Undirbúningur fyrir atvinnuviðtal

0
6873

 

Hvernig er hægt að undirbúa sig fyrir atvinnuviðtal?

Mikilvægt er að mæta vel undirbúinn í atvinnuviðtal. Þetta er hægt að gera með að undirbúa svör við algengum spurningum, gæta þess að koma vel fyrir, afla sér upplýsinga um fyrirtækið sem sótt er um hjá og gæta þess að gera ekki algeng mistök.

Þegar mætt er í viðtalið

Það hefur sýnt sig að fólk er oft fljótt að dæma aðra. Stundum er sagt að fyrstu 20 sekúndurnar í atvinnuviðtalinu séu þær mikilvægustu. Því er nauðsynlegt að koma vel fyrir. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

  • Að mæta tímanlega. Það er alls ekki sniðugt að koma seint – en ekki alltof snemma heldur. Best er að sjá til þess að mæta á settum tíma.
  • Að vera snyrtilegur til fara. Óþarfi er að vera uppstrílaður, en það er góð regla að vera í viðeigandi og snyrtilegum klæðnaði sem manni líður vel í.
  • Betra er að bíða með tyggjóið eða sígarettuna þar til eftir viðtalið.
  • Mikilvægt er að vanda framkomu sína, vera beinn í baki, halda augnsambandi við viðmælandann og forðast öll vandræðalegheit.
  • Handabandið skiptir máli. Engum finnst þægilegt að taka í lafandi hönd. Hraustlegt og gott handaband getur gert gæfumun.
  • Ef þú lendir í því að hika eða stama ekki hugsa um það, það er eðlilegt.
  • Muna að slökkva á farsímanum!

Hvaða spurningum getur fólk átt von á?

Atvinnuviðtöl eru alls ekki stöðluð – og atvinnuveitendur beita ólíkum aðferðum til að ræða við og meta tilvonandi starfsmenn sína. Þó eru ákveðnir hlutir sem fólk er nær undantekningalaust spurt út í. Hér að neðan má glöggva sig á þeim.

Hver er þekking þín og reynsla?

Oft er spurt um afmörkuð svið, en það fer eftir starfinu: Þetta gæti snúist um vélavinnu-, tölvu- eða tungumálakunnáttu, reynslu af því að starfa með fólki, með börnum eða öldruðum. Stundum er fólk beðið um að gefa dæmi þar sem það hefur þurft að nota þekkingu sína eða segja frá því hvernig það aflaði sér ákveðinnar reynslu. Einnig getur verið spurt út í þekkingu á samfélagsmálum og hversu vel fólk er inni í fréttum líðandi stundar.

Hverjir eru helstu kostir þínir og styrkleikar?

Sé maður spurður almennra spurninga á borð við þessa, er gott að ímynda sér hverju viðkomandi vinnuveitandi gæti verið að leita eftir. Ef um er að ræða útivinnu gæti verið gott að nefna að maður hafi gaman af að vera úti og líði vel í öllum veðrum. Ef sótt er um starf á leikskóla gæti verið vert að nefna að maður hafi í gegnum tíðina eytt miklum tíma í að passa frændsystkinin og sé barngóður. Stundum er líka bara verið að fiska eftir hvaða manngerð maður hafi að geyma; hvort maður búi yfir þolinmæði, útsjónarsemi, metnaði, fróðleiksfýsn og fleiru í þeim dúr. Hafa skal í huga hvað vinnuveitandanum gætu þótt eftirsóknarverðir kostir í hverju tilviki. Eins getur fólk verið beðið að nefna dæmi þar sem kostir og styrkleikar hafa nýst í starfi. Ágætt er að hafa nokkur slík dæmi undirbúin.
Vinnuveitandinn vill líka ráða góðar og skemmtilegar manneskjur, ekki bara fólk með flotta ferilskrá. Því getur verið mikilvægt að taka fram hvers vegna það sé gott að vinna með manni: hvort maður eigi gott með að vinna í hóp, eða hvort maður vinni vel sjálfstætt og taki frumkvæði. Þessa hluti þarf fólk líka að geta rökstutt með dæmum.

Hverjir eru þínir helstu veikleikar?

Þessari spurningu getur verið erfitt að svara. Ekki er gott að telja upp óvinsæla veikleika á borð við það að eiga erfitt með að vakna. Sé svo, er sennilega betra að þegja yfir því og vinna að því að laga það. Hinsvegar þarf maður að vera viðbúinn þessari spurningu og ígrunda svarið vel fyrirfram. Það þarf að selja vinnuveitandanum þá hugmynd að maður sé einmitt rétti aðilinn og veikleikar manns muni ekki hafa áhrif á starfsgetu.

Hvað með launin?

Séu launin ekki auglýst í atvinnuauglýsingu má gera ráð fyrir að vinnuveitandi vilji fá hugmynd um hvaða launakröfur umsækjandinn hefur. Því er mikilvægt að hafa einhverjar hugmyndir um slíkt áður en maður mætir í viðtalið. Til að reikna slíkt út þarf að taka tillit til ýmissa þátta, s.s. aldurs, starfsreynslu og menntunar. Sniðugt getur verið að skoða kjarasamninga þeirra stétta sem vinna svipaða vinnu og sótt er um – og auðvitað að taka „launaþrep“ þeirra samninga inn í dæmið. Einnig getur verið snjallræði að hafa samband við stéttarfélag og óska eftir ráðgjöf um þessi mál.

Ef maður er í fyrsta atvinnuviðtali skal maður aldrei ræða laun að fyrra bragði. Laun ætti aldrei að ræða fyrr en búið er að bjóða manni stöðuna.

Aðrar spurningar

Því betur sem umsækjandinn er undirbúinn, því meiri líkur eru á að atvinnuviðtalið gangi vel. Vinnuveitendur spyrja t.a.m. oft um persónulega hagi, frístundir, áhugamál og ferðalög. Þeir geta spurt út í fyrri störf og fyrri vinnuveitendur. Þá er mikilvægt er að vera ekki neikvæður í þeim málum heldur ræða hvað maður lærði af reynslunni. Ef spurt er út í atvinnuleysi er gott að tína til það jákvæða: að maður sé að leita sér að rétta starfinu, hafi mögulega lært eitthvað eða gert eitthvað uppbyggilegt á þeim tíma sem maður var atvinnulaus. Einnig getur verið sniðugt að undirbúa sig fyrir spurningar eins og hvað maður geti fært fyrirtækinu sem starfsmaður, hvar maður sjái sig eftir ár og hvers vegna maður vilji fá þetta starf.

Að afla sér upplýsinga og spyrja spurninga sjálfur

Manneskja sem eingöngu svarar spurningum, án þess að koma með spurningar á móti, virðist hvorki örugg með sig né áhugaverð í samstarfi. Nauðsynlegt er að geta sjálfur komið með spurningar í viðtalinu. Ef fólk aflar sér upplýsinga um starfið og fyrirtækið sýnir það líka að maður hafi þekkingu og áhuga á starfsemi fyrirtækisins. Margar spurningar koma til greina, til að mynda hvað varðar stefnu, þróun og markmið innan fyrirtækisins. Einnig hvort starfið sé nýtt, eða hvort einhver hafi gengt stöðunni hingað til. Hvaða kostum fyrirtækið sækist einna helst eftir hjá starfsfólki sínu. Hver séu markmið tiltekinnar deildar og hvað sé á döfinni næsta árið. Hver er starfslýsingin og hvað felst í starfinu nákvæmlega?

Hvað eru margir píanó-stillingarmenn í Reykjavík?

Sumir vinnuveitendur eiga það til að spyrja undarlegra spurninga sem virðast út í hött eða alls ótengdar starfinu sem sótt er um. Best er að láta láta slíkt ekki slá sig út af laginu. Þetta er stundum gert til að sjá hvort fólk sé úrræðagott og frumlegt í hugsun, og til að kanna viðbrögð þess og rökhugsun. Hvort sem það er í spurningum sem þessum eða bara viðtalinu sjálfu er góð regla að halda ávallt ró sinni. Ef sá sem tekur viðtalið slær á létta strengi er ekkert að því að gera slíkt hið sama. Sé fólk spurt spurninga eins og þessarar væri t.a.m. hægt að svara: Ég veit það ekki. En hvað þarf marga Hafnfirðinga til að skipta um ljósaperu?

Eftirfylgni

Gott getur verið að minna á sig 1 til 2 dögum eftir viðtalið. Þetta er t.d. hægt að gera með því að senda stuttan tölvupóst, þakka fyrir viðtalið og ef til vill minnast á eitthvað sem gleymdist eða er fólki mikilvægt. Þó skal gæta þess að vera ekki of ýtinn. Auk þess skal ekki gera ráð fyrir því að þessu bréfi sé svarað – það er eingöngu sent til að undirstrika áhuga fólks á starfinu.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar