Gaslýsing er birtingarmynd af andlegu ofbeldi sem fólk á oft erfitt með að koma auga á. Sá sem gaslýsir er lúmskur í sinni hegðun og oft á ofbeldið sér stað yfir langan tíma. Andlegt ofbeldi er þegar einhver gerir lítið úr þér, lætur þér líða illa eða hótar þér með orðum eða hegðun, reynir að stjórna þér, niðurlægja og/eða hefur yfirþyrmandi eftirlit með þér öllum stundum. Andlegt ofbeldi er gríðarlega hættulegt og veldur tilfinningalegum skaða og sárum sem getur fylgt fólki út lífið.
Sögnin „að gaslýsa“ vísar til þeirrar athafnar að grafa undan veruleika annarrar manneskju með því að afneita staðreyndum, umhverfinu í kringum hana og/eða tilfinningum hennar. Markmið gaslýsingar er að einstaklingar efist um eigin vitsmuni, tilfinningu og því hver þau eru í raun og veru.
Til eru stig gaslýsingar sem byrja mjög lúmskt en verða svo alvarlegri með tímanum. Líkt og með aðra ofbeldishegðun vill gerandi ekki ganga of langt strax. Þetta er rólegra form ofbeldis sem getur komið aftan að manni en er alveg jafn hættulegt. Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og búa til nýja atburðarás eftir á sem hentar geranda. Þetta lætur fólk efast um eigin dómgreind.
Hver sem er getur verið gaslýstur en gaslýsing er sérstaklega algeng í nánum samböndum. Hægt er að upplifa gaslýsingu af hálfu fjölskyldumeðlima, í vinasamböndum, í starfi o.fl.
Uppruni orðsins gaslýsing
Hugtakið gaslýsing kemur upphaflega frá leikriti eftir breska leikskáldið Patrick Hamilton, Gas Light, frá árinu 1938. Leikritið fjallar um hjón þar sem maðurinn gaslýsir konuna sína svo hún trúir að hún sé geðveik. Árið 1944 leikstýrði George Cukor vinsælli mynd sem byggir á leikriti Hamiltons.
Hver gaslýsir?
Konur, karlar og kvár, hver sem er getur gaslýst.
Gaslýsing er mynstur aðferða sem ofbeldisfólk, narsissistar, einræðisstjórnir, leiðtogar sértrúarsafnaða og jafnvel annað fólk í valdastöðum notar til að ná stjórn á einstaklingi eða hóp af fólki. Markmiðið er að láta fórnarlömbin efast um eigin veruleika og gera þau háð gaslýsaranum.
Lygar og ýkjur
Gerandi segir neikvæða hluti um þig sem fær þig til að efast um sjálfa/sjálfan/sjálft þig. Þú ert í stanslausri vörn gagnvart gerandanum.
Gaslýsing myndi ekki virka ef henni væri bara beitt endrum og eins. Til að ná fullri stjórn er gerandi stanslaust að gaslýsa.
Gaslýsing mun að öllum líkindum aukast ef þú bendir geranda á hegðunina. Gerandi reynir þá að sanna að hann/hún/hán hafi rétt fyrir sér, þú ert gagnslaus, geðveik/ur/t o.s.frv. Þín upplifun er einfaldlega röng.
Gerandi neitar, kennir öðrum um, kemur fyrir efasemdum hjá þér og fleiri rangar fullyrðingar koma fram. Þú verður svo ringlaður/að/uð og gerir vart greinarmun á hvað er rétt og rangt lengur. Samkvæmt gerandanum eru allir aðrir að ljúga. Það eru allir á móti gaslýsaranum og þess vegna er verið að ljúga upp á hann. Þetta ýtir undir efasemdir þess sem verið er að gaslýsa og endar oft með því að fólk stendur með gerandanum.
Gaslýsing er ekkert annað en heilaþvottur.
Falskar vonir
Komið er fram við þig af yfirborðskenndri góðmennsku og sýnir gerandi kannski einhverja iðrun stundum og stundum. Þetta er til að gefa þér falskar vonir um að hlutirnir gætu verið að breytast til hins betra. Þú trúir því að sambandið geti batnað. Þetta er hinsvegar enn ein taktíkin notuð til að stjórna þér. Þú leggur niður varnarveggina og er bara tímaspursmál hvenær næsta högg kemur.
Meginmarkmið geranda er að ná fullri stjórn á þér og sambandinu ykkar. Þá geta þeir notað þig án afleiðinga ef svo má að orði komast. Lygarnar sem eru sagðar valda óöryggi hjá þér, efasemdum og hræðslu.
Framhjáhöld geta átt sér stað en þú ert látin halda að þú sért geðveik/t/ur fyrir að halda að svo sé. Líkamlegt ofbeldi getur hafist en það er alltaf „einhver ástæða“ fyrir því, af hálfu geranda þ.e. Þú ert ástæðan fyrir því að gerandinn „þurfti“ að tuska þig aðeins til eða það er reynt að telja þér trú um að atvikið hafi einfaldlega ekki gerst og sé því ímyndun eða að þetta hafi verið óvart. Þú varst kannski bara fyrir þegar gerandi ætlaði að fæla frá flugu með því að slá út í loftið. Einmitt.
Ást og hrós
Gaslýsari brýtur niður einstaklinginn og byggir hann aftur upp til þess eins að rífa hann aftur niður. Þetta veldur því að sá sem verið er að gaslýsa finnst aðstæðurnar kannski ekki svo slæmar þar sem góðu stundirnar geta verið mjög góðar. Gaslýsari getur verið mjög duglegur að hrósa og á tímum sýnir þér mikla ást en öðrum stundum er hann að láta þig efast um eigið ágæti. Sannfærir þig kannski um að þú munt ekki hafa það eins gott með öðrum eða einfaldlega að enginn vilji vera með þér.
Endurvarp
Ef þú sakar gaslýsara um lygar eða jafnvel framhjáhöld fer gaslýsari að saka þig um það sama. Það ert þú sem ert að gera allt þetta ekki hann.
Fólk endar í stanslausri vörn gegn hlutum sem það hefur hvorki sagt né gert.
Ertu geðveik/ur/t?
Gaslýsari veit að þú ert farin/n/ið að efast um geðheilsu þína og ert að leita eftir svörum. „Hvað er eiginlega að mér? Ég þarf að leita mér aðstoðar.“
Er verið að gaslýsa mig?
Það getur verið mjög erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri/sjálfum/sjálfu sér að verið sé að beita mann ofbeldi.
Ef þú spyrð þig hvort það geti verið að verið sé að gaslýsa þig er það líklegast satt.
Ef fólk í kringum þig er að benda þér á að þú hafir breyst, hefur áhyggjur af líðan þinni eða segist taka eftir slæmri hegðun hjá maka þínum í þinn garð sem hefur mögulega farið framhjá þér eða þú reynir að afsaka er kominn tími til að kryfja sambandið aðeins. Margir sem upplifa andlegt ofbeldi eru orðin svo vanir þessari hegðun að hún virðist kannski eðlileg en er hægt og bítandi að eyðileggja þig og hefur verið að gera í einhvern tíma.
Man elskar aðilann sem beitir ofbeldinu og vegna þess verður þetta allt svo miklu erfiðara.

Hvað er til ráða?
Reyndu að vera meðvituð/að/aður um hvað er sagt og gert í kringum þig. Reyndu að trúa á þig og þitt innsæi. Mundu að ekkert sem gaslýsari er að gera er þér að kenna. Sættu þig við að þú munt aldrei „vinna“ í þessum aðstæðum. Þú þarft að koma þér úr sambandinu og með því að gera það ertu búin/ð/nn að vinna.
Gerendur láta eins og þeir séu fórnarlömb og munu líklega aldrei viðurkenna að hafa gert neitt rangt. Þeir fara að trúa eigin lygum. Það skiptir öllu máli að hlúa vel að sjálfri/sjálfum/sjálfu sér í þessum aðstæðum. Fólk í kringum þig mun trúa þér og grípa þig.
Úrræði vegna líkamlegs, andlegs eða kynferðisofbeldis
Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar
Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar eru staðsettar á fimm stöðum og sinna ýmiskonar þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur. Þar er hægt að leita sér stuðnings ef um ofbeldistengd málefni er að ræða, hvort sem er á heimili eða utan þess. Stuðningurinn er í formi ráðgjafar þar sem þjónustumiðstöðvarnar veita m.a. félags- og fjölskylduráðgjöf.
Sími: 411-1111
Þjónusta Stígamóta er fyrir fólk frá 18 ára aldri, bæði konur og karla. Flestir sem koma til Stígamóta eru brotaþolar kynferðisofbeldis, bæði í æsku og/eða á fullorðinsárum. Stígamót eru líka fyrir fjölskyldumeðlimi og aðra aðstandendur brotaþola.
Sími : 562-6868 / 800-6868
Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi sé ekki liðið. Bjarkarhlíð býður upp á fyrirlestra og námskeið um birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess. Bjarkarhlíð er við Bústaðaveg og tók til starfa 1. febrúar 2017.
Sími 553-3000
Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis – Landspítalinn
Markmið neyðarmóttökunnar er að tryggja velferð og stöðu þeirra sem til þjónustunnar leita vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.
Tilgangur með þjónustu neyðarmóttökunnar er að draga úr eða koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt heilsutjón sem oft er afleiðing kynferðisofbeldis.
Þeim sem leita til neyðarmóttökunnar skal sýnd fyllsta tillitssemi og hlýja og þess gætt að þeim sé ekki mætt með vantrú eða tortryggni.
Símanúmer:
543 1000 – Aðalskiptiborð LSH
543 2000 – Afgreiðsla bráðamóttöku LSH
543 2094 – Neyðarmóttaka á dagvinnutíma
543 2085 – Áfallamiðstöð LSH
Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur alls kyns ofbeldis og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er fyrir bæði konur og karla.
Símanúmer: 551 5511 / 860 3358
Athvarf fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra heimilismanna.
Athvarfið er einnig fyrir konur sem hefur verið nauðgað.
Sími: 561 3720
Neyðarnúmer allan sólarhringinn: 561 1205
Í neyðartilfellum skal ávallt hringja beint í 112.
Heimildir:
Choosing Therapy
Psychology Today
Insider
Medical News Today
Grampian Women´s Aid
Vox
112.is
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?