Hver kannast ekki við að þegar tekjurnar fara að hækka þá verður smekkurinn dýrari? Þegar man byrjar að þéna meira er mjög algengt að eyðslan aukist og er það kallað lífsstílsverðbólga. Það er enginn óhultur og eigum við oft erfitt með að átta okkur á að við höfum fallið í þessa gryfju eða þar til peningurinn er allt í einu búinn og við skiljum ekkert afhverju. Ég sem fékk svo góð laun.
Gott dæmi um lífsstílsverðbólgu eru umskiptin frá því að vera námsmaður yfir í að vera í fullu starfi. Þú náðir einhvern veginn að lifa af með lítinn pening milli handanna meðan þú varst í námi en þegar fyrsti launaseðillinn birtist eftir að þú mætir á vinnumarkaðinn geta hlutir sem þér þótti einu sinni vera þvílíkur lúxus orðið að nauðsyn fyrir þig. Þetta leiðir að sjálfsögðu til aukinna útgjalda.
Lífsstílsverðbólga getur haft þau áhrif að þú lifir aðeins einn mánuð í einu, þ.e.a.s. frá einum launaseðli til næsta þar sem eyðslan getur farið úr böndunum. Nýr bíll = hærri afborgun, stærra húsnæði = hærri fasteignagjöld og húsnæðislán o.s.frv.
Hvernig á að koma í veg fyrir lífsstílsverðbólgu?
Hvað getum við gert til að forðast þessa áhugaverðu verðbólgu og afhverju finnst okkur við þurfa að lifa dýrari lífsstíl með hækkandi tekjum? Kannski að því að við getum það loksins en það þarf þó að gæta hófsemis.
Hér er nokkur ráð til að sporna við lífsstílsverðbólgu.
Vertu meðvitað/ur/uð um eyðsluna
Lífsstílsverðbólga getur læðst aftan að þér. Hún byrjar oft rólega en eykst svo með tímanum. Þegar þú ákveður að bæta við þig skuldum skaltu spyrja þig að því hvort þú þurfir virkilega á þessu að halda. Er þetta nauðsynlegt eða ertu bara að fá aðeins meiri lúxus í líf þitt eða jafnvel að reyna að halda í við aðra?
Reiknaðu út launahækkunina
Ef þú hækkar í launum er líklegt að fyrstu viðbrögð séu að eyða, eyða, eyða til að fagna þessum áfanga. „Best ég leyfi mér þessa 40.000 kr. skó og jú ætli ég þurfi ekki nýja 66 úlpu fyrir veturinn líka. Heyrðu jú! Ein utandlandsferð líka takk.“ Áður en þú ákveður að uppfæra lífsstílinn þinn skaltu skoða aðeins hækkunina betur. Stundum er hækkun á launum ekki tilefni til að leyfa sér mikið meira, allavega ekki í bili.
Trítaðu þig – innan hóflegra marka.
Það eiga allir skilið trít endrum og eins en ekki fara yfirum og þurfa svo að díla við lífsstílsverðbólguna.
Skammtímadekur getur verið mjög skemmtilegt en ekki láta skammvinna gleði koma þér út af sporinu og hafa neikvæð áhrif á langtímamarkmiðin. Ertu t.d. að safna þér fyrir útborgun í íbúð? Þá hefur vikulegur dögurður og helgarferð hér og þar áhrif á það t.d.
Leggðu til hliðar
Hefurðu heyrt um 50-30-20 regluna? Þar er miðað við að 50% af laununum þínum fari í afborganir lána, mat, samgöngur og önnur nauðsynleg útgjöld. Afþreying, heilsurækt, fatnaður, snyrtivörur o.þ.h. eru þá þessi 30% og svo leggurðu 20% af laununum þínum til hliðar = sparnaður.
Ef þú færð launahækkun, vertu búin/n/ið að ákveða hvað þú ert tilbúin/n/ið að eyða miklu í skemmtun. Hugsaðu út í hvað þú vilt gera við þennan aukapening þar sem þú nærð einnig að vinna að því að ná langtímamarkmiðum þínum. Finndu jafnvægi milli lífsstíls þíns og raunverulegs fjárhags.
Ekki gera allt í einu
Þú ert kannski búin/n/ið að bíða lengi eftir þessari launahækkun en farðu þér hægt og ekki breyta of miklu í einu. Betra er að breytingarnar komi smám saman til að hafa betri yfirsýn yfir hvað þú ræður við mánaðarlega og hvað ekki. Prófaðu þig áfram.
Ef eitthvað eykur hamingju þína eða lífsgæði og þú nærð endum saman, haltu því þá bara áfram.
Ef það er ekki að breyta neinu til hins betra, slepptu því þá.
Vertu í kringum fólk með svipuð markmið og þú
Vinir okkar hafa áhrif á kaup okkar og ósjálfrátt reynum við að halda í við neysluvenjur þeirra, allavega meðan við erum með þeim. Það er auðvelt að freistast til þess að eyða peningum ef vinir okkar eru að því. Ef þú ert að reyna að spara ættir þú að forðast að vera of mikið með vinum í kostnaðarsömum aðstæðum. Vinir sem þéna töluvert meira eru líklegri til að eyða meira. Það er ekki hægt að halda í við fólk sem er á miklu hærri launum. Við erum alls ekki að reyna að eiga þátt í vinaslitum með þessum skrifum en þú þarft ekki að fara í Kringluna með Jónu sem þénar 1,5 milljón á mánuði þegar þú ert að fá 400 þúsund útborgað. Þú þarft ekki að ganga í augun á neinum.
Sjálfvirkur sparnaður
Auðveldasta leiðin til að spara er að þurfa ekki að hugsa um það. Sjálfvirkur sparnaður er því mjög góð lausn. Þú ákveður upphæðina og bankinn sér um að færa þá upphæð yfir á sparnaðarreikning hver mánaðarmót.
Þetta getur einnig verið mánaðarleg áskrift í sjóðum, það er þó alltaf áhætta fólgin í því. – Lesa meira um áskrift í sjóðum hér.
Með þessu geturðu nýtt afganginn í lok hvers mánaðar, ef einhver er, án samviskubits þar sem þú ert nú þegar búin/n/ið að leggja fyrir þann mánuðinn.
Ekki demba þér í skuldir
Ef þú ert að koma þér í skuld til þess að lifa einhvern ákveðinn lúxus þá ertu líklegast búin/n/ið að fara aðeins framúr þér. Þó þú sért að ná að greiða af öllum mánaðarlegum afborgunum þýðir það ekki endilega að þú hafir efni á öllu hinu. Vandaðu valið áður er þú ákveður að bæta á þig skuldum.
Þú vilt ekki lifa aðeins frá mánuði til mánaðar. Það er nauðsynlegt að eiga sparnað ef einhver óvænt útgjöld birtast. Bíllinn þarf að fara í viðgerð, þú þarft að fara til tannlæknis, það kviknaði í úlpunni þinni o.s.frv.
Betra plan gæti verið að nýta rest mánaðarins í að losa sig undan eldri skuldum eða einfaldlega millifæra afganginn inn á sparnaðarreikninginn.
Gerðu fjárhagsáætlun
Fjárhagsáætlun getur hjálpað þér að fygjast með útgjöldum þínum og halda þér á réttri braut. Ef þú vilt forðast lífsstílsverðbólgu getur fjárhagsáætlun verið lausnin. Með því að vera meðvit-að/uð/aður um útgjöld og halda áætlun eru töluvert minni líkur á að eyðslan fari úr böndunum.
Áhugaverður lestur:
Verðbólga
Sparnaðarráð námsmannsins
Hvað er til ráða ef endar ná ekki saman?
Heimildir:
Clever Girl Finance
Investopedia
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?