Sumum fallast vísast hendur þegar þeir sjá hinsegin stafasúpuna LGBPTTQQIIAA+ enda kannski ómögulegt fyrir fólk að leggja á minnið fyrir hvað hver einasti stafur í rununni löngu stendur og skilgreiningar þeirra hugtaka. Við skulum líta aðeins nánar á stafasúpuna.
Hér á Áttavitanum höfum við valið yfirheitið “Hinsegin – LGBTQIA+” til þess að tákna regnbogaregnhlífina sem gnæfir yfir öllum þeim hugtökum sem skilgreina fólk sem er “hinsegin”. LGBTQIA stendur fyrir lesbíur, homma (gay), tvíkynhneigða (bisexual), trans, hinsegin (queer), intersex og eikynhneigða (asexual) og er auðvitað ekki tæmandi upptalning á skilgreiningum og hugtökum í hinseginfræðunum. Hér ætlum við að reyna að bæta um betur og gefa stuttar skýringar á þeim fjölmörgu hugtökum sem fyrirfinnast í hinsegin heiminum. Líta má á listann sem einhvers konar hinsegin orðabók eða lista yfir orðskýringar og skilgreiningar á hinsegin orðum.
Athugið að mörg þessara hugtaka eru ný í íslensku og getur því merking þeirra verið umdeild. Þessi listi er ekki tæmandi og merking orðanna gæti átt eftir að eftir að breytast eða nýjar og betri þýðingar skjóta upp kollinum. Öllum er frjálst að ræða orðin í athugasemdakerfinu og sé samstaða um breytingartillögur verður þessum lista breytt í samræmi við það.
Hinsegin frá A til Ö:
Að koma út úr skápnum
Það ferli að opinbera kynhneigð eða kynvitund sína fyrir fjölskyldu, nánum vinum eða stærri hóp. Oft álítur fólk þetta vera stakan viðburð en yfirleitt getur þetta verið ævilangt ferli. Ruglist ekki á þessu og “að þvinga einhvern út úr skápnum”.
Að þvinga einhvern út úr skápnum (e. outing)
Þegar einstaklingur opinberar kynhneigð eða kynvitund annars einstaklings án þess að hafa leyfi fyrir því. Ekki kúl! Passið að rugla þessu ekki saman við “að koma út úr skápnum”.
Bandamaður/stuðningsmaður (e. ally)
Manneskja sem er ekki hinsegin sjálf en styður hinsegin fólk. Til dæmis gagnkynhneigð, sís manneskja sem styður hinsegin fólk. Einnig: Bandakona, stuðningskona, bandakvár, stuðningskvár.
Bur
Ókyngreint hugtak sem samsvarar orðunum sonur og dóttir. Orðið „bur“ er fornt í málinu, upprunalega í karlkyni, og merkti þá sonur. Það er af sama stofni komið og „að bera“ og „barn“. Orðið fellur haganlega að hvorugkynsbeygingum (bur-bur-buri-burs). Frá janúar 2021 hefur kynsegin fólki verið leyfilegt að nota -bur sem kenninafnsendingu (sbr. Blær Jónsbur).
Dragdrottning
Einstaklingur, oftast karlkyns, sem stígur á stokk í ýktu kvengervi, yfirleitt á leiksýningu eða gjörningi. Stundum ruglað saman við trans eða klæðskipti.
Dragkóngur
Einstaklingur, oftast kvenkyns, sem stígur á stokk í ýktu karlgervi, yfirleitt á leiksýningu eða gjörningi. Stundum ruglað saman við trans eða klæðskipti.
Dulkynja/vífguma (e. androgyny)
Kyngervi sem felur í sér hluta af bæði karl- og kvenleika. Stundum ruglað saman við órætt útlit (þ.e. manneskja sem er erfitt að lesa sem karl- eða kvenlega).
Eikynhneigð (e. asexual)
Einstaklingur sem laðast lítið eða ekkert kynferðislega að öðru fólki. Sjá greinina Hvað er eikynhneigð?
Eigerva (e. genderless/agender)
Einstaklingur sem samsvarar sig ekki neinu kyni.
Flæðigerva (e. Gender fluid)
Kynvitund sem breytist eða er fljótandi. Getur breyst reglulega eða óreglulega og eftir mismunandi þáttum, t.d. umhverfi, líðan, félagsskap o.s.frv.
Frjálsgerva/kynsegin (e. non-binary)
Regnhlífarhugtak fyrir kynvitundir sem falla utan einungis karl- eða kvenkyns. Felur meðal annars í sér tvígerva, flæðigerva og algerva, en getur einnig staðið sem kynvitund eitt og sér og þýðir þá kynvitund sem fellur utan kynjatvíhyggjunnar. Stundum notað eitt og sér vegna þess hve opið hugtakið er fyrir persónulega túlkun hvers og eins. Sumt kynsegin fólk notar ókynbundið mál um sjálft sig, svo sem fornafnið hán, en það er þó allur gangur á því.
FtM/MtF
Skammstafanirnar útleggjast á ensku sem Female to male (kona til karls) og Male to female (karl til konu). FtM á við trans karl (þ.e. karl sem fékk kvenkyni úthlutað við fæðingu og hefur því á einhvern hátt „farið úr konu í karl,“ eða female to male) og MtF er öfugt: orðalag yfir trans konu. Flestir kjósa hinsvegar bara að tala um sig sem konu eða karl, eða trans konu eða trans karl, án þess að þurfa að tilgreina fortíð sína á þennan máta.
Gagnkynhneigð
Einstaklingur sem laðast að öðru kyni en sínu eigin, til dæmis kona sem laðast fyrst og fremst að karlmönnum.
Hán
Persónufornafn sem sumir kynsegin einstaklingar vilja að sé notað í stað “hann” eða “hún”. Persónufornafnið er í hvorugkyni og beygist því: hán-hán-háni-háns. Persónufornafnið tekur með sér lýsingarorð í hvorugkyni. Einnig hefur verið stungið upp á persónufornöfnunum “hín” og “hé” í sama tilgangi. Þá er líka hægt að nota fornafnið þegar um óræða manneskju er að ræða, það er, þegar þú ert að tala um einstakling sem ekki er einhver ákvæðin manneskja. Dæmi: Hér situr einhver núþegar. Ætli háni sé sama þó hán færi sig um eitt sæti?
Heterosexismi/gagnkynhneigðarhyggja
Gagnkynhneigð forréttindahyggja. Samansafn hugmynda og hegðun sem veitir gagnkynhneigðum forréttindi, styrkir hugmyndina um að gagnkynhneigð sé betri eða réttari en aðrar kynhneigðir, eða viðurkennir ekki tilvist annarra kynhneigða. Gagnkynhneigðarhyggja byggir á hugmyndinni um tvö kyn.
Hinsegin
(1) Upphaflega níðorð, notað yfir LGBTQIA+ fólk eða aðra sem fara útfyrir hefðbundið kyn.
(2) Nú er það notað sem regnhlífarhugtak yfir LGBTQIA+ einstaklinga, – það er einstaklinga sem falla einhvern vegin utan hins “hefðbundna” kyngervis, kynhneigða. Fjöldi hinsegin fólks lítur ekki lengur á þetta sem níðorð og notar þetta sem safnorð fyrir LGBTQIA+ fólk.
Hommahatur
Sú gerð hómófóbíu sem beinist einvörðungu gegn samkynhneigðum karlmönnum.
Hómófóbía
Hræðsla, reiði, skortur á umburðarlyndi, óvild eða óróleiki gagnvart hinsegin fólki.
Hýr
Hugtak sem lýsir mönnum sem laðast að mönnum, en oft einnig notað um konur sem laðast að konum.
Intersex
Einstaklingur sem er með ódæmigerð kyneinkenni. Það getur t.d. birst í ytri eða innri kyn- og æxlunarfærum, hormónum, litningum eða annars stigs kyneinkennum, svo sem fitu- og vöðvadreifingu eða raddhæð. Sumir einstaklingar falla ekki skýrt að ríkjandi hugmyndum um líkamlegt kyn og kallast því intersex. Meiri upplýsingar er að finna í grein Áttavitans Hvað er intersex.
Í skápnum
Hinsegin einstaklingur sem hefur ekki deilt kynhneigð eða kynvitund sinni með öðrum.
Karl
Einstaklingur sem upplifir sig sem karl, er með kynvitundina karl. Margir karlar sýna karlmannlega kyntjáningu.
Karlkynhneigð (e. androsexual)
Einstaklingur sem laðast að karlmönnum, karlkyni og/eða karlmannleika.
Klæðskipti (e. cross-dressing)
Að klæðast fötum sem brýtur í bága við hefðbundna kyntjáningu einstaklingsins (t.d. karlmaður í kjól) af einhverri ástæðu, svo sem til slökunar, skemmtunar og kynörvunar. Fer stundum saman við að vera trans.
Kona
Einstaklingur sem upplifir sig sem konu, er með kynvitundina kona. Margar konur sýna kvenlega kyntjáningu.
Kvár
Orð yfir kynsegin einstaklinga sem samsvarar orðunum karl og kona.
-kvár
Viðskeyti sem kemur í staðinn fyrir orðin karl og kona í samsettum orðum. Hægt að nota orðið fyrir kynsegin fólk, en einnig fyrir órætt kyn þegar ekki er verið að tala um ákveðinn einstakling. Dæmi: Mágkvár (sbr. mágkona, mágur), svilkvár, aðstoðarkvár, stuðningskvár, þingkvár, lögreglukvár.
Kvenkynhneigð (e. gynesexual)
Einstaklingur sem laðast að konum, kvenkyni og/eða kvenleika.
Kyn
Kyn er margslungið og samanstendur m.a. af kyneinkennum einstaklings, kyntjáningu, kynvitund og félagslegu kyni. Kynvitund einstaklingsins er þó það sem skiptir mestu máli: hvort einstaklingurinn upplifir sig sem karl, konu, kynsegin eða eitthvað annað, burtséð frá því hvaða kyni einstaklingurinn fékk úthlutað við fæðingu.
Kynsegin/kynfrjáls (e. genderqueer)
(1) Yfirheiti yfir þá einstaklinga hverra kynvitund fellur utan tvíhyggjunnar.
(2) Einstaklingur sem samsamar sig bæði karli og konu, eða hvorki karli né konu, eða eitthvað annað.
Kyngervi
Kynferði í félagslegum skilningi. Það sem samfélagið túlkar og ætlast til af karli eða konu.
Kynjatvíhyggja (e. binary gender)
Hefðbundin og úreld hugmynd um kyn sem takmarkar möguleikana við karl og konu.
Kynsegin/frjálsgerva (e. non-binary)
Regnhlífarhugtak fyrir kynvitundir sem falla utan einungis karl- eða kvenkyns. Felur meðal annars í sér vífguma/dulkynja, tvígerva, flæðigerva og algerva, en getur einnig staðið sem kynvitund eitt og sér og þýðir þá kynvitund sem fellur utan kynjatvíhyggjunnar. Stundum notað eitt og sér vegna þess hve opið hugtakið er fyrir persónulega túlkun hvers og eins.
Kynhneigð
Kynferðisleg, rómantísk, líkamleg og/eða andleg löðun sem einstaklingur finnur fyrir gagnvart öðrum, oft skilgreint eftir kyni eða kyngervi einstaklinganna sem um ræðir. Til dæmis: Gagnkynhengið, tvíkynhneigð, etc.
Kynleiðrétting
Ferli sem hefur bæði félagslegar, læknisfræðilegar og lagalegar hliðar sem að sumt trans fólk gengur í gegnum til að samræma líkama sinn og hvernig það lifir sínu lífi að kynvitund sinni. Það getur falið í sér breytingu á kyntjáningu (t.d. klæðaburði eða hárgreiðslu), notkun á kynjuðu máli (t.d. tala um sjálfan sig í karlkyni frekar en kvenkyni, vera svangur en ekki svöng), notkun á nýju nafni. Einnig getur það þýtt læknisfræðlegar breytingar á líkamanum, svo sem með töku hormóna eða skurðaðgerða. Það er gert í samráði við heilbrigðisstarfsfólk. Á Íslandi er haft samband við trans teymið á Landspítalanum fyrir þau sem eru eldri en 18 ára en Barna- og unglingageðdeild fyrir þau sem eru 17 ára eða yngri. Svo kjósa sumir að breyta nafni sínu og kynskráningu hjá þjóðskrá en það er einungis í boði fyrir þau sem eru 18 ára eða eldri og undir handleiðslu trans teymisins. Ekki er nauðsynlegt að gera allt, eða í raun neitt, af þessum lista til að vera „alvöru“ strákur eða stelpa, karl eða kona, eða kynsegin manneskja.
Kyntjáning (e. gender expression)
Hvernig einstaklingurinn tjáir sitt kyn. Bæði með klæðnaði, hárgreiðslu, skartgripum og andlitsfarða en einnig með fasi og almennu háttalagi. Oft talað um kvenlega eða karlmannlega kyntjáningu.
Kynvitund (e. gender identity)
Upplifun einstaklingsins af eigin kyni.
Kærast
Ókyngreint hugtak sem samsvarar kærustu/kærasta. Orðið beygist í hvorugkyni; kærast – kærast – kærasti – kærasts og tekur með sér hvorugkyns lýsingarorð. Eins má nota unnust sem ókyngreint hugtak um einstakling sem er trúlofaður.
Líffræðilegt kyn
Oft notað til að lýsa kyneinkennum einstaklings við fæðingu. Það gefst þó betur að ef þarf að tala um eitthvað annað en kynvitund einstaklingsins, að tala beint um þau kyneinkenni sem um ræðir. Ef t.d. er verið að ræða um fólk með leg að segja þá fólk með leg, en ekki fólk sem er líffræðilega kvenkyns.
Órætt útlit
Manneskja sem er erfitt að lesa sem karl- eða kvenlega.
Pangerva (e. pangender)
Kynvitund sem blandar saman mörgum mismunandi kynvitundum og kyntjáningu. Hugtakið var ein af vinningstillögum úr Hýryrðasamkeppni Samtakanna ’78 árið 2015 og hefur mögulega ekki skapað sér sess í orðaforða fólks enn.
Pankynhneigð/persónuhrifning
Einstaklingur sem laðast á kynferðislegan, rómantískan, líkamlegan og/eða rómantískan hátt að fólki óháð kyngervi og kynvitund þeirra. Lestu meira í grein Áttavitans; Hvað er pankynhneigð?
Samkynhneigð
Einstaklingur sem laðast að fólki af sama kyni.
Sís/sískynja (e. cisgender)
Þegar kynvitund og kyntjáning einstaklings samræmist lífræðilegu kynieinstaklingsins t.d. kona sem fædd er kvenkyns og er með kvenlega kyntjáningu.
Að vera sískynja þýðir að kynvitund einstaklingsins samræmist því kyni sem viðkomandi fékk úthlutað við fæðingu.
Sís kona
Kona sem fékk kvenkyni úthlutað við fæðingu.
Einstaklingur með kvenlæga kynvitund, sem sýnir kvenlega kyntjáningu og er líffræðilega kvenkyns.
Sís karl
Einstaklingur sem er með karllæga kynvitund, sýnir karlmannlega kyntjáningu og er líffræðilega karlkyns.
Karl sem fékk karlkyni úthlutað við fæðingu. Þ.e., kynvitund einstaklingsins er í samræmi við það kyn sem var áætlað út frá kynfærum einstaklingsins við fæðingu.
Stálp
Orð yfir kynsegin barn, sem samsvarar orðunum stelpa og strákur.
Talsmaður (e. advocate)
Einstaklingur sem vinnur að því á virkan hátt að enda óréttlæti, fræða aðra og styðja félagslegt jafnrétti fyrir minnihlutahóp (í þessu tilviki hinsegin samfélagið).
Trans/kynáttunarvandi/skapandi kynvitund
Yfirheiti yfir þá einstaklinga sem eru ekki sískynja, – það er einstaklingur með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem var úthlutað við fæðingu. Trans fólk hefur kost á því að leiðrétta kyn sitt með aðstoð læknisfræði, til þess að það samræmist kynvitund einstaklingsins. Orðið „kynáttunarvandi“ er aðallega í notkun innan heilbrigðiskerfisins.
Trans fólk
Einstaklingar með kynvitund á skjön við það kyn sem þeir fengu úthlutað við fæðingu. Sumt trans fólk fer í kynleiðréttingarferli til að samræma þeirra líkama og félagslegt líf við sína kynvitund.
Trans kona
Kona sem fékk karlkyni úthlutað við fæðingu en upplifir sig sem konu og er því kona.
Trans karl
Karl sem fékk kvenkyni úthlutað við fæðingu en upplifir sig sem karl og er þar af leiðandi karl.
Trukkalessa (e. dyke)
Neikvætt hlaðið slangurorð yfir lesbíur með karlmannlega kyntjáningu. Orðið hefur verið endurheimt af mörgum lesbíum og notað innan hinsegin heimsins án neikvæðu hleðslunnar, en fólk utan hinsegin samfélagsins ætti að fara mjög varlega í að nota slíkt orð.
Tvígerva (e. bigender)
Fólk sem skilgreinir sig sem tvö kyn. Tvígerva fólk er stundum með fljótandi kynvitund sem færist sérstaklega á milli þeirra tveggja kynja sem það skilgreinir sig sem, t.d. með því að tjá sig á mjög karllægan hátt eða mjög kvenlegan hátt, eftir samhengi og líðan.
Tvíkynhneigð
Einstaklingur sem laðast að fólki af fleiri en einu kyni á kynferðislegan, rómantískan og/eða andlegan hátt. Oft ruglað saman við pankynhneigð. Sjá grein Áttavitans: Mýtur um tvíkynhneigð.
Vífguma/dulkynja (e. androgyny)
Kyngervi sem felur í sér hluta af bæði karl- og kvenleika. Stundum ruglað saman við órætt útlit (þ.e. manneskja sem er erfitt að lesa sem karl- eða kvenlega).
Þriðja kynið
(1) Einstaklingur sem ekki samsamar sig við hefðbundnar skilgreiningar á kyngervi karla og kvenna heldur annars kyngervis.
(2) Valmöguleiki kynflokkunar í þeim ríkjum þar sem þrjú eða fleiri kyn eru viðurkennd.
Heimildir:
Listinn er unninn upp úr lista á síðunni It’s pronounced metrosexual.
Þá fengum við aðstoð sérfræðinga samtakanna 78 til að yfirfæra greinina og kunnum þeim bestu þakkir fyrir.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?