Hvað eru blæðingar?
Blæðingar eru mánaðarlegar blæðingar úr legi. Blæðingar eru kallaðar ýmsum nöfnum, svo sem tíðir, “að fara á túr”, “þessi tími mánaðarins”, “að fá Rósu frænku í heimsókn”, “að hafa á klæðum”. Blóðið sjálft er svo kallað tíðarblóð, túrblóð, mánablóð og ýmislegt. Það er þó óþarfi að fegra þetta með einhverjum skrautyrðum því þetta er afar eðlilegt ferli sem flest fólk með leg gengur í gegnum mánaðarlega í nokkra áratugi. Tíðir taka 3-5 daga, þó allt frá 2-7 sé eðlilegt.
Hvað er tíðarhringur?
Þegar fólk með leg (sem oft eru konur, en einnig annað fólk) fer á túr reglulega er tímabilið á milli tíða kallaður tíðarhringur. Reglulegur tíðahringur er merki um að mikilvægir líkamshlutir séu að virka eðlilega. Hringurinn er talinn frá fyrsta degi tíða til fyrsta dags næstu tíða. Tíðahringurinn er 28 dagar að meðaltali. Tíðahringir geta verið á bilinu 21 til 35 dagar hjá fullorðnum og 21 til 45 dagar hjá unglingum.
Hvað gerist á tíðahringnum?
Tíðahringurinn er að meðaltali 28 dagar:
- Fyrsti dagur tíðahringsins er sá dagur þegar blæðingar byrja.
- Á 7. degi byrja eggjastokkar að þroska egg og undirbúa egglos.
- Á 11.-16. degi verður egglos það er að egg losnar úr eggjastokk í eggjaleiðara. Eftir það ferðast egg frá eggjaleiðara og niður í leg.
- Á 28. degi undirbýr líkaminn sig til að losa sig við eggið ef það hefur ekki frjóvgast og blæðingar byrja.
- Þetta ferli á sér stað í hverjum einasta mánuði hjá konum þangað til tíðahvörf byrja, oftast í kringum 45-50 ára aldur.
Hvað er egglos?
Við kynþroska byrja eggjastokkar að þroska egg sem eru til staðar í eggjastokkum við fæðingu. Það er heiladingullinn sem staðsettur er í heilanum sem byrjar að búa til hormón sem örva eggjastokkana til að framleiða kynhormón. Kynhormónin þroska eggið og losa það úr eggjastokknum í eggjaleiðarann í hverjum mánuði, það kallast egglos. Eggið ferðast síðan eftir eggjaleiðaranum í átt að leginu. Ef ekkert sæði fer inn í konuna til að frjóvga eggið þá þornar eggið upp og fer út úr líkamanum tveimur vikum síðar í gegnum blæðingar.
- Blæðingar koma 14 dögum eftir egglos.
- Konur með reglulegan tíðahring geta því áætlað nokkurn veginn hvenær egglos á sér stað.
- Ef blæðingar eru óreglulegar er afar erfitt að áætla hvenær egglos á sér stað.
Aldrei ætti að treysta á útreikninga eggloss eina og sér, sem getnaðarvörn. Alltaf ætti að nota aðrar getnaðarvarnir með.
Á kynfræðsluvef Námsgagnastofnunar má sjá myndband sem lýsir tíðahringnum.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?