagur og svo eftir hádegi á aðfanga- og gamlársdag. Sá dagur sem í sumum tilvikum telst líka til stórhátíðar í framangreindu samhengi er 1. maí. Stórhátíðardagar eru frídagar en sé starfsmaður kallaður til vinnu skal greiðast svokallað stórhátíðarkaup. Aðrir frídagar eru kallaðir “rauðir dagar”. Í öllum tilvikum á launafólk ekki að verða fyrir tekjutapi sé lokað á þessum dögum.

Svört vinna

Svört vinna er ólögleg. Svört vinna er þegar tekjum(peningum) er aflað með vinnu án þess að af þeim sé borgaður skattur. Svartri vinnu fylgja ekki þau réttindi sem ella myndu fylgja, að auki  eru skattar mikilvægir til að halda samfélaginu gangandi. Þetta getur valdið starfsfólki og samfélaginu miklu tjóni.

Taxtar

Fastákveðin greiðsla/laun. Launataxtar/kauptaxtar. Flokkast í þrep og eru mismunandi eftir störfum, starfsaldri, lífaldri og stéttarfélagi. Segir til um lágmarkslaun sem ekki mega vera lægri en mega þó vera hærri.

Tekjur

Verðmæti sem koma í hlut einhvers. Laun eru tekjur, -hversu mikið þú þénar.

Tekjuskattur

Sá hluti skatts sem rennur til ríkisins. Miðaður við tekjur einstaklings/fyrirtækis.

Tímabundin ráðning

Ráðning getur verið tímabundin en þá er átt við að ákveðið er hvenær starfi viðkomandi lýkur. Þá er skráður lokavinnudagur starfsmanns og þarf ekki að segja honum upp heldur lýkur ráðningu á tilteknum degi. Ef ráðning er tímabundin skal það ávalt koma fram í ráðingarsamning. Ef ekkert kemur fram um að ráðinging sé tímabundin verður hún sjálfkrafa ótímabundin.

Tímakaup

Er sú fjárhæð sem þú færð greidd fyrir hverja klukkustund í vinnu. Lágmarks tímakaup er mismundandi eftir kjarasamningum og reiknast út frá mánaðarlaunum.

Trúnaðarmaður

Á öllum vinnustöðum með fleiri en 5 starfsmenn innanborðs á að vera starfandi trúnaðarmaður. Trúnaðarmaður er í raun fulltrúi starfsmanna og stéttarfélagsins gagnvart atvinnurekanda. Trúnaðarmaður sér til þess að upplýsa starfsmenn, kjósi þeir svo, um reglur og réttindi sem gilda um þeirra starf og ber að leita til þeirra ef talið er að atvinnurekandi virði ekki kjarasamninga. Trúnaðarmaður er valinn af starfsmönnum tiltekins vinnustaðar.

Umsóknarbréf/Starfsumsókn

Gott getur verið að láta umsóknarbréf fylgja atvinnuumsókn ásamt ferilskrá. Í því bréfi eiga að koma fram nánari upplýsingar tengdar því starfi sem sótt er um eins og t.d. af hverju þú hentar í tiltekið starf og af hverju þú hefur áhuga á starfinu. Umsóknarbréf er viðbót við ferilskrá og því ber að varast endurtekningar.

Uppsagnarfrestur

Uppsagnarfrestur fer eftir starfshlutfalli, starfsaldri, stéttarfélagi og stundum lífaldri. Mismundandi frestur er gefinn eftir þann tíma sem unnið hefur verið og eru þeir eftirfarandi.

 • Á fyrstu þremur mánuðum í starfi (reynslutími), 1 vika.
 • Á fjórða til sjötta mánuði í starfi, 1 mánuður, uppsögn skal vera um mánaðarmót.
 • Eftir sex mánaða starf, 3 mánuðir, uppsögn skal vera um mánaðarmót.

Skyldugt er að vinna í uppsagnarfrestinum, óski vinnuveitandinn þess. Þá vinnst upp veikindaréttur og orlofsréttur.

Uppsögn

Það að segja einhverjum upp. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur. Allar uppsagnir skulu vera skriflegar á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfsmanns. Starfsmaður á rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar. Uppsögn miðast við mánaðamót.

Útkall

Þegar starfsmaður er kallaður/boðaður til vinnu sem er ekki í beinu framhaldi af daglegri vinnu hans. Þá þarf að greiða yfirvinnukaup í a.m.k. 4 klst., nema að reglulegur vinnutími hans hefjist innan tveggja klst.

Útsvar

Sá hluti tekjuskatts sem rennur til sveitarfélaga. Ákveðið af sveitastjórn. Útsvar greiðist í það sveitarfélag þar sem lögheimili er skráð 31. desember á tekjuárinu. Á launaseðlinum heitir þetta staðgreiðsla. Sbr. tekjuskattur (skattur til ríkisins). Sveitarfélög ákveða sjálf hvert hlutfallið á að vera innan þess ramma.  

Vaktavinna

Vaktavinnumenn teljast þeir sem hafa vinnuskyldu sem skipt er niður samkvæmt fyrir fram ákveðnu fyrirkomulagi. Starfsmaður vinnur þá á mismunandi vöktum á tilteknu tímabili, sem mælt er í dögum eða vikum, þannig að vikulegir frídagar þess flytjast til, jafnvel þótt daglegur vinnutími þess sé alltaf hinn sami.

Þeir sem vinna á reglubundnum vöktum eiga að fá álag fyrir unnin störf á þeim tíma sem fellur utan venjulegs dagvinnutímabils.

Veikindadagar

Allir launþegar öðlast rétt til launaðra veikindadaga eftir að hafa unnið hjá fyrirtæki í 1 mánuð. veikingadögum fjölgar eftir því sem starfsmaður vinnur lengur hjá sama atvinnurekanda.

 • 2 dagar fyrir unninn mánuð á fyrsta ári
 • 2 mánuðir eftir ár
 • 4 mánuðir eftir 5 ár
 • 6 mánuðir eftir 10 ár

Ef starfsmaður er í hlutastarfi vinnur hann sér inn rétt til veikindadaga í hlutfalli við unnar stundir. Þannig tekur það starfsmann í 50% starfi tvo mánuði að vinna sér inn réttinn.

Verktaki

Sá sem tekur að sér að vinna tiltekið verk og skila því í ákveðnu formi verkkaupa/verksala. Nýtur ekki sömu réttinda og fríðinda og venjulegt launafólk. Verktaki þarf að sjá um eigin launa- og skattamál og því fylgir mikil ábyrgð. Dæmi um fríðindi sem verktakar fá ekki: sumarfrí, orlof, desemberuppbót og greiddir veikindadagar. Verktakasamningur er í raun samningur milli tveggja atvinnurekenda.

Vikulegur frídagur

Samkvæmt vinnutímasamningi ASÍ og aðila vinnumarkaðarins eiga starfsmenn rétt á einum frídegi á hverju sjö daga tímabili og skal sá frídagur vera að öllu jöfnu á sunnudögum. Ef frídagur lendir hins vegar á virkum degi skerðir það ekki rétt launþegans til fastra daglauna og vaktaálags.

Vinnuhlutfall

Vinnuhlutfall segir til um gildi tiltekins starfs og er samið um í upphafi þess. Vinnuhlutfall er gefið í prósentum á ráðningarsamningi og segir til um hvort um er að ræða fullt starf eða hlutastarf.

Vinnuskylda

Skylda er að inna af hendi tiltekna vinnu. Þegar hafin eru störf þá er skrifað undir ráðningarsamning og þar með er starfsmaður skuldbundinn og er skyldugur að mæta til vinnu og sinna henni til fulls.

Vinnutími

Vinnutími fer eftir starfshlutfalli og er miðað við fjölda klukkutíma á viku. Í upphafi starfs er skrifað undir ráðningarsamning og á þar að koma fram starfshlutfall viðkomandi starfs og þar af leiðandi vinnutími. Vinnutími skiptist í dagvinnu, yfirvinnu, bakvaktir og vaktavinnu. Með vinnu fylgir vinnuskylda þá vinnutíma sem samið er um en þó ber að hafa í huga hvíldartíma, matar- og kaffihlé, veikindadaga, frídaga o.fl.

Yfirvinna

Sú vinna sem fer fram utan tiltekins daglegs vinnutíma eða vinnutöku starfsmanns og einnig vinna sem innt er af hendi umfram vikulega vinnuskyldu, þótt á dagvinnutímabili sé. Einnig telst öll vinna um helgar, á sérstökum frídögum og stórhátíðardögum til yfirvinnu. Ef miðað er við sólarhringinn telst vinna frá 17:00 – 08:00 til yfirvinnu. Ef unnið er í matar- og kaffitíma eru greidd yfirvinnulaun. Yfirvinna er greidd í formi tímakaups og er hærri upphæð en dagvinna.  

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar