Um þriðjungi af framleiddum mat er sóað í heiminum. Árlega er 3,5 milljónum tonna af mat sóað á Norðurlöndunum. Matarsóun þýðir að matur fer til spillis og við sóum bæði fjármunum og auðlindum jarðar. Matarsóun er því gríðarlegt vandamál sem nauðsynlegt er að taka á.
Hér er 14 mínútna fyrirlestur um hversu alvarlegt vandamál matarsóun er í nútímasamfélögum.
Hvers vegna ætti ég að minnka matarsóun?
- Það hefur góð áhrif á umhverfið!
- Þú sparar peninga, það kostar minna að kaupa minni óþarfa!
- Það hvetur til frumkvæðis í eldhúsinu! Þú lærir hugsanlega að elda einhverja snilld úr matarafgöngum.
Hvernig fer ég að?
Til eru ýmsar leiðir til þess að minnka matarsóun á heimilinu. Prófaðu eitthvað af eftirfarandi 11 ráðum:
- Skipuleggðu heimilisinnkaupin vel, búðu til lista yfir það sem þarf áður en þú leggur af stað í búðina, þannig kemur þú í veg fyrir að kaupa óþarfa. Hugaðu einnig að magninu, oft er ódýrara að taka stærri pakkningu – en mun það nýtast þér? Hvað skemmist oftast í ísskápnum?
- Notaðu frystinn, hann er frábær leið til þess að nýta matinn betur. Það má oft frysta afganga og bjarga þannig afgöngum og mat sem er við að skemmast.
- Er varan komin yfir dagsetningu? Ef það stendur „síðasti notkunardagur“ þá á að henda matnum en ef það stendur „best fyrir“ þá er nefið þinn besti vinur! Ef lyktin og bragðið er í lagi, þá er allt í góðu að borða vöruna.
- Skipuleggðu ísskápinn! Raðaðu því elsta efst svo það gleymist ekki. Reyndu líka að raða hlutum annig að allt sjáist vel.
- Stilltu ísskápinn rétt! Ef hitastig ísskápsins er of hátt getur geymslutími matvæla styst töluvert.
- Farðu í afgangaátak! Þegar skáparnir fyllast af þurrefnum og frystirinn líka, þá er sniðugt að takmarka innkaup í ákveðinn tíma og elda sem mest með því sem til er. Skipuleggðu næstu viku með það í huga að nýta það sem þú átt.
- Hvert fara afgangarnir þínir? Í gráu tunnuna. Ef það er ekki lífræn tunna á heimilinu getur verið ráðlagt að vera með moltu í garðinum ef þú hefur kost á því. Þá eru einnig til lausnir fyrir fólk í fjölbýlishúsum og hægt að vera með moltu á svölunum.
- Merktu við hvenær þú opnar vöruna! Það hjálpar þér að fylgjast með hversu lengi hún hefur verið opin. Með tímanum lærir þú inn á hversu lengi varan helst fersk.
- Ýmsar matvörubúðir bjóða upp á matvæli á afslætti þegar þær eiga stutt eftir. Það er um að gera að nýta sér það!
- Kauptu ljóta grænmetið! Það virðist nefnilega vera að sumir velji sér fallegasta grænmetið fremur en það ljóta, þrátt fyrir að það bragðist jafnvel alveg eins. Með því að velja ljóta grænmetið fram yfir það fallega, þá er ólíklegra að það endi í ruslinu. Stundum er það meira að segja ódýrara.
- Gefðu mat sem þú ætlar ekki að borða. Keyptiru eitthvað sem þú vilt ekki borða? Ertu á leiðinni í ferðalag og með fullan ísskáp af mat? Gefðu matinn þinn! Hin ýmsu góðgerðarsamtök myndu taka við honum með glöðu geði.
En eru til einhver viðmið um geymsluþol matvæla?
Já! Ánægjulegt að þú nefndir það. Við hjá Áttavitanum höfum einmitt skrifað grein um geymslutíma grænmetis. Varðandi geymsluþol dýraafurða þá bendum við á þetta skjal frá bandarísku lyfja- og matvælastofnuninni. Svo má finna ýmislegt um meðhöndlun matvæla hér.
Heimildir:
Reynsla höfundar
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?