Passar eitthvað af spurningunum hér fyrir neðan við þig:

Hefur þú áhuga á listgreinum?

Varst þú að klára menntaskóla og veist ekki hvað skal gera næst?

Langar þig að kanna hvort að Listaháskóli sé eitthvað fyrir þig?

Langar þig að fara í Listaháskóla en veist ekki hvernig þú átt að bera þig að í umsóknarferlinu?

Þá er þessi grein fyrir þig.

Eftir menntaskóla-nokkur hollráð

Það er alls ekki óalgengt að fólk sé óákveðið um hvað það vill gera eftir menntaskóla. Þrátt fyrir að það líti út fyrir að allir í kringum þig séu með allt á hreinu og viti nákvæmlega hvað þeir/þær/þau vilji gera eftir útskrift er það ekki alltaf raunin. Það er mjög mikilvægt að átta sig á þessari staðreynd sem fyrst! Oft getur verið að fólk haldi að það viti nákvæmlega hvað það vill, skráir sig t.d. í nám í Háskóla og hættir svo eftir nokkra mánuði af því að námið var ekki eins og það bjóst við. Fólk fer sína eigin leið í lífinu og á endanum muntu finna eitthvað sem hentar þér fullkomlega. Taktu þér tíma í að íhuga hvað það er sem þig langar að gera í framtíðinni, þú hefur nægan tíma.

Að byggja upp Portfolio

Ef að þú hefur komist að þeirri niðurstöðu að Listaháskóli sé næsta skref í átt að framtíðinni sem þú leitast eftir þarftu að útbúa portfolio. Flest allir listaháskólar biðja um portfolio á einhverjum tímapunkti í umsóknarferlinu. Portfolio-ið þitt á að geta sýnt þeim hver þú ert. Það er hægt að búa til portfolio á hvaða hátt sem er, svo lengi sem að það skín í gegn hver þú ert í raun og veru. Þú gætir þess vegna sent inn skó sem portfolio. En þá þarftu líka að geta útskýrt hvers vegna þessi skór táknar þig sem listamann. Þetta er mjög absúrd dæmi en svo lengi sem að rökstuðningurinn er góður þá er engin ástæða fyrir því að það ætti ekki að ganga. Málið er að hugsa stórt, það er það sem skólinn vill sjá. Það er eitt af því besta við listaháskóla, þú þarft ekki að skrifa 1000 orða ritgerð með APA heimildaskrá til þess að komast inn. Langt því frá, þú þarft bara að sýna hvað þú ert skapandi, hvers vegna þig langar í skólann og hversu mikið þig langar það!

Portfolio-ið þitt

En hvernig á ég að sýna þeim hver ég er? Þetta er mjög gild spurning, sem getur oft verið fáránlega erfitt að svara. En heppilega eru hér nokkrir punktar til þess að hjálpa þér að átta þig á því:

(Skrifaðu niður svörin við þessum spurningum, það mun hjálpa)

Hvað kemur upp í höfðinu á þér þegar þú veltir fyrir þér þessari erfiðu spurningu: Hver er ég?

Hvað gerir þig að manneskjunni sem þú ert?

Hverjir eru kostirnir þínir?

Af hverju langar þig í Listaháskóla?

Hvað viltu læra/græða á því?

Hvað er það sem þú hefur mestan áhuga á?

Er það:

 • Ljóðagerð?
 • Teikning?
 • Listasaga?
 • Málun?
 • Vegglist/Graffiti?
 • Efnistilraunir?
 • Grafík?
 • Kvikmyndagerð?
 • Ljósmyndun?
 • Skapandi skrif?
 • Píanóleikur?
 • Sönglist?
 • Leiklist?
 • Listgjörningur?

Í alvörunni, það getur verið hvað sem er…

Þetta eru allt mikilvægar spurningar sem þú þarft að geta svarað og munu hjálpa þér töulvert við uppbyggingu á þínu eigin portfolio-i og í öllu umsóknarferlinu sjálfu.

Þegar að þú ert búin/n/ð að svara þessum spurningum ertu strax komin með grunn að portfolio-inu þínu og búin/n/ð að finna út úr því hvað það er sem þú ert best/ur í og getur farið að setja það inn í portfolio-ið þitt.

Næsta skref er þá að safna saman öllum verkefnum (bæði skólatengdum eða eigin) og byrja að flokka. Hvað finnst þér passa inn í þitt portfolio? Gættu þess að tékka á því hvað verkefnin megi vera gömul miðað við þann skóla sem þú sækir um hjá (margir skólar setja takmörk við hversu gömul verkin mega vera. Oft er miðað við að þau þurfi að vera frá síðastliðnum 3 árum). Þú getur einnig ákveðið að búa til ný verkefni bara fyrir portfolio-ið, gefðu hugmyndafluginu lausan taum.

Þú ræður alveg sjálf/ur/t hversu langt portfolio-ið er en gott er að hafa í huga að nefndin fer yfir fjöldan allan af portfolio-um og hefur ekki allan tímann í heiminum, þess vegna er gott að hafa það stutt og hnitmiðað. Kannski ekki 5 blaðsíður en ekki 40 blaðsíður heldur.

Á hvaða formi á ég að hafa portfolio-ið mitt

Til minnis: Þessi grein er bara til þess að hjálpa þér að fá innblástur, það þarf ekki að taka neinu sem stendur hér bókstaflega. Þetta eru bara heilræði sem þú getur ákveðið að taka til þín eða ekki, þitt er valið.

Hvaða form eða forrit er sniðugt að nota til þess að setja saman portfolio-ið þitt? Það er til mjög mikið af sniðugum forritum til þess að hjálpa þér að setja upp Portfolio. Portfolio-ið þitt getur verið rafrænt, á myndformi, lifandi flutningur eða bara hvað sem þér dettur í hug en hér eru nokkrar tillögur að forritum:

 • Adobe Premier Pro (Kostar)
 • Adobe InDesign (Kostar)
 • Adobe Illustrator (Kostar)
 • Imovie (Frítt)
 • Figma (Frítt)
 • Wix (Frítt)
 • Powerpoint (Kostar)
 • Word (Kostar)
 • Pages (Frítt)
 • Handgert (Frítt upp að vissu marki)
 • Og margt fleira…

Svo fer það eftir skólum hvernig þeir vilja að þú skilir Portfolio-inu þínu inn, sumir vilja fá það rafrænt eða prentað. Það er alltaf gott að fara vel yfir hvernig skólinn vill fá portfolio-ið sent og vera vel undirbúin/n/ð og búin/n/ð að prenta út og senda allt saman tímanlega.

Viðtöl

Einnig er mjög líklegt að þú þurfir að fara í viðtal og ræða þar hvað Portfolio-ið þitt fjallar um og hver þú ert. Þá kemur sér sérstaklega vel að vera vel undirbúin/n/ð og geta svarað spurningunum hér fyrir ofan þar sem að allar líkur eru á því að þær spurningar sem þú verður spurð/ur/t að verði mjög svipaðar.

Mig vantar ennþá hjálp!

Ekki örvænta. Portfolio skrif eru mjög ógnvekjandi og bara það að sækja um í háskóla yfirhöfuð! Fornám er frábær leið til þess að komast að því hvort þú viljir í raun og veru fara í nám í listgreinum eða ekki. Fornám er oftast 1 ár og eftir það ættir þú að vera komin með einhverja hugmynd um hvort þetta svið henti þér eða ekki. Þá ertu ekki búin/n/ð að eyða of miklum tíma og orku í eitthvað sem hentar þér síðan ekki. Fornám er einnig frábær leið til þess að safna þér efni í portfolio og komast að því hverjir eru þínir helstu kostir og hvar þitt áhugasvið liggur.

Nokkur dæmi um sniðugt fornám ef þig langar í listaháskóla:

Eins árs fornám hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík https://myndlistaskolinn.is/dagskoli/listnamsbraut/eins-ars-fornam

 • Eins árs fornám hjá Tækniskólanum
 • ART program hjá Lunga school á Seyðisfirði

https://www.lungaschool.is/art.html

 • Eins árs fornám hjá Myndlistaskólanum á Akureyri

http://myndak.is/fornamsdeild.html

Vonandi hjálpaði þessi grein þér að átta þig aðeins á því hvernig umsóknarferli inn í listaháskóla gengur fyrir sig og veitti þér innblástur til þess að taka fyrstu skrefin. Gangi þér vel!

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar