Ruslfrír lífstíll (Zero Waste) snýst um að endurnýta allar vörur. Ef að allur heimurinn væri ruslfrír, þá færi aldrei neitt á urðunarstaði eða í brennslu. Fólk sem stundar lífstílinn reynir eftir bestu getu að nota allt til fullnustu, eins vel og völ er á og kaupa ekki einnota vörur.

Þá er einnig reynt að velja þær vörur sem hægt er að endurnýta. Fyrirtæki sem aðhyllast ruslfrían lífstíl reyna að stunda ábyrga framleiðslu á vörum sem má endurvinna og endurnýta.

Megintilgangurinn með ruslfríum lífstíl er að varðveita náttúruna.


Er ekki nóg að endurvinna?

Það er alltaf betra að endurvinna heldur en að sleppa því alfarið. Þó er gott að vera meðvitaður um að ekki er allt endurunnið, þrátt fyrir að fara í endurvinnslutunnuna. Það er t.d. ekki hægt að endurvinna allt plast.

Stærstur hluti af því sem við hendum í sorptunnuna er eldhúsúrgangur og umbúðir af ýmsu tagi. Besta leiðin til þess að draga úr umhverfisáhrifum úrgangs er að búa til minna rusl.

Hvernig verð ég ruslfrí/r?

Erfitt er að verða ruslfrír á einu kvöldi og fæstir sem aðhyllast lífstílinn ná því að vera alfarið ruslfrí. Þó má alltaf taka jákvæð skref í átt að minna rusli, hér eru nokkur ráð:

  • Afþakkaðu einnota hluti, t.d. plastflöskur/poka/hnífapör, ruslpóst, kvittanir, penna og ýmsar prufur,
  • Farðu í gegnum dótið þitt! Losaðu þig við það sem er óþarfi og hugaðu að leiðum til þess að skipta því sem þú kaupir út fyrir eitthvað umhverfisvænna,
  • Nýttu vel þá hluti sem þú átt. Keyptu þér föt sem þú sérð fyrir þér að nýta lengi, finndu nýjar notkunarleiðir fyrir það sem þú notar ekki lengur; það má til dæmis nýta efni áfram á ýmsa vegu!
  • Fáðu þér fjölnota bökunarpappír og fjölnota pakkningar til að setja yfir skálar og ávexti í ísskápnum,
  • Keyptu vörur umbúðarlaust ef það er hægt,
  • Búðu þér til eða keyptu fjölnota dósapoka! Það er vel hægt að gera svoleiðis sjálfur með gömlu sængurveri eða laki,
  • Keyptu notað ef það er mögulegt. Þannig lengjum við líftíma þeirra vara sem til eru,
  • Seldu eða gefðu þá hluti sem þú vilt losa þig við.

Mundu að þú þarft ekki að endurnýja og kaupa allt nýtt. Jafnvel þó það sé flott að eiga málmnestisbox, stykkjasápur eða bambustannbursta, þá snýst þetta líka um að nýta það sem þú átt núna eins vel og þú getur. Þegar þar að kemur getur þú síðan endurnýjað hlutina þína með umhverfisvænni kosti.

Daglegt líf

Það eru ýmsar venjur sem hægt er að temja sér í daglegu lífi til að komast nær ruslfríum lífstíl. Þetta segir sig oft dálítið sjálft en oft er gott að rifja aðeins upp.

  • Taktu fjölnota poka með þér; hvert sem þú ferð!
  • Ef þú ert að fara út að borða, taktu með þér nestisbox; ef það verða afgangar, þá þarft þú ekki að fá einnota box til að taka með þér,
  • Drekkuru mikið vatn? Vertu með vatnsbrúsa á þér! Þannig sleppuru við það að þurfa að kaupa vatn í plasti, Sama má segja um kaffibollann,
  • Talandi um kaffi! Ef þú hellir oft uppá, þá máttu vita að það eru margar leiðir til þess að gera það alveg umbúðarlaust,
  • Verðuru lengi að heiman? Oft er gott að geyma hnífapör og þvottapoka í töskunni,
  • Ferðu á túr? Notaðu álfabikar, tíðarnærbuxur eða fjölnota dömubindi,
  • Áttu barn? Fjölnota taubleyjur eru auðveldari í notkun en þú heldur!

Viltu láta gott af þér leiða?

Það sem nefnt hefur verið hér fyrir ofan eru helst leiðir fyrir einstaklinga og fjölskyldur til þess að taka sig á og henda minna rusli. Langi þig að vinna meira að þessum málaflokki má benda á Facebook hópinn Ruslfrír lífsstíll. Langi þig að starfa með öflugum félagasamtökum ungs fólks í umhverfismálum, ætttir þú að kíkja á starfsemi Ungra Umhverfissinna.

Á Áttavitanum má finna hagnýt ráð um Aktívisma.

Heimildir

Ýmis ráð um lífstílinn – Minnasorp.com

Íslenskur hópur um ruslfrían lífstíl á Facebook.

Flokkið! Skilið? – Útgefið efni Sorpu

Byrjunarskrefin í átt að ruslfríum lífsttíl – Trash is for tossers

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar