Það munu líklegast allir lenda í því eða hafa lent í því nú þegar að einhver náin/n þeim kemur út úr skápnum sem hinsegin. Það er mikilvægt að vera tilbúin/n til þess að bregðast vel við því þegar einhver kemur út svo að upplifunin geti verið eins jákvæð og mögulegt er.

Hvernig er gott að bregðast við

Þetta þarf alls ekki að vera dramatískt; oft endar samtal þar sem manneskja kemur út fyrir öðrum einfaldlega á orðunum „Okei kúl“ og það nær ekki lengra en það. Mörgum finnst þetta hreinlega ekkert mál en það er auðvitað mismunandi hjá hverjum og einum hvernig er best að bregðast við þegar að einhver nákomin þeim kemur út; það fer eftir sambandinu milli einstaklinganna, hversu lengi þau hafa þekkst og hvernig samskipti þeirra eru venjulega. Hér koma því nokkur dæmi um hluti sem er gott að hafa í huga í svona aðstæðum.

Takk fyrir að segja mér

Oft er nóg að þakka bara fyrir traustið sem að manneskjan er að sýna með því að koma út úr skápnum fyrir manni. Þá er líka hægt að spyrja hvort manneskjan vilji tala um þetta eitthvað frekar, stundum er svarið nei, stundum er svarið já. Sumir hafa enga þörf til að tala um þetta en öðrum finnst gott að tala við einhvern sem þau treysta. 

Ekki segja frá

Það er gott að hafa það á hreinu hvort að manneskjan hafi sagt öðrum frá hinseginleika sínum. Það er mikilvægt að vita hvort það sé ennþá leyndarmál eða ekki svo að þetta breiðist ekki óvart út, kannski vill manneskjan sem kom út bara hafa þetta fyrir sig og sína nánustu. 

Stuðningur

Síðast en ekki síst er gott að bjóða stuðning. Þetta er stressandi tími í lífi margra þegar verið er að koma út úr skápnum fyrir sínum nánustu. Þá getur verið gott að fá stuðning við að segja öðrum frá t.d. foreldrum eða öðrum fjölskyldumeðlimum. Þá er ekki endilega verið að meina að fara með manneskjunni sem ætlar að koma út og halda í höndina á þeim á meðan þau létta af sér; heldur bara að bjóða stuðning og vera tilbúin/n til að styðja manneskjuna eins og þeim sjálfum finnst best að fá stuðning. 

Hverju er best að sleppa

Það getur komið á óvart þegar einhver kemur út og fólki finnst oft skrýtið að manneskja sem þau þekkja vel hafi verið að ,fela’ svona stórt leyndarmál frá þeim eða halda jafnvel að manneskja sé bara að djóka.

Ekki hlæja

Það er samt mikilvægt að fara ekki að hlæja þegar að einhver kemur út eða segjast ekki trúa því að þau séu hinsegin. Hinsegin fólk er oft búið að velta því lengi fyrir sér að koma út og pæla mikið í öllum viðbrögðunum sem það gæti fengið; hlátur og efasemdir eru ekki skemmtileg viðbrögð til þess að fá og geta jafnvel látið manneskjuna halda að þau séu ekki ,nógu’ hinsegin til þess að koma út. 

Ekki pæla í fortíðinni

Það er heldur ekki gott að fara að rifja upp atvik þar sem að manneskjan gerði eitthvað sem að er ,ekki hinsegin’ t.d. ef að vinkona kemur út sem lesbía þá er gott að sleppa því að rifja upp alla strákana sem hún sagðist vera skotin í eða jafnvel verið á föstu með. Það skiptir ekki máli hvað þau gerðu einu sinni, bara hvernig þeim líður núna. 

Ekki vera beturviti

Þá er best að sleppa því að segjast hafa vitað allan tíman að manneskjan væri hinsegin og að það væri ,sko alveg augljóst’ að þau væru það. Kannski vissi manneskjan það ekki einu sinni sjálf fyrr en fyrir stuttu! Munum að það sést ekki utan á fólki hvort það er hinsegin eða ekki og eina manneskjan sem getur raunverulega vitað það er manneskjan sjálf. 

Höfundur:
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar