Hvað er narsissismi?

Narsissismi lýsir sér þannig að fólk er mjög upptekið af sjálfu sér og gefur lítið fyrir þarfir annarra.

Hegðun narsissistans einkennist af:

 • dramatík og ýkjum
 • tilfinningum og ákefð
 • ójafnvægi og óútreiknanleika

Mörg hugsa að narsissimi sé einungis tengdur persónuleikaröskuninni sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun (e. narcissistic personality disorder) en narsissismi getur einnig verið persónueiginleiki. Líkt og með aðra persónueiginleika er þetta ákveðið róf. Við föllum öll einhvers staðar á þessu rófi og er talið heilbrigt að vera stundum smá sjálfhverf/t/ur. Með þessu er átt við að það er í lagi að setja sig í fyrsta sætið og ekki láta önnur vaða yfir sig eða sín mörk. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það ýti undir sjálfsöryggi, þrautseigju og metnað að hafa einhverja eiginleika narsissisma í sér. En öllu má ofgera.

Talið er að öll hafi eiginleika narsissisma í sér á einhverju stigi.

Þessir eiginleikar geta farið út í öfgar og orðið sjúklegir. Fólk sem er hátt á rófinu er líklegt til að greinast með sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun.

Mikilvægt er að geta greint á milli narsissisma sem persónueiginleika og narsissisma sem persónuleikaröskun. Alls ekki öll sem teljast til narsissista eru greind með röskunina sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun eða tikka í þau box sem þarf til að fá greiningu. Þessi persónuleikaröskun er frekar óalgeng og er talið að um 5% mannkyns fái greiningu við röskuninni. Tölurnar gætu þó verið hærri því til að fá greiningu þarf aðilinn að byrja á því að viðurkenna vandann sem getur reynst narsissísku fólki mjög erfitt.

Helstu eiginleikar narsissisma:

Sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun er formleg geðröskun og greinist hjá þeim sem hafa of marga eiginleika narsissisma. En hvaða eiginleikar eru þetta?

Að líta mjög stórt á sig

Innst inni finnst þér þú vera best/ur, þér finnst þér vegna betur en önnur, þú ert einfaldlega hæfari í öllum aðstæðum og á öllum sviðum.

Þörf fyrir stanslaus hrós og aðdáun frá öðrum

Sjálfstraustið er eins og blaðra án hnúts, það þarf stanslaust að bæta á hrósin og athyglina, samþykkið og viðurkenninguna til að halda blöðrunni uppblásinni. Sama hversu mikið einstaklingurinn er lofaður er það aldrei nóg.

Tilætlunarsemi

Hvort sem um er að ræða greiða, afsökunarbeiðnir, hvað sem þú vilt… þú trúir því að þú eigir þetta allt skilið. Þú ert yfir önnur hafin/n/ið og það eiga önnur að vita og framfylgja því í öllum aðstæðum.

Stórlega ýktir hæfileikar og afrek

Þú átt ekki í neinum vandræðum með að skreyta staðreyndir eða jafnvel beinlínis ljúga um líf þitt, ferilskrá, reynslu o.þ.h.

Að bregðast neikvætt við gagnrýni

Þó þú þráir stjórn og tekur fullt kredit þegar hlutir ganga vel ertu fljót/t/ur að kenna öðrum um ef illa gengur eða hlutir fara ekki eins og áætlað var. Það er mjög erfitt að taka gagnrýni eða viðurkenna mistök því það er auðvitað alltaf einhverjum öðrum að kenna.

Að vera upptekin/n/ið af eigin fantasíum um völd, velgengni, hæfileika og fegurð

Þú hefur tilhneigingu til að búa til og trúa ýktum, óraunhæfum frásögnum um árangur þinn, sambönd, jafnvel hversu vel þú lítur út til að hjálpa þér að finnast þú vera sérstök manneskja. Allt sem ógnar fantasíunni er hagrætt þér í vil eða einfaldlega hunsað. Þú vilt að fólk öfundi þig, telur að aðrir öfundi þig og öfundar önnur sem eiga eða hafa það sem þú vilt.

Að notfæra sér aðra

Þú hikar ekki við að nota önnur til að ná eigin markmiðum, ýmist af pjúra illsku eða óafvitandi. Þér er annt um sambönd þín við fólkið í kringum þig á mjög yfirborðskenndan hátt. Þú vilt að þau gagnist þér, lyfti þér upp, hækki félagslega stöðu þína eða láti þig líta vel út eða líða vel, sem dæmi – þú spáir ekkert í hvernig hegðun þín gæti haft áhrif á þau því þetta hentar þér.

Að geta ekki áttað sig á þörfum og tilfinningum annarra

Þú ert mjög viðkvæm/t/ur gagnvart því hvernig önnur koma fram við þig og bregðast við þínum þörfum og tilfinningum en getur ómögulega sett þig í spor annarra og sýnt þeim samkennd. Þú gerir kannski lítið úr öðrum til að líða betur með sjálf/a/t/an þig. Það er engin dýpt í samböndum þínum og þér er líka bara alveg sama að svo sé.

Hrokafull hegðun

Með of mikið egó og tilfinningu að þú sért öðrum æðri. Þú ætlast til þess að fá og eiga allt það flottasta og besta, flottasta bílinn, stærstu skrifstofuna, dýrustu merkjavörurnar o.þ.h. Þú tekur yfir samtöl, lítur niður á þau sem þú álítur þér óæðri og reynir að umvefja þig fólki sem þú telur jafn sérstakt og þú telur þig vera – jafn hæfileikaríkt, jafn farsælt í lífinu, jafn fallegt o.s.frv.

Orsakir

Orsök er óþekkt en talið er að ýmsir umhverfisþættir og fjölskyldusaga spili inn í að fólk þrói með sér narsissíska persónueiginleika. Þetta geta verið:

 • áföll í æsku (líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi sem dæmi).
 • samskipti við foreldra, vini og ættingja. Upphafning og dómharka t.d.
 • gen (fjölskyldusaga)
 • ofurnæmni fyrir áferð, hljóði og ljósi í æsku.
 • persónuleiki og skapgerð.

Greining sjálfsdýrkandi persónuleikaröskunar er algengari meðal karlmanna og byrja einkenni oft um unglingsaldur eða snemma á fullorðinsárum.

Hvað er til ráða?

Engin lækning er til en langtímameðferð í formi samtala er sú meðferð sem virðist skila bestu útkomunni. Það gefur einstaklingum betri innsýn í vandamálin og fær viðkomandi tæki og tól til að gera þær breytingar sem þarf til að:

 • tengja við aðra á jákvæðan og fullnægjandi hátt.
 • þróa með sér heilbrigt sjálfstraust.
 • hafa raunverulegri væntingar til annarra.

Til að reyna að fyrirbyggja að narsissískir eiginleikar taki yfir þegar einkenni gera vart við sig er hægt að:

 • fá aðstoð strax við geðrænum vanda.
 • fara í fjölskylduráðgjöf til að læra heilbrigð samskipti og til að takast á við ágreining og vanlíðan innan fjölskyldunnar.
 • fá foreldrafræðslu eða ráðgjöf eftir því sem þörf er á.

Geðlæknar geta einnig ávísað lyfjum til að takast á við kvíða og þunglyndi ef þörf er talin á því.

Heimildir:
Business Insider
Cleveland Clinic
DSM
DV
WebMD
Mayo Clinic
Psycom
Psych Central – All About Narcissistic Personality Disorder
Psych Central – Narcissistic Personality Disorder: Symptoms and Traits
Psych Central – Narcissism vs. Narcissistic Personality Disorder: Telling Them Apart

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar