Hvert er raunverulegt verðmæti launa?

Dæmi: Árið 2011 voru meðallaun vinnandi fólks á Íslandi 365 þúsund krónur en árið 2021 voru þau orðin 635 þúsund krónur.

Hvað segja þessar tölur okkur? Getur verið að á tíu ára tímabili hafi fólk orðið svona miklu ríkara á Íslandi? Nei, ekki alveg. Því þó svo að laun hafi hækkað í krónum talið gat fólk ekki endilega keypt miklu meira fyrir launin sín. Með öðrum orðum þá segir hækkun launa í krónum talið ekki til um raunverulegt verðmæti launanna. Raunverulegt verðmæti launa sýnir hversu mikið hægt er að kaupa fyrir laun hverju sinni. Mælikvarðinn sem mælir breytingar á raunverulegu verðmæti launa kallast kaupmáttur launa.

Laun og verðlag

Á sama tíma og laun hækka (t.d. milli ára), þá hækkar verð á öðrum hlutum líka. Þannig að til þess að skilja hversu miklu hærri launin eru milli tímabila þarf að setja tölur í sögulegt samhengi. Þá þarf að kanna hversu mikið launin hækka miðað við verðhækkanir á því sem keypt er fyrir launin: vara og þjónusta. Kaupmáttur launa sýnir einmitt þetta, hann sýnir hvernig laun hækka í samræmi við verðlagshækkanir í landinu.

Kaupmáttur launa

Mælikvarðinn sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu einstaklingar geta keypt fyrir launin sín á afmörkuðu tímabili.

Í fréttum er algengt að rætt sé um kaupmáttaraukningu eða lækkun kaupmáttar milli tímabila. Þá er í raun verið að skoða hvort fólkið í landinu hafi það betra eða verra, það er að segja, kanna hvort fólk fái meira eða minna fyrir launin sín milli tímabila (t.d. milli mánaða).

  • Ef kaupmáttur breytist ekki milli ára þýðir það að hægt er að kaupa sambærilegt magn af varning og árið áður.
  • Ef kaupmáttur hækkar milli ára táknar það að fólk getur keypt meira fyrir launin sín en fyrir ári. Þá er talað um kaupmáttaraukningu.
  • Ef verð á vöru og þjónustu hækka hlutfallslega meira en laun í landinu fær fólk minna fyrir launin sín og sagt er að kaupmáttur lækki milli tímabila. (Innskot: þegar verð á vöru og þjónustu hækkar milli tímabila er talað um verðbólgu).

Kaupmáttur launa er mælikvarði sem er notaður til þess að mæla mun á lífsgæðum; sýnir hvort einstaklingar hafi kost á því að kaupa meira eða minna af veraldlegum gæðum (vöru og þjónustu) en í fyrri mánuði.

Hvernig er kaupmáttur launa reiknaður?

Mælikvarðinn sýnir breytingar á launum umfram breytingar á verði á vöru og þjónustu. Hann sýnir hvort/hvernig launin hækka meira en því sem nemur hækkun á verðlagi á sama tímabili.

Hagstofa Íslands reiknar kaupmátt launa mánaðarlega. Breytingar á launum eru mældar í svokallaðri launavísitölu; hún sýnir hækkun á meðallaunum milli mánaða.

Breytingar á verðlagi er reiknað í vísitölu neysluverðs; hún mælir verðhækkanir á almennri vöru og þjónustu milli mánaða.

Skoða nánar á vef Hagstofu Íslands.

Mælikvarði á lífsgæði ólíkra landa

Kaupmáttur launa er einnig notaður til þess að skoða mun á lífsgæðum milli landa. Það er gert með því að kanna hversu mikið af gæðum (vöru og þjónustu) hægt er að kaupa fyrir laun í ákveðnu landi, miðað við verðlag og laun í öðru landi. Til dæmis muninn á því hvað einstaklingur á Íslandi getur keypt mikið af gæðum fyrir íslensk laun miðað við hvað danskur launþegi getur keypt í Danmörku fyrir dönsk laun. Til þess að reikna slíkt út þarf að reikna út gengið. Á ensku er talað um purchasing power parity.

Höf: Heiða Vigdís Sigfúsdóttir

Heimildir:
Hagstofa Íslands – Vísitala kaupmáttar launa
Hagstofa Íslands – Vísitölur launa
Vísindavefur

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar