Hvað er endómetríósa?

Endómetríósa er krónískur og sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju ýmissa líffæra, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum og valda þar bólgum. Undir venjulegum kringumstæðum fara þessar frumur út úr líkamanum við blæðingar. Blóðið kemst ekki í burtu og geta myndast bólgur, blöðrur og jafnvel samgróningar milli líffæra og innan kviðarholsins sem og annars staðar í líkamanum. Orsök er óþekkt enn sem komið er.

Einstaklingar með endómetríósu geta verið með innvortis blæðingar
í hverjum mánuði á þeim stöðum sem endómetríósufrumur setjast á.

Endómetríósa hefur fundist í öllum helstu líffærum líkamans en algengast er að frumurnar finnist í æxlunarfærum (s.s. legi, eggjastokkum, eggjaleiðurum) og kviðarholi.

Endometriosis - Symptoms and causes - Mayo Clinic
Myndin sýnir endómetríósufrumur á eggjastokkum, eggjaleiðurum og í kviðarholi.

Í daglegu tali er oft talað um endó sem virkar voða krúttlegt orð en sjúkdómurinn sjálfur er það svo sannarlega ekki. Áður fyrr var talað um legslímuflakk því talið var að frumur úr innra lagi legs færu á flakk um líkamann. Eftir ýmsar rannsóknir hefur komið í ljós að endómetríósufrumur eru ekki þær sömu og finnast í innra lagi legs þó líkindi séu á og er orðið legslímuflakk því ekki lengur notað.

Hver eru einkenni endómetríósu?

Helstu einkenni endómetríósu eru mikill sársauki við og fyrir blæðingar, miklar og/eða óreglulegar blæðingar, verkir í kviðarholi milli blæðinga og sársauki við egglos, samfarir, þvaglát og hægðir.

Einkenni eru mismunandi og geta verið breytileg milli mánaða og ára.

Verkir og krampar í kviðarholi fyrir tíðablæðingar og á meðan þeim
stendur eru með algengustu einkennum endómetríósu.

Önnur algeng einkenni eru:

  • Sársauki við egglos
  • Verkir við eða eftir samfarir
  • Verkir við þvaglát og/eða hægðalosun
  • Uppköst, ógleði, hægðatregða og/eða niðurgangur
  • Síþreyta og svimi
  • Verkir í legi sem leiða aftur í bak, niður læri og jafnvel út í mjaðmir
  • Miklar og/eða óreglulegar tíðablæðingar
  • Milliblæðingar
  • Óþægindi frá meltingarfærum
  • Ófrjósemi
  • Andleg vanlíðan vegna langvarandi verkja og skertra lífsgæða

Óalgengari einkenni eru t.d. verkir neðan við rifbein sem versna við innöndun, í öri eftir keisaraskurð, niður aftanverðan fótlegg, hnúður í nafla og blóðnasir. Þetta á allt við um á meðan á blæðingum stendur.

Hverjir fá endómetríósu?

Talið er að 5-10% þeirra sem fæðast með kvenlíffæri séu með endómetríósu.

Konur, kynsegin og trans karlar geta verið með endómetríósu og í um 60% tilfella verður fólk vart við fyrstu einkenni fyrir tvítugt. Meðal áhættuþátta eru erfðir, að tíðablæðingar hefjast snemma á lífsleiðinni og miklar blæðingar.

Greining endómetríósu

Kviðarholsspeglun er eina leiðin til að staðfesta greiningu á endómetríósu.

Ef grunur er á að um ódæmigerða staðsetningu eða umfangsmikinn sjúkdóm sé að ræða er stundum stuðst við segulómun til frekari greiningar. Í einstaka tilfellum er stuðst við klíníska greiningu út frá einkennum og skoðun læknis, þá aðallega hjá ungum einstaklingum.

Úr bæklingnum „Þjáist þú af slæmum tíðarverkjum?“ frá Samtökum um endómetríósu.

Greiningartími getur verið allt að áratugur.

Hvað er kviðarholsspeglun (kviðsjáraðgerð)?

Aðgerðin er gerð í svæfingu og getur tekið allt frá 30 mínútum og upp í 3 klukkustundir. Í byrjun aðgerðarinnar er gerður lítill skurður í naflann og síðan er kviðarholið fyllt með lofti. Loftið lyftir kviðveggnum frá görnum og öðrum líffærum og minnkar þannig líkurnar á áverkum í aðgerðinni. Sett er inn agnarsmá myndavél í gegnum naflann og yfirleitt er nauðsynlegt að gera litla skurði (tvo til þrjá) rétt ofan við lífbeinið fyrir hjálparáhöld við kviðspeglunina. Síðan eru innri kynfærin skoðuð, legið, eggjastokkar og eggjaleiðarar. Ef eitthvað kemur í ljós við skoðunina er gerð aðgerð í kviðar- og/eða grindarholi með kviðspeglunaráhöldum. Í lok aðgerðarinnar er loftinu hleypt aftur út og skurðsárin saumuð með saumum sem eyðast á örfáum vikum.

Mynd fengin úr fræðsluriti um kviðsjáraðgerð á vegum Landspítalans.

Upplýsingarit Landspítalans um kviðarholsspeglun.

Meðferð

Því miður er engin lækning til en ýmis úrræði eru þó í boði.

Verkjastilling með hormónalyfjum

Ein aðalmeðferðin við endómetríósu er lyfjameðferð sem miðar að því að bæla tíðablæðingar. Þetta er gert með hormónalyfjum, oftast getnaðarvarnarlyfjum, og er pillan hvað mest notuð.

Verkjalyf

Annað úrræði eru verkjastillandi lyf á borð við parasetamól og íbúprófen. Verkjastillandi lyf eru gefin ef um er að ræða verki sem hafa áhrif á daglegt líf. Stundum dugar þetta ekki til og þarf þá sterkari verkjalyfjameðferð eða jafnvel verkjastillingu á sjúkrahúsi.

Reynt er að forðast morfínskyld lyf vegna þess hversu ávanabindandi þau eru.

Aðgerðir

Aðgerð er eingöngu framkvæmd ef sjúkdómurinn svarar ekki öðrum meðferðum eða ef ekki er talið líklegt
að meðferð með hormónalyfjum dugi til.

Í fyrstu aðgerð eru tekin vefjasýni til rannsóknar.

Einkenni sjúkdómsins minnka oft eftir að vefjaskemmdir, blöðrur og samgróningar hafa verið fjarlægðir við kviðarholsspeglun og hjá sumum hverfa einkennin alveg. Því miður geta einkenni tekið sig upp að nýju og er þá algengt að fólk þurfi að fara aftur í slíka aðgerð.

Í sumum tilvikum þarf að grípa til stærri aðgerða eins og að fjarlægja eggjastokka og/eða leg.

Stuðningur og fræðsla

Samtök um endómetríósu, sem stofnuð voru árið 2006, veitir fólki með endómetríósu og aðstandendum þeirra stuðning og fræðslu. Samtökin vinna auk þess að því að efla tengsl milli heilbrigðisstarfsfólks og fólks með endó.

Samtökin halda úti flottri og upplýsandi vefsíðu og gáfu einnig út flottan bækling árið 2020 sem vert er að skoða.

Heimildir:
Endó: Ekki bara slæmir túrverkir – Ákall einstaklinga með endómetríósu eftir skilvirkari þjónustu
Samtök um endómetríósu
Landspítali

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar