Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.

Hvað gera slökkviliðsmenn?

Starf slökkviliðsmanna er mjög fjölbreytt en þeir:

  • slökkva elda
  • bjarga fólki, dýrum og verðmætum úr bruna
  • reykkafa
  • sinna björgun fólks úr sjó, vötnum og utan alfaraleiða
  • sinna sjúkraflutningum
  • koma að forvörnum, eldvarnaeftirliti og almannavörnum
  • viðbrögð við mengunar- og eiturefnaslysum
  • önnur tilfallandi aðstoð við almenning

Hvar lærir maður að vera slökkviliðsmaður?

Slökkviliðsnám er kennt í Brunamálaskólanum sem er á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hlutverk skólans er að veita slökkviliðsmönnum og eldvarnaeftirlitsmönnum um allt land þá menntun, starfsþjálfun og endurmenntun sem nauðsynleg er vegna starfa þeirra. Námið fer bæði fram í fjarnámi og staðnámi og eru ýmis námskeið haldin um land allt.

Hægt er að velja á milli tveggja námsleiða, atvinnuslökkvilið eða hlutastarfandi slökkvilið.

Atvinnuslökkviliðsnám er tvískipt. Annars vegar fornám, sem eru 80 kennslustundir, og hins vegar atvinnuslökkviliðsnám, 540 kennslustundir. Nemendur þurfa að ljúka fornámi fyrir slökkviliðsmenn og hafa starfað í atvinnuslökkviliði í sex mánuði. Ljúka þarf námi innan þriggja ára frá því það hefst.

Til að hefja störf sem hlutastarfandi slökkviliðsmaður þarf að ljúka 20 kennslustunda fornámi og eru svo fjögur hlutanámskeið í boði, þ.e.:

Námskeið 1: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til slökkvistarfa utanhúss, til að annast vatnsöflun, reyklosun og dælingu.

Námskeið 2: Um er að ræða tvö 30 kennslustunda námskeið og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til reykköfunar, hafa þekkingu á þróun innanhússbruna og yfirtendrun.

Námskeið 3: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til björgunar fólks úr bílflökum og klippuvinnu. 

Námskeið 4: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til að beita réttum viðbrögðum við mengunarslysum og eiturefnaslysum. Áður en nám er hafið skal viðkomandi hafa lokið námskeiði 2. 

Hver kennslustund er 40 mínútur.

Hver eru inntökuskilyrðin?

Til þess að starfa sem slökkviliðsmaður þarf að fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

  • Andlegt og líkamlegt heilbrigði
  • Góð sjón og heyrn
  • Rétt litaskynjun
  • Reglusemi og háttvísi
  • Vera laus við lofthræðslu og innilokunarkennd
  • Aukin ökuréttindi (vörubifreið og leigubifreið) að lokinni reynsluráðningu.
  • Iðnmenntun sem nýtist í starfi eða sambærilega menntun og reynslu.

Löggilding slökkviliðsmanna

Til að slökkviliðsmenn geta sótt um löggildingu þurfa þeir að hafa lokið lágmarks námi við Brunamálaskólann eða sambærilega menntun sem skólaráð Brunamálaskólans metur jafngilda. Einnig þurfa þeir að hafa starfað sem slökkviliðsmenn eða við brunavarnir sem aðalstarf í allavega eitt ár samfellt eða hlutastarfi í fjögur ár.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sér um löggildingar slökkviliðsmanna.

Endurmenntun slökkviliðsmanna

Atvinnuslökkviliðsmenn þurfa að sækja a.m.k. eitt endurmenntunarnámskeið á þriggja ára fresti. Ef einstaklingur hefur sótt önnur námskeið er hægt að hafa samband við skólaráð Brunamálaskólans og óska eftir að fá það metið.

Hægt er að nálgast ítarlegri upplýsinga á vef Næstu skrefa og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar