Siðareglur starfsmanna

Siðareglur þeirra er starfa við Áttavitann.

1. grein –  Virðing fyrir starfi

Starfsmaður Áttavitans leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir Áttavitann. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á upplýsingamiðlun Áttavitans.

Starfsmaður skal sýna heiðarleika í störfum sínum og samskiptum við samstarfsfélaga.

Starfsmaður skal fyrst og síðast gæta hagsmuna ungs fólks í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni Áttavitans

2. grein – Sameiginleg ábyrgð

Starfsmenn fara sameiginlega með ábyrgð á því sem Áttavitinn miðlar og gerir.

Starfsmaður gengst undir að virða ritstefnu og markmið Áttavitans.

Starfsmaður Áttavitans gerir sér grein fyrir ábyrgð sinni gangvart samstarfsfélögum sínum og þess að ábyrgð Áttavitans liggur hjá öllum starfsmönnum hans.

Starfsmaður gerir sér grein fyrir áhrifavaldi fjölmiðla og mikilvægu lýðræðislegu hlutverki sínu. Hann reynir því að draga úr hættunni á að fyrir tilstuðlan upplýsingamiðlunar aukist fordómar og mismunun á grundvelli þjóðernis, kynþáttar, kyns, kynhneigðar, tungumáls, trúarskoðana eða sannfæringar.

3. grein – Vönduð og ábyrg miðlun upplýsinga

Almenningur á að geta treyst því að rétt sé farið með efnisatriði í upplýsingum Áttavitans. Til að svo geti verið þarf heiðarleiki, agi, nákvæmni og sanngirni að ríkja í vinnubrögðum. Textasmiðum ber ætíð að fullvissa sig um að upplýsingar þeirra séu réttar og eiga afdráttarlaust að fylgja þeirri reglu að leita til fleiri en eins áreiðanlegs aðila til að sannreyna þær upplýsingar sem þeir hafa undir höndum.

Starfsmaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Starfsmaður falsar ekki gögn, né dregur undan mikilsverðar upplýsingar og hann dregur ekki ályktanir umfram það sem forsendur gefa tilefni til.

Starfsmanni verður ekki gert að vinna verkefni sem stangast á við sannfæringu hans eða samvisku eða teljast niðurlægjandi.

Tekið skal fram og merkt á skýran hátt þegar um samsettar myndir er að ræða eða myndir sem átt hefur verið umtalsvert við með rafrænum hætti. Ekki skal taka myndir úr samhengi, nota þær á óviðeigandi hátt eða á einhvern veg sem gæti rýrt mannorð viðkomandi manneskju sem á myndinni birtist. Leitast skal við að fá samþykki frá einstaklingum á ljósmyndum áður en þær eru birtar.

Starfsmaður leitast við að leiðrétta við fyrsta tækifæri hafi hann birt upplýsingar sem eru rangar eða skaðlega ónákvæmar.

Varast skal óbeinar auglýsingar á Áttavitanum.

4. grein –  Hagsmunir

Það telst mjög alvarlegt brot þiggi starfsmaður mútur eða hafi í hótunum vegna birtingar efnis.

Starfsmaður fjallar hlutlaust um málefni og tekur ekki afstöðu með eða á móti málefnum, heldur leitast hann við að skýra andstæðar hliðar og einfalda framsetningu á flóknum málum.

Efnishöfundar skulu forðast að fjalla um hagsmuna mál sem þeir eru tengdir á einhvern hátt: pólitískt, persónulega eða fjárhagslega, þannig að um hagsmunaárekstra eða meinta hagsmunaárekstra gæti verið að ræða. Séu texahöfundar í vafa varðandi þessi atriði skulu þeir hafa samráð við verkefnisstjóra.

Starfsmaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum  og/eða máli.

5. grein – Tillitssemi

Starfsmaður sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu. Sérstakrar tillitssemi þarf að gæta gagnvart fólki sem ætla má að geri sér ekki grein fyrir hvað áhrif ummæli þess kunni að hafa, svo sem fólk sem er í uppnámi, hefur orðið fyrir áfalli eða lent í slysi.

Starfsmaður skal hafa hliðsjón af því í viðkvæmum og vandasömum málum hvort almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafn- og/eða myndbirtingar.

Sérstök aðgát skal höfð í umfjöllun um málefni barna, sjúklinga og annarra sambærilegra hópa. Upplýsingar um sakborninga í sérlega alvarlegum afbrotamálum, sérstaklega kynferðisbrota- og sifjaspellsmálum, ætti ekki að birta, ef það getur orðið til þess að kennsl verði borin á fórnarlömb þeirra.

Í frásögnum af dóms- og refsimálum skal starfsmaður virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

6. grein – Trúnaður

Starfsmaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína og skal ætið vera bundin trúnaði við skjólstæðinga Áttavitans.

7. grein – Tjáningafrelsi starfsmanns.

Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningafrelsi starfsmanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.