Hugtakið transfóbía er notað til að lýsa fordómum á transfólki. Það gæti vísað til hegðunar eða ummæla sem ætlað er að særa trans einstaklinga. Hegðunin getur bæði átt sér stað í raunheimum og í netheimum. Slík hegðun dregur dilk á eftir sér, hún getur haft áhrif á andlega heilsu transfólks og gert það erfiðara fyrir einstaklinga að koma úr skápnum. Ef þú ert trans eða langar að koma úr skápnum mundu að þú hefur rétt á því að vera þú sjálf/ur án þess að verða fyrir aðkasti. Hér að neðan eru nokkrar ráðleggingar um hvernig þú getur tekið á transfóbíu.

Af hverju transfóbía?

Oft er fólk hrætt við eitthvað sem það þekkir ekki og leitar í stríðni eða aðkast. Þó svo að þessi viðbrögð meiki ekki mikinn sens þá eru afleiðingarnar raunverulegar. Fyrir transfólk og aðra minnihlutahópa getur aðkastið verið sérstaklega erfitt viðureignar. Hvort sem þú ert að eiga við skilningsleysi frá fjölskyldu eða að vera neitað um að nota almenningssalerni þá getur þér liðið eins og að transfóbía sé úti um allt. Hér eru nokkur dæmi um transfóbíu:

  • Andlegt ofbeldi – t.d. stríðni og uppnefni
  • Líkamlegt ofbeldi
  • Hótanir
  • Útilokun – Ef að fólk skilur þig vísvitandi útundan vegna kyngervis þíns þá er það transfóbía
  • Að virða ekki kynvitund þína – t.d. með því að ávarpa þig sem annað kyn en þú upplifir þig sem

Transfóbía á netinu

Því miður eru alltaf til einstaklingar sem fá eitthvað út úr því að særa aðra, þessir einstaklingar eru oft á heimavelli á netinu. Þó svo að þú þekkir ekki viðkomandi eða hann jafnvel skrifi í nafnleysi Þá geta ummælin verið særandi. Það besta í stöðunni er að átta sig á því að vandamálið liggur ekki hjá þér, vandamálið liggur hjá þeim sem vísvitandi særa aðra. Hér eru nokkrar ráðleggingar sem þú getur nýtt þér ef þú upplifir transfóbíu á netinu:

  • Tilkynntu hegðunina – Transfóbía er hatursglæpur og þeir sem deila hatri, þá á að stöðva. Á flestum samfélagsmiðlum er hægt að tilkynna notendur og færslur frá þeim sem eru ógeðfelldar.
  • Reyndu að bregðast ekki við – Það getur verið erfitt að bregðast ekki við þegar við sjáum ógeðsleg ummæli en hafðu í huga að það er oft það sem einstaklingurinn sækjist eftir. Ekki gefa net-tröllum ánægjuna af því að vita til þess að ummæli þeirra hafi sært þig.
  • Skapaðu jákvætt umhverfi – Þú getur blokkað þá sem eru í særandi skrifum og reynt að fylgja frekar einhverjum með jákvæð skilaboð. Greinin okkar um andlega heilsu á netinu getur líka hjálpað.

Fjölskylda og vinir

Hvað ef fjölskylda og vinir þínir sýna af sér transfóbíu? Það getur verið sérstaklega sárt þegar að þeir sem standa næst þér sýna þér skilningsleysi. Mundu að þetta er þitt líf, ekki þeirra og það er mikilvægt að lifa lífinu eftir eigin sannfæringu. Ekki láta vini og fjölskyldu stöðva þig í að vera sá sem þú vilt vera, reyndu frekar að:

Setja sjálfa/n þig í fyrsta sæti
Ef þér líður ekki vel heima við vegna transfóbíu fjölskyldu þinnar, leitaðu þér þá aðstoðar. Samtökin 78 geta ráðlagt þér í þessum aðstæðum en í alvarlegri aðstæðum þar sem öryggi þínu er ógnað þá skal hafa samband við lögreglu.

Fræða þau
Oft er skorturinn á stuðningi við þig kominn til vegna þekkingarleysis. Það getur verið erfitt og ruglandi fyrir þá sem eru nákomnir þér að heyra hvernig þér líður vegna þess að þau þekkja ekki betur. Beindu þeim á bækur, vefsíður eða heimildamyndir sem þú telur að geti hjálpað þeim að skilja hvernig þér líður.

Finna stuðning
Reyndu að umvefja þig af fólki sem skilur þig og þú treystir. Þessir einstkalingar geta bætt líðan þína og stutt þig jafnvel þó fjölskylda og vinir geri það ekki.

Að auki viljum við nota tækifærið og benda þér á greinina okkar um að koma út sem trans 😉

Greinin er þýdd og staðfærð af TheMix
Dealing with Transphobia

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar