Heim Samfélagið Tilvistin Nokkrir hlutir sem mamma sagði mér ekki áður en ég flutti að...

Nokkrir hlutir sem mamma sagði mér ekki áður en ég flutti að heiman

0
792

 

Mæður okkar og feður hafa kennt okkur ýmislegt gagnlegt í gegnum ævina. Þau kenndu okkur að nota koppa, skeina okkur nokkrum árum síðar, borða mat með hnífapörum, hjóla, blóta, borða brauð yfir vaskinum svo mylsna fari ekki á gólfið, búa til snjókarl, dæla bensíni, þvo þvott, reima skóna . . . Mörg okkar voru meira að segja svo „heppin“ að fá að heyra hvernig börnin verða til frá þessum elskum (og við allra heppnustu fengu óvart sýniskennslu einhverja vetrarnóttina ‘98 þegar við ætluðum að skríða upp í til þeirra). En suma hluti höfum við þurft að læra sjálf. Og sá lærdómur hefur stundum reynst okkur dýrkeyptur. Það voru ótal hlutir sem mamma sagði mér ekki þegar ég flutti að heiman.

„Elskan mín. Þú hefur sennilega ekki efni á draumaíbúðinni.“

Að öllum líkindum höfum við ekki efni á draumaíbúðinni svona fyrst um sinn; nema hún sé staðsett í kjallara í Norðurmýrinni og sturtan sé inn í þvottahúsi. Ég hafði látið mig dreyma um litla íbúð með bogadregnum gluggum, svefnherbergið undir súð og hringstigi í því miðju (svona svolítið eins og í vita). Leiga er nefnilega djöfulli dýr – og virðist stöðugt hækka. Takk fyrir að segja mér þetta ekki, mamma.

„Ástarpungurinn minn, maður skeinir sér ekki með Lambi á námslánum.“

Ein helst ástæðan fyrir því að ég sagði samvistum slitið við móður mína var Bónus-klósettpappírinn. Þessi grái, harði. Mig dreymdi blauta dagdrauma um dúnmjúkan Lambi-pappír sem er eins og skýjahnoðri á rasskinnunum. Eftir að hafa búið að heiman í mánuð var klósettpappírs-kostnaðurinn rokinn upp úr öllu valdi og ég neyddist til að kaupa þennan gráa, harða.

„Það er ekkert til sem heitir ódýrt kjöt, gæskurinn.“

Ég kenndi eldamennsku minni lengi um það hversu seigt kjötið varð allaf hjá mér. Mér til mikillar skelfingar komst ég þó að því að því mýkra sem kjötið er, því dýrara er það. Þar sem ég hafði ekki efni á dýrum steikum og lúxusfóðri, fann ég leiðir til að matreiða þessa bónus-bita svo þeir yrðu að minnsta kosti ætilegir – en það er nú saga útaf fyrir sig. Lærdómurinn er þessi: maturinn eldar sig ekki sjálfur og bara það eitt að borða getur kostað jafn mikið og að leigja. Tölum nú ekki um verðið á salati!

„Ljúfurinn, hörmungarnar eru alltaf handan við hornið.“

Þessi mistök gerði ég ítrekað og lærði aldrei af þeim: að vera ekki viðbúinn fjárhagslegu áfalli. Fyrst var það fartölvan sem gaf sig. Ég þurfti bráðnauðsynlega að eiga fartölvu svo ég pungaði út fyrir henni og lifði öreigalífi í fimm mánuði. Því næst fékk ég tannpínu. Heimsóknin til tannsa kostaði nokkur tug-þúsund krónur. Og svo voru það skólagjöldin. Og skólabækurnar. Og svo endaði ég óvart á skralli með vini mínum einn fimmtudaginn og þegar ég fór í heimabankann daginn eftir sá ég að staðan hafði minnkað um 15.000 krónur. Nú veit ég að það er víst til lögmál (nefnt eftir Murphy nokkrum) sem útskýrir þetta mál: Ef eitthvað getur farið illa, þá mun það fara illa.

„Fríið er aldrei frítt, snúður.“

Nei, og það kostar mann nýra í þokkabót! Ef maður eins og vogar sér til Kaupmannahafnar sér maður fram á að þurfa að taka tvö hlutastörf með skólanum, neita sér um kaffi, klippa bónus-pappírinn í tvennt og lifa alfarið á núðlum. Og svo leggst tekjuskerðing ofan á þetta allt saman þessa fáeinu daga sem maður reynir að slaka á. Djöfull er dýrt að vera til!

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

ENGAR ATHUGASEMDIR